Í Viðskiptablaðinu í sl. viku kom fram í viðtali við Hermann Guðmundsson, fyrrverandi forstjóra N1, að félagið hefði geta lækkað bensínverð vegna mikils fjárhagsstyrks, en ekki gert það af tillitssemi við hin olíufélögin, sem væru mjög skuldsett.

Ekki verður undan því komist að gera athugsemd við þessi fráleitu ummæli, enda tala staðreyndir öðru máli. Stutta útgáfan er þessi. Á fjórum árum tókst nýjum eigendum og stjórnendum N1 að reka þetta áður öfluga félag í slíkt þrot, að eigendurnir töpuðu þeim rúmlega 8 milljörðum króna, sem þeir lögðu í kaupin og lánardrottnar urðu að afskrifa og breyta í hlutafé amk. 34 milljörðum króna af skuldum N1 og fasteignafélagsins Umtaks, sem var skráður eigandi flestra fasteigna, sem notaðar voru í rekstri N1. Samkvæmt ársreikningum félaganna voru heildarskuldir þeirra í árslok 2010 rúmlega 47 milljarðar króna, en í árslok 2011 voru þær komnar niður í 13 milljarða króna, sem svarar til 73 % lækkunar skuldanna.

Auk þess var N1 í 9,5 milljarða króna ábyrgðum fyrir móðurfélagið BNT, en allt er á huldu um hvert tap lánardrottna varð af því félagi og væri verðugt skoðunarefni að kanna nánar tengsl og viðskipti BNT við Glitni banka.

Ekki verður af þessum tölum ráðið, að N1 hafi haft einhverja þá fjárhagsyfirburði yfir keppninauta sína, sem fyrrverandi forstjóri N1 fullyrti, nema síður sé. Vissulega óx N1 hratt á árunum 2006 til 2009, en það er lítil rekstrarsnilld að vaxa með skuldsetningu, sem lánardrottnar neyðast svo til að afskrifa. Sérstaka athygli vekur, að skuldir N1 eftir fjárhagslega endurskipulagningu voru rúmlega 15 milljörðum króna lægri en skuldir N1 og Umtaks fyrir hrun og fall íslensku krónunnar, sem hlýtur að þýða, að bankarnir hafi metið það svo, að nýjar fjárfestingar félagsins hafi ekki staðið undir þeirri skuldsetningu, sem stofnað var til með miklum vexti. Fullyrðingar fyrrverandi forstjóra N1 um, að afskriftir skulda megi aðallega rekja til falls íslensku krónunnar standast því ekki. Hið óeðlilega í málinu er hins vegar, að félagið heldur áfram þeirri veltu og framlegð, sem það keypti með lánum, sem nú er búið að afskrifa. Þessi staðreynd styrkir félagið auðvitað á markaði.

Undirritaður dregur ekki dul á að Olís hefur einnig gengið í gegnum mikla erfiðleika vegna hrunsins, einkum gengisfellingar íslensku krónunnar. Félagið og móðurfélag þess hefur nú fengið töluverðar leiðréttingar á lánum sínum, einkum vegna erlendra lána, sem talin voru ólögleg, en þar er þó um að ræða miklu mun lægri tölur en í tilfelli N1, Umtaks og móðurfélagsins BNT. Þessar upplýsingar munu koma opinberlega fram í uppgjörum félaganna.

Eins og staðan er í dag má telja, að olíufélögin séu öll þokkalega í stakk búin til að takast á við þá miklu samkeppni, sem allir sjá að er á markaðnum í dag. Ef eitthvað er þarf N1, að mínu mati, á að halda hlutfallslega meiri rekstrarárangri en keppinautarnir, þar sem við fjárhagslega endurskipulagningu þess var félagið endurreist með 14 milljarða króna eigin fé, eða um 50% eiginfjárhlutfalli, sem krefst hærri ávöxtunarkröfu en ella. Undirritaður er raunar mjög undrandi á þessu háa eiginfjárhlutfalli, enda getur félagið, að hans mati, staðið undir mun meiri langtímaskuldum en þeim 8,5 milljörðum króna, sem skildar voru eftir á félaginu. Eigendurnir hljóta því að líta á félagið sem arðgreiðslufélag, sem ætlað er að skila góðum útgreiddum arði árlega. Hafa ber í huga að eigendur N1 eru fyrst og fremst lífeyrissjóðirnir, að stærstum hluta í gegnum Framtakssjóðinn, en að hluta til beint. Ljóst er að lífeyrissjóðirnir þurfa að gera miklar kröfur til arðsemi slíkrar áhættufjárfestingar og geta varla sætt sig við að sterk fjárhagsstaða félagsins verði notuð til að greiða niður verð á markaði. Á síðasta ári stóð N1 augljóslega ekki undir væntingum fjárfestanna, þar sem kaup Framtakssjóðsins á hlut Arion banka í félaginu fóru fram á genginu 11, aðeins nokkrum mánuðum eftir að félagið var endurreist á genginu 14. Þannig lækkaði verðmæti N1 um 3 milljarða króna, eða rúmlega 20%, nokkrum mánuðum eftir endurreisn þess.