*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Leiðari
11. október 2018 16:03

Ráðist á Vestfirðinga?

Til hvers höfum við úrskurðarnefndir ef úrskurðir þeirra hafa nánast enga þýðingu og eiga umhverfismál alltaf að víkja fyrir öðrum hagsmunum?

Haraldur Guðjónsson

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi á dögunum úr gildi bæði rekstrar- og starfsleyfi fiskeldisfyrirtækjanna Arctic Sea Farm og Fjarðalax, en hið síðarnefnda sameinaðist reyndar Arnarlaxi fyrir tveimur árum. Bæði Arctic Sea Farm og Arnarlax eru með starfsemi á Vestfjörðum. Leyfin voru felld úr gildi eftir kæru nokkurra umhverfisverndarsamtaka, landeigenda, veiðiréttarhafa og veiðifélaga.

Úrskurðirnir ollu miklu fjaðrafoki þegar þeir voru birtir. Fjölmargir þingmenn, sérstaklega þingmenn Vestfjarða, risu upp og mótmæltu þessum úrskurðum nefndarinnar með upphrópunum eins og „Vestfirðingum er haldið í herkví“. Endurspeglar þetta því miður hið lága plan sem umræðan um laxeldi er komin á.

Í kjölfar úrskurðanna sendu Vestfjarðarstofa og sveitarstjórnir á Vestfjörðum frá sér yfirlýsingu, þar sem þess var beinlínis krafist að stjórnvöld gripu til aðgerða „til að tryggja áframhaldandi atvinnuuppbyggingu á svæðinu“. Enn fremur sagði í yfirlýsingunni að fiskeldi væri „umhverfisvæn atvinnugrein sem skapað getur umtalsverð útflutningsverðmæti fyrir land og þjóð og haft í för með sér jákvæða íbúaþróun“. Það er sannarlega rétt að fiskeldi getur skapað útflutningsverðmæti og haft jákvæð áhrif á byggðaþróun en fullyrðingar um að atvinnugreinin sé „umhverfisvæn“ standast ekki skoðun. Í samanburði við hvað er þessi atvinnugrein umhverfisvæn?

Hér komum við einmitt að kjarnanum í úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Áður en lengra er haldið ber að geta þess að nefndin starfar að sjálfsögðu samkvæmt lögum frá Alþingi. Hennar hlutverk er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála. Nefndin er því mikilvægur hlekkur í allri málsmeðferð á stjórnsýslustiginu. Það er líka mikilvægt að fólk átti sig á því að þessari nefnd er ekki tjaslað saman. Í nefndinni sitja sjö fulltrúar, sem þurfa að uppfylla ströng hæfisskilyrði. Formaður og varaformaður eru skipaðir af umhverfisráðherra en hinir fimm eftir tilnefningu Hæstaréttar. Að jafnaði er nefndin skipuð þremur fulltrúum við meðferð máls en fimm í stærri málum eins og því sem hér er verið að fjalla um.

Það sem mestu máli skiptir í úrskurðunum er að þegar fyrirtækin fóru í gegnum umhverfismat Skipulagsstofnunar þá lögðu þau einungis einn valkost framkvæmdar fram til mats á umhverfisáhrifum og að við það var ekki gerð athugasemd af hálfu Skipulagsstofnunar. „Í trássi við lög var ekki á neinu stigi málsmeðferðarinnar gerð gangskör að því að greina frekari valkosti og bera umhverfisáhrif þeirra saman við umhverfisáhrif aðalvalkosts framkvæmdaraðila.“

Þetta er kjarni málsins, sem og að hvorki Umhverfisstofnun né Matvælastofnun sinntu skyldum sínum áður en þau veittu starfs- og rekstrarleyfi. Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt lögum hvíli sú skylda á þessum stofnunum að gæta þess að lögbundið álit Skipulagsstofnunar sé nægilega traustur grundvöllur leyfisveitingar. Þessar tvær stofnanir áttu með öðrum orðum að ganga úr skugga um að ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum laxeldisins hefði verið fullnægt. Það gerðu þær ekki.

Fyrirtækin fóru fram á frestun réttaráhrifa vegna úrskurðanna er vörðuðu ógildingu starfs- og rekstrarleyfis en nefndin vísaði þeirri beiðni frá. Í því samhengi er sérlega áhugavert að nefndin vekur athygli á því að samkvæmt lögum hafi ráðherra heimild, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, til að veita tímabundna undanþágu frá kröfu um starfsleyfi. Nefndin tekur einnig fram að taki Matvælastofnun ákvörðun um að stöðva starfsemi rekstraraðila þá sé sú stjórnvaldsákvörðun kæranleg til ráðherra.

Þvert á það sem fram hefur komið virðist lagaramminn því vera skýr enda er í úrskurðunum vísað í fjölmargar lagagreinar, reglugerðir og dóma. Samt sem áður lagði sjávarútvegsráðherra fram frumvarp, sem ætlað er að laga „annmarka“ á lögum um fiskeldi. Megintilgangur þessa frumvarps, sem var samþykkt í fyrrakvöld, er samt sá að geta gefið út bráðabirgðaleyfi til allt að tíu mánaða. Þá standa eftir tvær stórar spurningar. Til hvers höfum við úrskurðarnefndir ef úrskurðir þeirra hafa nánast enga þýðingu og eiga umhverfismál alltaf að víkja fyrir öðrum hagsmunum?

Eins og rakið hefur verið eru úrskurðir nefndarinnar í málum Arctic Sea Farm og Arnarlax fyrst og síðast áfellisdómur yfir stjórnsýslunni og þá sérstaklega vinnulagi Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar. Sú staðreynd að fyrirtækin eru með rekstur á Vestfjörðum kemur málinu ekkert við. Það er mikilvægt að átta sig á þessu og hætta öllu tali um að hér sé með einhverjum hætti verið að ráðast á Vestfirðinga, hvað þá að fullyrða að fiskeldi sé eitthvað sérstaklega umhverfisvæn atvinnugrein. Umræðan um framtíð laxeldis á Íslandi þarf að komast á vitrænt plan.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is