*

fimmtudagur, 29. október 2020
Týr
8. september 2012 14:52

Ragnheiður Elín og Ágúst Ólafur

Kom hlutleysi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur í formannsslagnum henni í koll?

Axel Jón Fjeldsted

Formannsskipti fóru fram þingflokki sjálfstæðismanna í vikubyrjun. Ragnheiður Elín Árnadóttir missti embættið til Illuga Gunnarssonar.

Týr hefur heyrt tvær kenningar um stólaskiptin.

Sú fyrri er sú að Illugi Gunnarsson, sem er mjög náinn Bjarna Benediktssyni, hafi talið embættið hjálpa sér í prófkjörsslag sem í uppsiglingu er í Reykjavík og óskað eftir því. Þessi kenning er ekki alvitlaus en ekki má gleyma því að Illugi var þingflokksformaður áður en hann vék af þingi.

Hin er sú að Bjarni hafi ekki talið sig skulda Ragnheiði Elínu neitt þar sem hún studdi hann ekki opinberlega í formannskosningum á síðasta landsfundi flokksins.

Þessu til viðbótar þykir hún fulloft vera með krepptan hnefa á lofti og ósveigjanleg, sem er ókostur í tilviki þingflokksformanns.

Týr er þess fullviss að Illugi hafi viljað snúa í sitt gamla embætti. Hvort tryggðarleysi Ragnheiðar Elínar við Bjarna á landsfundi hafi þar skemmt fyrir henni er erfiðara að segja.

Ágúst Ólafur Ágústsson bauð sig fram til varaformanns í Samfylkingunni árið 2005. Ágúst, sem sigraði með pizzur og rútur að vopni, tók enga afstöðu í hörðum átökum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Össurar Skarphéðinssonar um formannsstólinn á fundinum vegna ótta um eigin stöðu.

Það kom honum í koll þegar ráðherraskipan var ákveðin vorið 2007. Enginn barðist fyrir því að Ágúst Ólafur fengi ráðherraembætti. Allra síst Össur og Ingibjörg.

Af þessari sögustund með Tý er jafnvel hægt að draga lærdóm. Þann lærdóm að það er snúinn leikur að ætla að vera hlutlaus í kosningaátökum ef maður stendur of nærri þeim.

Ekki þekkir Týr rök Ragnheiðar fyrir því að sitja hjá í formannskjörinu síðasta haust. En ef til vill fórnaði hún með því bæði þingflokksformennskunni og mögulega langri vináttu við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.