*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Týr
5. september 2019 12:25

Ráðherrastólar

Skipa á nýjan dómsmálaráðherra á morgun. Af biturri reynslu vilja Sjálfstæðismenn velja lögfræðing í embættið.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Axel Jón Fjeldsted

Á morgun er boðaður ríkisráðsfundur á Bessastöðum, þar sem ætlunin er að skipaður verði nýr dómsmálaráðherra. Þegar hugað er að ráðherraskipan er jafnan litið til hluta eins og kynjahlutfalla, jafnvægis kjördæma, reynslu og stöðu á lista. Af biturri reynslu vilja Sjálfstæðismenn hins vegar aðeins velja lögfræðinga í þetta tiltekna embætti og þá koma í raun aðeins þrír til greina.  

                                          ***

 Það eru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Birgir Ármannsson og Brynjar Níelsson. Öll eru þau dugandi þingmenn og gætu öll sinnt embætti dómsmálaráðherra með sóma og af því fumleysi, ábyrgð og stjórnfestu sem þarf í það veigamikla og viðkvæma embætti. En það skiptir líka máli að vanda valið út frá pólitískari sjónarmiðum. Vilji Sjálfstæðisflokkurinn halda og treysta sig í sessi sem burðarás íslenskra stjórnmála þarf hann að breikka og stækka ásýnd sína og forystusveitar sinnar.  

                                          ***

Ef aðeins væri horft til kynjahlutfalla væri Áslaug Arna sjálfkjörin. Henni væri þó tæplega að skapi að vera valin aðeins sakir kynferðis, og svo sagði hún sjálf, þegar hún var kjörin á þing 2016, að hún sæktist ekki eftir ráðherraembætti að sinni; hún vildi afla sér þingreynslu fyrst. Hún er áberandi í flokksforystunni sem ferskur flokksritari, en það yrði hún ekki á sama hátt sem ráðherra og þyrfti auk þess að víkja sem ritari. 

                                          ***

Enginn efast um hæfileika Brynjars Níelssonar á sviði laga og réttar og hann hefur lengri þingreynslu en Áslaug. Hann er fyrirferðarmikill þingmaður, óhræddur við að láta í ljós óvanalegar skoðanir, oft skemmtilega á skjön við hinn hefðbundna þingmann. En ásýnd flokksforystunnar breikkar varla með því að hafa Brynjar settlegan og prúðan í ráðuneytinu.  

                                          ***

Best færi á því að gera Birgi Ármannsson að dómsmálaráðherra. Hann hefur langmesta þingreynslu og er þingflokksformaður, sem jafnan hefur verið stökkpallur í ráðherrastól. Hann er afar vel þokkaður, jafnt í eigin liði sem öðrum þingflokkum, einstaklega vel að sér um stjórnskipunina; áreiðanlegur, varfærinn en ákveðinn. Jafnframt hefur hann þá prinsippfestu og sjálfstæði í hugsun, sem nauðsynleg er í embætti dómsmálaráðherra og vel sást í stjórnarskrármálunum upp úr hruni, að ekki sé minnst á Icesavemálin. Þar var Birgir fremstur í hópi þeirra fáu þingmanna sem stóðu á réttinum, rétti þjóðarinnar. Og hafði rétt fyrir sér.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 


Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.