*

mánudagur, 1. júní 2020
Óðinn
14. maí 2019 14:01

Rafbílar, Þýskaland og sæstrengur

Allir eru sammála um að mikilvægt er að draga úr mengun.

epa

Allir eru sammála um að mikilvægt er að draga úr mengun. Hins vegar er ágreiningur hversu miklum fjármunum eigi að verja til að draga úr mengun og hversu mikið fjáraustur skilar sér.

* * *

Margir telja að ein áhrifamesta leiðin til að minnka mengun er að draga úr útblæstri samgöngutækja, sérstaklega bíla. Það er þó ekki raunin hér á Íslandi þar sem vegasamgöngur valda aðeins 6,4% losun gróðurhúsalofttegunda.

* * *

Evrópusambandið hefur skipað aðildarlöndum sínum, og aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, í formi tilskipunar að minnka útblástur frá bílum frá árinu 1992. Euro 1 staðallinn kom fyrstur en í dag er í gildi Euro 6. Í byrjun var lögð áhersla á útblástur gróðurhúsalofttegunda úr bensínbílum, þegar Evrópusambandið taldi díselolíu minna mengandi, en í seinni tíð hafa kröfur um minni útblástur köfnunarefnisoxíðs fengið athygli kommissaranna í Brussel.

* * *

Bíll sem framleiddur var á áttunda áratugnum er sagður menga á við 50 nýja bíla í dag. Eftir því sem mengunarbúnaðurinn er flóknari í bílum er kostnaðurinn meiri fyrir bílaframleiðendur. Á sama tíma eru margar stórar bílaþjóðir langt á eftir í mengunarstöðlum, líkt og Indland, og því má velta fyrir sér hvort viturlegra væri að slaka aðeins á kröfunum í Evrópu gegn því að bílaframleiðendur minnki mengun á þeim svæðum sem kröfurnar eru minni, eða jafnvel engar.

* * *

Munu rafbílar bjarga heiminum?

Um miðjan apríl birtist rannsókn Ifo stofnunarinnar í München. Þar var sérstaklega skoðað hver munurinn væri á mengun díselbíla og rafbíla og var bæði horft til framleiðslu og eyðslu. Í rannsókninni er haldið fram að uppgröfur og vinnsla á lithium, kóbalt og magnesíum í rafhlöður rafbíla valdi gríðarlegum útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Miðað við 10 ára líftíma rafhlöðu og 15 þúsund km akstri á ári segir Ifo að mengunin sem stafi af batteríinu einu sé 73-98 grömm af CO2 á kílómetra.

* * *

Að auki skoðaði stofnunin sérstaklega muninn á útblæstri díselbílsins og rafbílsins. Um 35% af rafmagni í Þýskalandi er framleitt með kolum sem veldur hvað mestum útblæstri CO2. Til samanburðar er gas, sem er unnið í mun meiri mæli Bandaríkjunum, 50-60% minna mengandi. Aðeins 35% af rafmagnsframleiðslu Þjóðverja er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þar vega vindmyllur þyngst.

* * *

Sökum þessa er losun Tesla 3 156-180 g/km sem er meira en díselbíllinn Mercedes Benz 220 d, sem er einn eyðslugrennsti þýski bíllinn. Sá eyðir 141 g/km.

* * *

Orkubyltingin Energiewende

Aðeins 30% af raforkuframleiðslu ríkja Evrópusambandsins eru með endurnýjanlegum orkugjöfum. Um 25% eru framleidd með kjarnorku, 20,5% eru með kolum og tæplega 20% með gasi. Þetta er í raun skelfilegar tölur en þær hafa þó skánað mikið frá aldamótum, þegar aðeins 12% raforkunnar voru framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum.

* * *

Ríkisstjórn Angelu Merkel ákvað árið 2010 að hrinda í framkvæmd orkuskiptum í landinu undir heitinu Energiwende. Sú stefna er metnaðarfull og er ætlunin að draga úr gróðurhúsalofttegundum um 40% árið 2020 og 55% árið 2030, miðað við útblásturinn 1990.

* * *

Í síðasta tölublaði Der Spiegel er ítarleg umfjöllun um þessa stefnu stjórnvalda og hversu ólíklegt er að þessi háleitu markmið náist. Þegar er ljóst að markmiðið fyrir 2020 næst ekki. Ekki nóg með það þá hefur útblásturinn staðið í stað frá árinu 2009 í stað þess að minnka eins og áætlunin gerði ráð fyrir. Áætlunin hefur kostað 32 milljarða evra á ári síðustu fimm ár, eða jafnvirði 22 þúsund milljarða, með takmörkuðum árangri.

* * *

Árið 2011 ákvað Merkel kanslari að láta loka 17 kjarnorkuverum í Þýskalandi, í kjölfari slyssins í Fukushima í Japan. Af þeim völdum er vægi kjarnorku í Þýskalandi helmingi lægra en að meðaltali í Evrópusambandinu. Þetta gerði kanslaranum mun erfiðara fyrir að ná metnaðarfullum markmiðum sínum.

* * *

Fleira kemur til sögunnar. Vindmyllur hafa knúið orkuskiptin að verulegu leyti. En þýskir borgarar hafa snúist gegn þeim og þýskir stjórnmálamenn eru orðnir hræddir að leggja til vindmyllugarða vegna andstöðu íbúa auk þess að mjög dýrt er að setja upp raflínur. Þörf er á 7.700 km af raflínum en aðeins 8% hafa verið lagðar. Að auki er mjög óhagkvæmt að geyma rafmagnið frá vindmyllunum. Að mati Spiegel er vindorkuævintýrinu lokið.

* * *

Hvað er til ráða?

Eins og sjá má af stöðunni í Þýskalandi er langur vegur frá því að baráttan við útblásturinn sé unnin. Líklegast þurfa ráðamenn flestra ríkja Evrópu að viðurkenna að kjarnorka sé nauðsynleg til draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er til dæmis ótrúlegt hvað Frökkum gengur mun betur að minnka útblástur og þar ræður kjarnorkan langmestu.

* * *

Niðurstaða Ifo stofnunarinnar í München er sú að leggja eigi áherslu á metangas í stað raforku við bílaframleiðslu, en mengun frá metanbílnum er aðeins þriðjungur á við díselbílinn og rafbílinn.

* * *

Þá er hægt að velta fyrir sér hvort rafbílar séu framtíðar fararskjótur. Rannsókn Ifo hefur verið gagnrýnd en Óðinn hefur ekki fundið neitt sem bendir til að niðurstaða stofnunarinnar um mengun vegna rafhlaðna sé röng. Fá lönd í heiminum eru í sömu stöðu og Ísland með nær allt sitt rafmagn unnið úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Ísland er kjörlendi rafbílsins en ef Óðinn væri íslenskur stjórnmálamaður færi hann sér hægt í að sturta peningum skattgreiðenda í að byggja upp innviði rafbíla. Enginn bílaframleiðandi mun þróa og smíða bíla aðeins fyrir Ísland og Noreg.

* * *

Að auki er varasamt að einstök ríki og ríkjasambönd ákveði hvaða leið skuli farin. Stjórnvöld eiga að ákveða markmið, skynsamleg markmið en einkaaðilar verða síðan að koma með réttu vöruna. Og auðvitað eiga Íslendingar að virkja bæjarlækinn og selja orkuna í gegnum sæstreng. Við yrðum ríkasta þjóð í heimi og við myndum leggja ofurlitla lóð á vogarskálina gegn mengun.

 

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.