Á forsíðu Fréttablaðsins í síðustu viku var greint frá því að gúmmíbangsar, karamellur og annað sælgæti sem selt er í Fríhöfninni væri dýrara en gotterí sem keypt er í öðrum verslunum. Það er vissulega fréttnæmt þar sem álagning ríkis- fyrirtækisins í Leifsstöð endurspeglar ekki að hún þurfi ekki að standa skil á virðisaukaskatti.

Morgunblaðið ákvað að fylgja málinu eftir sama dag. Leitað var eftir viðbrögðum Þórunnar Önnu Árnadóttir, forstjóra Neytendastofu, sem sagði koma til greina að skoða frekar notkun Fríhafnarinnar á hugtakinu „duty free“. Var Þórunn að vísa til málarekstur fyrirtækjanna Sante og ST fyrir Neytendastofu í fyrra.

Í frétt Morgunblaðsins segir:

„Snýr hún ekki að verðlagi á sæl­gæti held­ur markaðssetn­ingu Frí­hafn­ar­inn­ar og því að Frí­höfn­in hefði greitt hundruð millj­óna króna ár hvert í áfeng­is- og tób­aks­gjöld sem fé­lagið hefði inn­heimt í gegn­um vöru­verð í versl­un­um sín­um.

Kær­end­ur eru San­te ehf. og ST ehf. sem stunda inn­flutn­ing á víni, tób­aki, reki og rækju.“

Nú þekkir fjölmiðlarýnir til reksturs þessara fyrirtækja og þótti því töluverð tíðindi að þau hafi víkkað út starfsemi sína og stæðu nú í innflutningi á rekavið og rækju. En þegar málið var skoðað ofan í kjölinn kom sannleikurinn í ljós. Sá sannleikur ber ekki lesskilningi þess blaðamanns sem skrifaði fréttina á Mbl.is fagurt vitni.

Í ákvörðun Neytendastofu frá 5. október í fyrra segir:

„Sante sé víninnflytjandi en ST sé innflytjandi á tóbaki og reki jafnframt vefsíðuna vindill.is sem sé vefsala á vindlum.“

Og í úrskurði áfrýjunarnefndar um neytendamál frá því í júlí í fyrra:

„Fram kom í bréfinu að kærendur stunduðu innflutning á víni, tóbaki og reki og rækju einnig vefsíðu þar sem fram færi vefsala á vindlum.“

Þó að þetta sé fyrst og fremst fyndið þá vekur þetta eigi að síður upp áleitnar spurningar um hvernig gæðaeftirliti á netfréttum Morgunblaðsins sé háttað en þessi misskilningur var ekki leiðréttur.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 8. september 2022.