*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Leiðari
14. júlí 2016 11:47

Ræðum málið

Iðnaðarráðherra vill umræðu um sæstreng en sá grunur vaknar iðnaðarráðherra hafi þegar myndað sér skoðun.

Haraldur Guðjónsson

Nú eru gögnin komin á borðið, og ég segi: ræðið,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráð-herra að lokinni kynningu á skýrslum um skoðun á lagningu sæstrengs milli Íslands og Evrópu til raforkuflutnings.

Það er ágætt að þessar skýrslur eru loksins komnar fram. Nógu lengi hefur þeirra verið beðið. Áður en hægt er að leggja efni þeirra til grundvallar ákvörðun um lagningu sæstrengs þarf þó að halda ákveðnum hlutum til haga.

Mikið hefur verið gert úr því frá því að skýrslurnar voru kynntar að til að lagning strengsins gangi upp þurfi að fjárfesta í raforkuvinnslu upp á 1.450 megavött af nýju uppsettu afli. Það nemur tveimur Kárahnjúkavirkjunum, eins og fram kom á fleiri en einum fréttamiðli.

Þarna er verið að ganga út frá því sem vísu að sú stóriðja sem nú er í landinu og kaupir orku af Landsvirkjun verði hér um aldur og ævi og því verði hægt að selja orkuna þangað um aldur og ævi. Þeir vita það hins vegar sem vilja að strok er komið í sum álverin og er þess vart langt að bíða þar til það fyrsta hverfur af landi brott, þó ekki nema bara vegna þess að tækjakostur verður kominn á aldur. Það er hagkvæmara að reisa álver í Sádi-Arabíu en á Íslandi, sama hversu ódýr orkan er hér.

Sterkustu rökin fyrir lagningu sæstrengs hafa verið tengd orkuöryggi og áhættudreifingu fremur en hámörkun arðsemi. Vissulega má ætla að hærra verð fáist fyrir orkuna sem flutt yrði um sæstreng, en stóri kostur slíks verkefnis væri alltaf sá að hann gæfi Landsvirkjun möguleika á að selja úr landi – og erfiðislaust – orku sem ekki fengist seld á Íslandi.

Einnig ber að hafa í huga að í umræðum um hugsanlega lagningu strengs milli Íslands og Bretlands hefur sjaldnast verið gengið út frá því að Landsvirkjun fjármagni verkefnið, hvað þá að fjárfestingin verði á bókum fyrirtækisins. Verkefninu yrði sjálfhætt ef svo ætti að vera. Ef af þessu verður mun það verða vegna þess að erlendur aðili – líklega lífeyrissjóðir og/eða tryggingafélög munu fjármagna bygginguna og eiga strenginn um nokkurt skeið – tvo til þrjá áratugi. Landsvirkjun mun flytja rafmagn á erlendan markað og greiða fyrir það gjald og að ákveðnum tíma liðnum verður strengurinn kominn í eigu Landsvirkjunar.

Í ábatagreiningu Kviku segir að vísbendingar séu um að lagning 800 til 1.200 kílómetra sæstrengs kunni að reynast bæði Íslandi og Bretlandi þjóðhagslega og viðskiptalega arðsöm. Engu að síður hefur iðnaðarráðherra ítrekað reynt að draga úr mögulegum kostum verkefnisins og var fundurinn í vikunni þar engin undantekning. Sagði hún að útganga Breta úr ESB gæti haft áhrif á verkefnið og erfitt væri að segja til um hvernig málin þróast.

Ragnheiður Elín vill að málið sé rætt, en sá grunur læðist að manni að hún sé nú þegar búin að mynda sér endanlega skoðun á því.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.