*

sunnudagur, 12. júlí 2020
Leiðari
11. apríl 2015 12:10

Raunhæfar kröfur

Land sem er með 60% hærri landsframleiðslu á mann getur staðið undir hærra launastigi en Ísland. Svo einfalt er það.

Haraldur Guðjónsson

Í dag munu um 3.000 félagar í Bandalagi háskólamanna í vinnu hjá ríkinu taka þátt í allsherjarverkfalli, en af þeim eru 560 félagsmenn sem lögðu niður vinnu á þriðjudag. Þetta eru fyrstu stóru aðgerð- irnar í því sem má, án þess að ýkja mikið, kalla verkfallsvorið, en samningar eru lausir eða eru að losna við stéttarfélög sem í eru mörg þúsund meðlimir. Miðað við þau orð sem fallið hafa undanfarnar vikur og mánuði er himinn og haf á milli krafna stéttarfélaganna og þess sem vinnuveitendur eru reiðubúnir að samþykkja og því líklegt að fleiri verkföll fylgi í kjölfarið.

Hér hefur áður sú skoðun komið fram að kröfur flestra, ef ekki allra stéttarfélaga, eru langt umfram það sem réttlætanlegt getur talist. Hækki laun umfram framleiðniaukningu og verðbólgu leiðir það á endanum til aukinnar verðbólgu og gengislækkunar. Það þarf ekki að gerast í einni svipan, en það mun gerast og þessi verðbólga og gengislækkun étur upp stærstan hluta kaupmáttaraukningarinnar sem að er stefnt með launahækkununum.

Hægt er að hafa samúð með þeim leiðtogum verkalýðshreyfingarinnar sem eru ósáttir við framgöngu ríkisins í samningum við ákveðna hópa opinberra starfsmanna á síðustu misserum, en launahækkanir þessara hópa voru mun meiri en þær sem launafólk á almenna vinnumarkaðnum sætti sig við í síðustu lotu kjarasamninga. Það er erfitt að réttlæta fyrir félagsmönnum að þeir eigi að samþykkja mun hóflegri kjarabætur en þær sem læknar og flugmenn keyrðu í gegn með harðfylgni.

En beini og breiði vegurinn er ekki alltaf sá sem rétt er að fylgja. Það er ábyrgðarhluti að keyra í gegn launahækkanir hjá mjög stórum hópi fólks sem grunnhagkerfið stendur ekki undir. Menn munu geta skálað og fagnað ef laun verða hækkuð um 10%, 20% eða jafnvel 30%, en fögnuðurinn mun ekki vara lengi.

Vilhjálmur Birgisson hefur í pistlaskrifum á Pressunni vakið athygli á því að verðbólgan sé þegar farin að vinna á skuldaleið- réttingunni svokölluðu, þótt hækkun vísitölu neysluverðs hafi verið mjög hófleg að undanförnu. Þessi sami maður krefst svo á öðrum stöðum gríðarlegra launahækkana fyrir félagsmenn sína án þess að sjá nokkur tengsl þarna á milli. Töfralausn hans, þ.e. að frysta neysluverðsvísitöluna, er álíka gáfuleg og að reyna að hafa áhrif á veðrið með því að brjóta hitamælinn.

Í þessari umræðu hafa kjör íslenskra launamanna verið borin saman við það sem gerist og gengur í löndunum í kringum okkur. Nú síðast var áhugaverður samanburður á launum og kaupmætti launa á Íslandi annars vegar og í Noregi hins vegar. Fáum ætti að koma á óvart að mánaðarlaun norsks launafólks eru töluvert hærri en hér á landi og kaupmátturinn sömuleiðis meiri. Þannig séu grunnlaun iðnaðarmanna hér á landi um 321.000 krónur á mánuði, en 550.800 krónur í Noregi. Það sem vantar hins vegar í þessa umfjöllun, eins ágæt og hún er, er samanburður á styrkleika hagkerfanna tveggja. Landsframleiðsla á mann í Noregi árið 2013 var um 65.000 Bandaríkjadalir, en um 41.000 dalir hér á landi. Þessi munur skýrir að stærstum hluta þann mun sem er á launakjörum og kaupmætti í löndunum tveimur og styður það sem hér hefur verið sagt.

Land sem er með 60% hærri landsframleiðslu á mann getur staðið undir hærra launastigi en Ísland. Svo einfalt er það.

Stikkorð: BHM
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.