*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Týr
19. júlí 2019 18:00

Rasisti í Hvíta húsinu

Síðasta útspil Trumps setur tóninn fyrir næstu kosningar og er vísbending um að skautun samfélagsins muni aukast enn.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna og magnaðasta nettröll veraldar.
epa

Donald Trump er ekki aðeins leiðtogi voldugasta ríkis heims, heldur er hann einnig magnaðasta nettröll veraldar. Daga sem nætur dælir hann út athugasemdum á Twitter, sem hafa áhrif á stjórnmálin heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Síðasta gólið úr Hvíta húsinu hefur þó gengið fram af öllum, en þar réðst hann á fjórar þingkonur Demókrataflokksins fyrir óþjóðhollustu og skoraði á þær að snúa aftur til síns heima. Engum duldist hinn rasíski tónn í árásinni, en þingkonurnar fjórar eru allar litar og af erlendu bergi brotnar.  

Þetta var skammarleg árás, til hneisu fyrir forsetann, Repúblikanaflokkinn og Bandaríkin.  

Það eru næg efni til þess að gagnrýni þingkonurnar fjórar harðlega fyrir stjórnmálaskoðanir og framgöngu. Þær eru sósíalistar, óþreytandi við að finna Bandaríkjunum allt til foráttu, hafa varið málstað óvinveittra ríkja og ítrekað orðið uppvísar að gyðingafordómum. Þær eru úti á ystu nöf vinstrikants Demókrataflokksins og raunar átt í miklum erjum við Nancy Pelosi, leiðtoga demókrata í þinginu. En að ráðast að þeim með þeim hætti og forsendum, sem forsetinn gerði, það er fullkomlega óboðlegt fyrir þingkonurnar, embættið og Bandaríkin.  

Sem fyrr segir er forsetinn nettröll og orðalagið nægilega loðið til þess að hann getur haldið því fram að rasismi hafi ekki búið að baki, en hver trúir því? Markmiðið hjá honum var vafalítið kaldrifjaðra: að ráðast svo heiftarlega á þingkonurnar fjórar að Demókrataflokkurinn allur yrði að skipa sér að baki þeim og taka vörn þeirra. Sem auðveldar Trump síðan að útmála þær sem andlit og forystu demókrata til þess að úthrópa hann sem öfgaflokk í komandi kosningum. Það er ósvífið en klókindi samt.  

Flestir myndu ætla að skautun í bandarískum stjórnmálum væri yfrið nóg fyrir, en Trumpurinn ætlar ekki að hætta og stjórnmálin verða sífellt öfgakenndari og óþverralegri. Repúblikanar (sem á dögum Clintons töluðu háheilagir um virðuleika forsetaembættisins) standa flestir þöglir hjá og halda áfram að kjósa með skuldasöfnun og verndarstefnu forsetans. Trump, maðurinn sem stal Repúblikanaflokknum, kann vel að ná endurkjöri með þessum aðferðum, en það verður mannsaldur þar til nokkur trúir því að eitthvað sé að marka orð repúblikana um frelsi, jafnrétti og ábyrgð, heiðarleika, siðferðisstyrk og stjórnfestu.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.