Clayton Christensen, prófessor við Harvard Business School, lést í lok síðasta mánaðar. Hans er helst minnst sem höfundar einnar áhrifamestu kenningar í viðskiptafræðum undanfarinna áratuga, kenningarinnar um raskandi nýsköpun (e. disruptive innovation).

Fyrir mörgum árum hafði ég tækifæri til að hlusta á hann ræða hugmyndir sínar og þá rann upp fyrir mér hversu áhugaverð kenningin er fyrir íslensk fyrirtæki sem vilja brjótast út í heim. Þess vegna kemur á óvart hvað íslenskir fjölmiðlar hafa lítið fjallað um hana ef marka má leit á Timarit.is.

Kenningin um raskandi nýsköpun lýsir því hvernig lítið fyrirtæki sem hefur úr litlu að moða getur tekist á við leiðandi fyrirtæki á markaði og velt því úr sessi. Kenningin lýsir tilhneigingu ríkjandi stórfyrirtækja til að sníða vöru sína og þjónustu að verðmætustu og kröfuhörðustu viðskiptavinum sínum en vanrækja aðra viðskiptavini.

Lítið fyrirtæki getur náð fótfestu á markaði með því að bjóða þessum vanræktu viðskiptavinum hentugri vöru eða þjónustu; oftast á lægra verði. Stórfyrirtækið gætir ekki að sér fyrr en um seinan þegar litla nýsköpunarfyrirtækið hefur fært út kvíarnar og raskandi nýsköpun telst hafa átt sér stað þegar kröfuhörðustu og verðmætustu viðskiptavinir gömlu risanna taka að færa viðskipti sín í stórum stíl yfir til nýsköpunarfyrirtækisins.

Skólabókardæmi um raskandi nýsköpun er AirBnB sem í upphafi gerði húseigendum kleift að bjóða ódýr herbergi til leigu til þeirra ferðamanna sem þóttu hótel dýr áður en fyrirtækið færði sig til á markaði og hóf að herja jöfnum höndum á verðmætustu viðskiptavini hótelanna.

Hugmyndin um raskandi nýsköpun er siglingakort fyrir þá sem hafa úr litlu að moða og lýsir því hvernig þeir geta sigrast á öflugustu keppinautum. Því ættu íslensk nýsköpunarfyrirtæki að tileinka sér hugmyndina vel áður en haldið er af stað.

Höfundur er viðskiptaþróunarstjóri hjá Auðnu tæknitorgi.