*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Huginn og muninn
9. september 2017 11:09

Ragnar Þór í Sósíalistaflokkinn?

Í dag stendur VR fyrir „virð­ingu“ og „réttlæti“. Ragnar Þór hefur hvorki sýnt sögu félagsins virðingu né heldur forvera sínum í starfi.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fer sínar eigin leiðir. Fyrir nokkrum dögum hélt hann fyrirlestur á fundi Sósíalistaflokks Ísland og telja hrafnarnir nokkuð víst að margir forverar hans hafi snúið sér í gröfinni á þeim tímapunkti enda hefur VR lengst af verið nátengt íslensku verslunarstéttinni. Félagið var stofnað árið 1891 af launþegum og atvinnurekendum í þeirri stétt og hefur í gegnum árin ekki haft neitt sérstök tengsl við sósíalisma.

Ragnar Þór er úlfur í sauðagæru. Þótt hann hafi unnið formannskosningarnar á þessu ári þá verður að hafa í huga að kosningaþátttakan í þeim var um 17%. Rödd hans á ekki heima í VR en hún rímar hins vegar ágætlega við Sósíalistaflokkinn enda hefur Gunnar Smár Egilsson, stofnandi þess flokks, tekið Ragnar Þór upp á arma sína og hampað honum í hvívetna. Hrafnarnir spá því hér og nú að Ragnar Þór skipi 1. sæti á öðrum framboðslista Sósíalistaflokksins í Reykjavík.

Lengst af stóð skammstöfunin VR fyrir Verzlunarmannafélag Reykjavíkur en árið 2006 var nafninu breytt, líklega af einhverjum mannauðsstjóra sem hugsar um gildi fyrirtækja allan liðlangan daginn. Í dag stendur VR fyrir „virð­ingu“ og „réttlæti“. Ragnar Þór hefur hvorki sýnt sögu félagsins virðingu né heldur forvera sínum í starfi. Af einhverjum mjög persónulegum ástæðum má hið sama segja um framgöngu hans gegn forseta ASÍ. Hrafnarnir telja löngu tímabært að Ragnar Þór hætti að gagnrýna forvera sinn í starfi og forseta ASÍ. Hann var ekki kjörinn formaður til þess. Hann var kjörinn til þess að stýra VR í þágu allra félagsmanna. Vandséð er hvernig það er gert með sífelldum upphrópunum um þetta fólk.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.