*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Týr
20. nóvember 2021 16:01

Ráðherraveikin

Andrúmsloftið í Sjálfstæðisflokknum tekur mið af því að stór hópur þjáist af ráðherraveikinni svokölluðu.

Haraldur Jónasson

Einhverjir hafa beðið óþreyjufullir í þær tæpu átta vikur sem liðnar eru frá kosningum, til dæmis þeir þingmenn sem ekki vita hvort þeir séu í raun þingmenn. Átta vikur eru líka langur tími fyrir þá sem ganga með ráðherradrauma í maganum. Fyrir liggur að aðeins einn af núverandi ráðherrum mun segja skilið við stjórnmálin en það er síðan undir formönnum flokkanna komið að ákveða hvort aðrir ráðherrar sitji áfram og þá í hvaða ráðuneytum eða hvort aðrir verða skipaðir. Það er ekki auðvelt.

* * *

Við skipun núverandi ríkisstjórnar kaus Katrín Jakobsdóttir að leita út fyrir þingflokk Vinstri grænna þegar hún færði formann Landverndar að borðinu til að færa afturhaldsstefnu samtakanna inn á vettvang stjórnmálanna. Sigurður Ingi Jóhannsson var ekki í vandræðum með að fylla tvö ráðherrasæti fyrir utan sitt eigið og getur hæglega bætt við einu sæti í viðbót eftir að hafa sótt það mjög stíft.

* * *

Bjarni Benediktsson á þó erfiðara verkefni fyrir höndum. Fyrir utan sig og varaformann flokksins, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, eru Guðlaugur Þór Þórðarson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir augljósir kostir, en Áslaug Arna leiddi flokkinn í eina kjördæminu sem bætti við sig fylgi í nýafstöðnum kosningum. Það myndi skjóta skökku við ef eitthvert þeirra yrði ekki ráðherra í ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að. Guðrún Hafsteinsdóttir kemur vel til greina en hafi Njáll Trausti Friðbertsson væntingar til þess að verða ráðherra eru þær væntingar byggðar á lofti. Þá er oddvitalistinn upptalinn, en Bjarni hefur þó áður farið óhefðbundnar leiðir við val á ráðherrum.

* * *

Týr veit sem er að Jón Gunnarsson hefur sótt það fast að verða ráðherra og það hafa stuðningsmenn hans líka gert. Það eru þó önnur nöfn sem Týr myndi telja líklegri, til dæmis Óli Björn Kárason, Birgir Ármannsson, Vilhjálmur Árnason og Haraldur Benediktsson. Það er allavega nóg af körlum í boði og andrúmsloftið í þingflokknum tekur mið af því að stór hópur þjáist af ráðherraveikinni svokölluðu.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.