*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Huginn og muninn
27. október 2019 09:09

Rannsóknargögn í eldhúsglugganum?

Tíðkast það almennt hjá Samkeppniserftirlitinu að úthýsa rannsóknum til verktaka úti í bæ?

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Haraldur Guðjónsson

Það hefur mikið borið á kveinstöfum Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins (SKE) vegna draga iðnaðarráðherra að nýjum samkeppnislögum. Nú er eðlilegt að forstjórinn veiti ráðherra og þingnefnd álit sitt á slíku frumvarpi, en hröfnunum þykir orka afar tvímælis að embættismaður standi herferð í fjölmiðlum til þess að hlutast til um hvernig störfum sínum skuli háttað. Hins vegar þykja þeim fjölmiðlar furðuóforvitnir í garð Páls Gunnars vegna frétta af störfum Aldísar Hilmarsdóttur hjá ÍLS fyrir eftirlitið, en hún hefur í frístundum annast rannsókn á Eimskipi fyrir SKE.

Tíðkast það almennt hjá SKE að úthýsa rannsóknum til verktaka úti í bæ? Það er skiljanlegt að leita til sérfræðinga um einstaka þætti, en að sjálf rannsóknin sé það, það samrýmist varla góðum vinnubrögðum um rannsóknum eða réttarvernd. Og hvar hafa rannsóknargögnin verið, bara í eldhúsglugganum og geymslunni hjá Aldísi? Samkeppniseftirlitið þarf að segja allt af létta um þetta.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.