*

miðvikudagur, 20. október 2021
Týr
28. júní 2020 09:08

Rasisminn og sagan

Orwell: „Hver bók endursamin, hvert málverk málað upp á nýtt, hver myndastytta, gata og bygging hefur fengið nýtt nafn“

Aðsend mynd

Mótmælin, sem hófust í Bandaríkjunum í kjölfar morðs lögregluþjóns í Minneapolis, hafa breiðst út víða um heim, einkum þó á Vesturlöndum. Tilfinningarnar þar að baki eru oft djúpar og heitar, enda rasismi ólíðandi í mannlegu samfélagi hvar sem er. Það á við hér á Íslandi sem annars staðar.

                                                                 ***

Mótmælin hafa tekið á sig ýmsar myndir, mismunandi eftir löndum, menningu og sögu. Hér á Íslandi voru mótmælin aðallega til samstöðu gegn rasisma, en hins vegar hafa í kjölfarið siglt líflegar og nauðsynlegar umræður um birtingarmyndir rasisma á Íslandi, hvort sem er hrein kynþáttabundin andúð eða sinnuleysi um mismunun og afstöðu til fólks, sem tengja má uppruna þess. Sú umræða er tímabær og þó fyrr hefði verið.

                                                                 ***

Víða erlendis, sérstaklega í Bandaríkjunum, hafa hins vegar margir horft til táknmynda kynþáttahyggju. Þar hefur myndastyttum af generálum Suðurríkjanna í Þrælastríðinu verið steypt af stalli, en þar og víðar hafa menn líka fellt niður styttur af burgeisum fyrri alda, sem auðguðust á þrælaverslun.

En svo má spyrja hvar eigi að láta staðar numið. Sums staðar hafa þannig verið gerðar tilraunir til þess að láta taka niður styttur af Mahatma Gandhi, sem ekki var fordómalaus maður. Vilji menn leita lengra aftur, má spyrja hvort máttugustu þrældómsminnismerkjum heims, líkt og píramídum Forn-Egypta eða Azteka, skuli eirt.

                                                                 ***

Þatta þarf ljóslega að hugsa, en ekki eftirláta það hugdettum eða hugaræsingu múgsins. Týr sá t.d. um daginn að feðraveldi Sósíalistaflokksins taldi réttast að ýta líkneski Ingólfs Arnarsonar burt af Arnarhóli. Nær væri að þar stæðu þeir Vífill og Karli. Týr vill fyrir sitt leyti ekki slá það út af borðinu umræðulaust, en minnir á orð Orwells í skáldsögunni 1984:

„Hvert einasta skjal og skýrsla hefur verið eyðilögð eða fölsuð, hver bók endursamin, hvert málverk málað upp á nýtt, hver myndastytta, gata og bygging hefur fengið nýtt nafn, sérhverri dagsetningu verið breytt. Og þessu ferli er haldið áfram dag eftir dag og á mínútu hverri. Sagan hefur staðnæmst. Ekkert er til nema endalaus nútíð, þar sem Flokkurinn hefur alltaf á réttu að standa."

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.