*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Óðinn
17. nóvember 2021 12:03

Refir, Umhverfisstofnun og mengun

Óðinn skrifar um þá tímaskekkju sem fjárútlát í refaveiðar virðast vera, Umhverfisstofnun og landbúnaðarkerfið.

Á þriðjudag birti Fréttablaðið áhugaverða frétt um kostnað sveitarfélaga af refaveiðum undir fyrirsögninni „Telja forsendur refaveiða brostnar og vilja breytingar".

Í fréttinni er bent á að yfir 56 þúsund refir hafa verið veiddir undanfarinn áratug og er kostnaður sveitarfélaga og ríkis tæpur einn milljarður króna. Kostnaðurinn á síðasta ári nam 134 milljónum króna.

* * *

En hvers vegna kostar hið opinbera refaveiðar? Því er svarað í fréttinni auk þess sem álit Umhverfisstofnunar kemur þar fram:

Refaveiðar þjóna ekki lengur tilgangi sínum, að verja sauðfé, og eru orðnar að vana eða launaðri sportveiði. Árið 2020 var metár í veiði og kostnaður ríkis og sveitarfélaga eykst með hverju árinu.

Umhverfisstofnun telur forsendur fyrir refaveiðum brostnar, meðal annars vegna breytinga í landbúnaði, og finna ætti annað fyrirkomulag, einkum með tilliti til fuglaverndar. Meira en 56 þúsund refir hafa verið veiddir undanfarinn áratug með kostnað upp á tæpan milljarð fyrir ríki og sveitarfélög.

„Búfénaður virðist ekki verða fyrir tjóni. Við höfum kallað eftir tilkynningum um tjón en þær berast ekki, nema einstaka tilkynningar um æðarvarp," segir Steinar Rafn Beck Baldursson, sérfræðingur í veiðistjórnun hjá Umhverfisstofnun.

* * *

Fjárútlát hins opinbera vegna refaveiða virðast vera algjör tímaskekkja. Reyndar má halda því fram með óhrekjandi rökum að refaveiðar hefðu aldrei átt að greiðast af sveitarfélögum heldur af bændum. En kostnaðurinn hefði þó að öllum líkindum komið í staðinn úr ríkissjóði þar sem landbúnaður hefur verið á framfæri skattgreiðenda frá árinu 1934.

Rétt er að rifja þá sögu stuttlega upp því að hún er sannkallað víti til varnar.

Bændur í ánauð Framsóknarflokks

Árið 1934 setti ríkisstjórn Hermanns Jónassonar, „stjórn hinna vinnandi stétta", afurðasölulög með bráðabirgðalögum. Þar með var grunnurinn lagður að því landbúnaðarkerfi sem við búum við í dag. Í framhaldi af bráðabirgðalögunum voru lög nr. 1/1935 um meðferð og sölu mjólkur og rjóma o.fl., eða „mjólkursölulögin" sett.

* * *

Með mjólkursölulögunum var landinu skipt í sölusvæði þar sem ein sölumiðstöð annaðist mjólkursölu á hverju svæði en framleiðendur innan hvers svæðis máttu ekki selja mjólk eða mjólkurafurðir utan þess.

* * *

Tilgangur laganna var m.a. að draga úr sölu- og dreifingarkostnaði og hindra offramboð. Í lögunum var kveðið á um innheimtu verðjöfnunargjalds af sölu á neyslumjólk og rjóma þannig að allir bændur fengju sama verð fyrir afurðir sínar.

Einnig var lagt bann við innflutningi á mjólkurafurðum „nema brýna nauðsýn beri til". Einnig voru sett lög nr. 2/1935 um ráðstafanir til þess að greiða fyrir viðskiptum með sláturfjárafurðir og ákveða verðlag á þeim, eða „kjötsölulögin". Tilgangur laganna var að lágmarksverð á kindakjöti væri ákveðið af opinberum aðila til að hindra það að offramboð yrði á kjöti með því að gefa út sérstök leyfi til sölu og slátrunar og setja á kerfi útflutningsbóta, þar sem innheimt væri verðjöfnunargjald af öllu kjöti sem selt væri innanlands til þess að bæta upp verð á útfluttu dilkakjöti.

* * *

Oft þegar illa gengur í tiltekinni atvinnugreinum telja þeir sem trúa á ríkisvaldið að það geti komið til bjargar. Árið 1934 var erfitt ár fyrir íslenska bændur. Þetta slæma árferði nýtti Framsóknarflokkurinn sér. Hann notaði tækifærið og jók völd kaupfélaganna, og þar með eigin völd, á kostnað íslenskra bænda. Þessi ákvörðun kom í veg fyrir frjáls viðskipti og samkeppni og gerir enn.

* * *

56% hækkun á tíu árum

Rekstur Umhverfisstofnunar kostaði 1.588 milljónir króna árið 2020. Fyrir tíu árum var kostnaðurinn 788 milljónir króna eða 1.017 milljónir króna á verðlagi ársins 2020. Kostnaðurinn við stofnunina hefur því aukist um 56,1 milljón króna á ári eða um 56% á aðeins 10 árum.

* * *

Óðinn hefur skoðað ársreikninga stofnunarinnar undanfarin ár. Sérstaka athygli vekur að liðurinn ferðir, uppihald  sem fellur undir annan rekstrarkostnað, og getið er í skýringum, skuli hafa lækkað úr tæpum 50 milljónum króna árið 2019 í 16 milljónir króna árið 2020.

* * *

Þessi kostnaðarlækkun bendir til þess að Covid-19 hafi sett strik í ferðareikninginn. Ætla má að verulegur hluti þessa kostnaðar sé ferðalög erlendis. Færi ekki betur á því að sundurliða þennan kostnað nánar og tilgreina erlendan ferðakostnað sérstaklega?

* * *

Af hverju er Óðinn að velta því fyrir sér. Jú. Það kemur fram á heimasíðu Umhverfisstofnunar að flug mengi mikið. Þar segir:

Flug er sennilega einn stærsti þátturinn í losun gróðurhúsalofttegunda hjá einstaklingum og eykst mjög nú þegar mun auðveldara er að hoppa upp í flugvél og ferðast um allan heiminn. Losun gróðurhúsalofttegunda frá flugstarfsemi hefur aukist mjög mikið og mun koma til með að aukast meira í framtíðinni. Þess má geta að heildarlosun íslenskra flugrekenda af koltvísýringi árið 2014 var 900.000 tonn í millilandaflugi og rúm 1.000.000 tonn árið 2015. Ein flugferð, fram og til baka til Danmerkur losar t.d. um 370 kg af CO2 á farþega, en hægt er að skoða losun ferða á vefsíðu alþjóða flugmálastofnunarinnar ICAO.

Ef við skoðum betur töluna 370 kg af CO2  þá er það svipuð losun og ef fólksbíl er ekinn um 2.600 kílómetra (m.v. 140 g CO2/km í meðalakstri) eða tvisvar sinnum í kringum Ísland.

Það sem við þurfum því alvarlega að skoða er að fljúga minna eða fljúga styttri ferðir og nota meira af t.d. lestarsamgöngum þar sem það er hægt.

* * *

Er ekki svolítið sérstakt að stofnun sem segir að við þurfum „því alvarlega að skoða er að fljúga minna eða fljúga styttri ferðir" skuli ekki upplýsa þá sem standa straum að kostnaði við stofnunina, skattgreiðendur, hvort saman fari hljóð og mynd?  Hvort stofnunin fylgi sínum eigin ráðleggingum.

Umhverfisstofnun gerir ekki aðeins ársreikning heldur einnig ársskýrslu. Hvergi eru neinar upplýsingar um þetta að finna í þessum tveimur skýrslum.


Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.