

Og meira af prófkjörsmálum. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti um nýliðna helgi að hún hygðist ekki gefa kost á sér á ný. Það vakti þó athygli að hún tilkynnti ekki að hún væri hætt í stjórnmálum, enda hefur hún áður verið orðuð við framboðssæti á lista hins nýstofnaða stjórnmálaflokks, Viðreisnar.
Elín Hirst tilkynnti samdægurs að hún hygðist sækjast eftir sæti Ragnheiðar, sem er 2. sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi hvar Bjarni Benediktsson vermir oddvitasætið. Hrafnarnir hafa áður vakið máls á því að það er ekki mikil eftirspurn eftir Elínu Hirst hjá Sjálfstæðismönnum í Kraganum þannig að nú er leitað eftir „sterkri konu“ eins og það var orðað í eyru Hrafnanna nýlega, til að taka sæti Ragnheiðar.
Í því samhengi er mikið rætt um mögulega endurkomu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, fv. ráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, í stjórnmálin. Flestir hafa áttað sig á því að henni var ýtt af óþarflega mikilli hörku út úr stjórnmálunum og talið er að hún eigi mikið inni.