Undanfarið hefur borið á skrifum um það hve óréttlátt íslenskt samfélag sé. Í þeim efnum hefur sviðsljósið beinst að fjármagnstekjum og -skatti. Einkum í því samhengi að sumir eigi mikið fjármagn, sem sé í eðli sínu óréttlátt. Niðurstaðan er gjarnan sú að hækka eigi fjármagnstekjuskatt og fullyrt að hann sé yfirleitt mun lægri en skattar á laun.

Viðskiptaráð skrifaði af þessu tilefni um virkt skatthlutfall fjármagnstekjuskatts. Markmiðið var að setja skatta á fjármagn og laun í samhengi. Þannig mætti færa umræðu um fjármagnstekjuskatt og samanburð við aðra skatta á hærra plan. Ráðið ætlar ekki að skera úr um hvort samfélagið sé óréttlátt. Það má þó benda á að jöfnuður mælist nær hvergi meiri og fátækt hvergi minni en á Íslandi.

Niðurstaða Viðskiptaráðs var sú að fjármagnstekjuskattur er ekki endilega lægri en skattar á laun. Það færi eftir aðstæðum hverju sinni.

Haukur í horni

Haukur Viðar Alfreðsson, doktorsnemi í skattahagfræði, tók skrif Viðskiptaráðs óstinnt upp. Hann birti nokkuð torlesna svargrein, þar sem kom meðal annars fram að Viðskiptaráð segði yfirleitt ekki satt og rétt frá. Að mati doktorsnemans væri framsetningin auk þess mjög villandi, farið frjálslega með staðreyndir og í ofanálag dregnar rangar ályktanir. Í stuttu máli segir hann:

  1. Viðskiptaráð velur ekki réttan hóp launþega annars vegar og ekki réttar fjárfestingar hins vegar til þess að bera saman skatta á laun og fjármagn. Viðskiptaráð sé að tína kirsuber. Nærtækara hefði verið að skoða tekjuhæstu einstaklingana og eitthvað annað en löng ríkisskuldabréf í þeim samanburði.
  2. Viðskiptaráð heldur því ranglega fram að skattar á fjármagnstekjur séu hærri en á laun. Doktorsneminn segir fjármagnstekjuskatt hæst geta orðið 38% en oftast sé hann lægri. Auk þess komi ráðið sér hjá því að fjalla um skattbyrði tekjuhæsta eins prósentsins.
  3. Viðskiptaráð tekur ekki tillit til þess að fyrirtæki greiða ekki út allan hagnað sem arð. Fyrirtæki fjárfesti gjarnan hagnaði til framtíðar, sem leiði til hærri ávöxtunar síðar meir. Í því felist sérstakt skattahagræði.
  4. Lögaðilar reyna markvisst að greiða sér lág laun því þeir kjósa heldur að innleysa hagnað í formi arðs og greiða í framhaldi fjármagnstekjuskatt.

Doktorsneminn gerir engan reka að því að rökstyðja þetta eða setja fram gögn sjálfur, en við skulum samt skoða hvort hann hafi rétt fyrir sér.

Hvað sagði Viðskiptaráð?

Í grein Viðskiptaráðs segir að fjármagnstekjuskattur sé stundum hærri en skattar á laun, en stundum ekki. Því var ekki haldið fram að fjármagnstekjuskattur væri ávallt hærri en tekjuskattur. Doktorsneminn hefur því ekki rétt eftir. Það er hins vegar villandi að halda því fram að skattar á fjármagn séu lægri en á laun. Það veltur á aðstæðum hverju sinni.

Í grein Viðskiptaráðs var tekið dæmi um áhættulausa fjárfestingu þar sem virkt skatthlutfall fjármagnstekjuskatts var um 60%. Með því fylgdi nokkuð skýr rökstuðningur. Doktorsneminn segir annars vegar að sú fjárfesting sé ekki samanburðarhæf þar sem hún gefi skakka mynd. Hins vegar að fjármagnstekjuskattur geti hæst orðið 38%, þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á annað. Hann rökstyður þetta ekki frekar.

Öll trén í skóginum og dýrin líka

Gott og vel. Skoðum þá eitthvað annað til samanburðar. Í skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðuneytis frá 1. nóvember 2020, hvar doktor Axel Hall gegndi formennsku, er fjallað um skattstofn fjármagnstekjuskatts og áhrif verðbólgu. Þar er skoðuð skattbyrði fjármagns miðað við verðbólgumarkmið Seðlabanka og raunafkomu. Í tilfelli viðskiptahagkerfisins hefði skattbyrði raunafkomu verið 47% árið 2018, hefði verðbólgan verið 2,5%. Hún var hærri, þannig að raunveruleg skattbyrði það árið var hærri en 47%.

Notum þessa aðferð og miðum við rauntölur. Hér skoðum við allan skóginn og dýrin í honum líka. Á tímabilinu 2010 til 2020 var afkoma í viðskiptahagkerfinu að meðaltali 13,2% á ári. Verðbólga var á sama tímabili 3% á ári, að meðaltali.

Hlutfall fjármagnstekjuskatts var hækkað úr 18% í 20% árið 2011 og upp í 22% árið 2018. Tekjuskattur lögaðila hækkaði úr 18% í 20% árið 2011. Frítekjumark fjármagnstekna var lengst af 150 þ. kr. en var hækkað í 300 þ. kr. árið 2021. Að öllu þessu virtu var raunveruleg skattbyrði fjármagnstekna í viðskiptahagkerfinu yfir þetta tímabil á bilinu 46 til 47%, eftir því hvernig tekið er tillit til frítekjumarks.

Vissulega má finna dæmi um einstök fyrirtæki, geira, fjárfestingar eða tímabil þar sem skattbyrðin var lægri eða hærri. Fullyrðing doktorsnemans um að skattbyrði fjármagnstekna verði hæst 38% er röng og sömuleiðis að sérstakt hagræði sé af arðgreiðslum umfram laun. Skoðum þau nú sérstaklega.

Hvað með þá tekjuhæstu?

Doktorsneminn finnur að því að Viðskiptaráð hafi ekki skoðað sérstaklega skattbyrði tekjuhæsta eins prósents Íslendinga. Hann vísar til greinar Oddnýjar G. Harðardóttur um fjármagnstekjur. Oddný fjallar ekki um þetta í tilvitnaðri grein. Látum það samt eftir doktorsnemanum að skoða þetta líka.

Eins og sjá má á myndinni er hlutfall tekjuskatts lægra en skatthlutfall af arðgreiðslum (að frátöldum áhrifum verðbólgu sbr. umfjöllun um raunverulegt skatthlutfall) þar til atvinnutekjur verða hærri en rúmar 2,2 m. kr. á mánuði. Þá eru 99% launamanna með lægri atvinnutekjur en 2,06 m. kr. á mánuði, miðað við síðasta ár.

Af þessu má ef til vill draga tvær ályktanir. Í fyrsta lagi að ef valið stæði á milli þess að fá atvinnutekjur skattlagðar sem laun eða arðgreiðslur væri hagstæðara í skattalegu tilliti fyrir rúm 99% þjóðarinnar að velja hið fyrrnefnda.

Í öðru lagi sýnist sem svo að fyrir þá sem höfðu hærri atvinnutekjur en 2,2 m. kr. á mánuði, sem er minna en 1% launamanna, væri að öllu öðru óbreyttu hagstæðara að greiða þær út sem arð. En bara ef þetta væri svo einfalt. Fyrir það fyrsta ber þeim sem starfa við eigin atvinnurekstur að reikna sér endurgjald. Það þýðir að þeim ber að greiða tekjuskatt, hvort sem þeir greiða sér út arð síðar eða ekki. Í annan stað er raunveruleg skattbyrði af arðgreiðslum oft talsvert hærri en ætla mætti í fyrstu, eins og fjallað hefur verið um.

Heimsins stærsta kirsuber

Í grein Viðskiptaráðs var virkt tekjuskatthlutfall allra íslenskra launamanna á aldrinum 25 til 64 ára, sem eru í sambúð með 1-2 börn, borið saman við skatt af arðgreiðslum. Auk þess var gerður samanburður við tekjuskatt neðstu og efstu tekjutíundar þessa hóps. Þetta er nokkuð stór hluti þjóðarinnar.

Doktorsneminn segir þetta ekki vera nærtækan samanburð, þar sem um afmarkaðan hóp sé að ræða. Hann sakar Viðskiptaráð um kirsuberjatínslu. Vissulega er hópurinn afmarkaður. Þetta eru ekki allir launamenn á Íslandi, heldur bara megnið af þeim. Ef Viðskiptaráð er að tína kirsuber þá eru það líklega stærstu kirsuber í heiminum.

Þess í stað telur doktorsneminn rétt að bera fjármagnstekjuskatt saman við efsta þrep tekjuskatts, 46%. Rökin hans eru þau að ef ríkasti hópur fjármagnseigenda gæti ekki greitt sér út arð en myndi þess í stað greiða sér hærri laun, myndi skatthlutfall þeirra nálgast 46%. Það er fyrst og fremst fræðilegur samanburður, en kannski hefur doktorsneminn eitthvað til síns máls.

Til hvers erum við að þessu?

En þá komum við að kjarna málsins. Á Norðurlöndunum er notast við blandað skattkerfi. Skatthlutfall launa er hærra en á fjármagnstekjur. Hvers vegna er þetta svona? Það eru margskonar rök fyrir því. Skoðum þau helstu.

Í fyrsta lagi er það vegna þess að skattur á arð af fjárfestingu minnkar arðsemi hennar. Á mannamáli þýðir þetta að hvatinn til þess að fjárfesta til framtíðar, t.d. með því að stofna fyrirtæki, kaupa framleiðslutæki eða fara í rannsóknar- og nýsköpunarstarf, minnkar með hærri fjármagnstekjuskatti. Þá er ólíklegra að fólk með góðar hugmyndir leggi í áhættuna og stritið við að láta þær verða að veruleika. Og hvers vegna skiptir það máli? Það er öllum fyrir bestu að fólk vilji yfir höfuð fjárfesta og reka fyrirtæki á Íslandi, því annars sköpum við okkur verri framtíð. Meira að segja lögfræðingar skilja þetta.

Í öðru lagi vegna þess að fjármagnstekjuskattur leggst á nafnávöxtun og þar af leiðandi líka á verðbólgu. Fjármagnstekjuskatturinn þarf því að vera lægri en skattur á launatekjur. Þetta flækir líka samanburð á virku skatthlutfalli fjármagnstekna við launatekjur. Virkt skatthlutfall fjármagnstekjuskatts er því mjög breytilegt en í öllu falli er það aldrei lægra en 22% af nafnávöxtun og stundum mun hærra en 37,6% af raunávöxtun.

Í þriðja lagi vegna þess að fjármagn er hreyfanlegra en vinnuafl. Ef fjármagnstekjuskattur á Íslandi er mun hærri en í samanburðarlöndum þá leita fjárfestingar eitthvert annað, enda er tiltölulega auðvelt að flytja fjármagn á milli landa. Það er erfiðara að flytja af landi brott ef manni þykir tekjuskatturinn vera helst til of hár.

Í fjórða lagi vegna þess að háir eða flóknir fjármagnstekjuskattar geta bjagað fjárfestingar. Betra er að hafa einfalda, lága skattlagningu með breiðum skattstofni. Það stuðlar frekar að hlutleysi skattkerfisins og tryggir betur að fjármagn laðist þangað sem því verður helst ávaxtað.

Í fimmta lagi vegna þess að háir fjármagnstekjuskattar leiða til allrataps. Reynsla Norðurlandanna er sú að lægri fjármagnstekjuskattur með breiðari skattstofni og færri undanþágum jók tekjuöflun þeirra umtalsvert. Lægri fjármagnstekjuskattar skapa svigrúm til þess að halda aftur af hækkun tekjuskatts, þótt deila megi um hvort það svigrúm sé skynsamlega nýtt af hálfu hins opinbera.

Í ímynduðum heimi þar sem ekki væri hægt að greiða arð, eða ef fjármagnstekjuskatturinn væri talsvert hærri, myndi þessi fámenni hópur tekjuhæstu Íslendinganna fræðilega séð frekar greiða sér ígildi hagnaðar sem laun í stað arðs. Þá væri skatthlutfall þeirra hærra en 37,6%. Hárrétt hjá doktorsnemanum, að öllu öðru óbreyttu.

En tilvonandi hagfræðingum er gjarnan kennt að fólk bregðist við hvötum. Ef fjármagnstekjuskattar hér yrðu mun hærri en annars staðar, þá mun tvennt gerast. Annars vegar mun fjármagn flýja land. Hins vegar mun nýtt fjármagn síður koma hingað. Áhrif þessa yrðu þau að draga myndi úr verðmætasköpun og velferð þjóðarinnar.

Til hvers er fjármagn?

Doktorsneminn segir jafnframt að Viðskiptaráð hafi viljandi sleppt að minnast á þá staðreynd að fyrirtæki geta sleppt því að greiða hagnað út sem arð. Þess í stað geti þau fjárfest til framtíðar og notið ríkulegri ávöxtunar í framtíðinni. Í því felist skattahagræði.

Viðskiptaráð gleymdi ekki að minnast á þetta. Þetta var ekki til umfjöllunar í grein ráðsins. En þetta er hárrétt athugað hjá doktorsnemanum. Fyrirtæki getað frestað og jafnvel komist hjá skattlagningu á arði með því að fjárfesta honum áfram í rekstrinum. Í staðinn greiða þau tekjuskatt af hagnaðinum, 20%.

Á mannamáli þýðir þetta að í stað þess að taka fjármagnið úr rekstrinum er það notað til þess að kaupa ný tæki og tól, ráða fleira starfsfólk og stunda rannsóknar- og þróunarstarf. Svona fjárfestingar eru ein meginástæða þess að við Íslendingar erum meðal mestu velmegunarþjóða heims. Það njóta allir góðs af því þegar efnahagslífið skapar verðmæti. Líka fólk í niðurgreiddu háskólanámi.

Viðskiptaráð áttar sig ekki á hvað er við þetta að athuga. Það væri slæm hugmynd að fjárfesta ekki til framtíðar. Það væri líka feigðarflan að hækka fjármagnstekjuskatt þannig að fjármagn yrði læst inni í óarðbærum fyrirtækjum eða atvinnugreinum. Það tapa allir á því. Aðalatriðið er að skattkerfið sé samkeppnishæft og hlutlaust um í hverju sé fjárfest, þannig að fjármagn leiti þangað sem framleiðni þess er mest.

Meint skattahagræði doktorsnemans

Doktorsneminn heldur því að endingu fram að það sé sérstakt vandamál skattayfirvalda að eigendur fyrirtækja greiði sér lág laun svo hægt sé að hámarka fjármagnstekjur. Þetta er órökstutt. Auk þess gefur hann sér þá forsendu að hagstæðara sé að greiða skatta af fjármagnstekjum en launum. Eins og fram hefur komið er allur gangur á því hvort sú forsenda sé rétt.

Viðskiptaráð gerir ráð fyrir því verið sé að vísa til tilfella þar sem eigendur fyrirtækja reikni sér lægra endurgjald en þeim er áskilið samkvæmt gildandi reglum. Þegar svo ber undir er um skattaundanskot að ræða. Það er ámælisvert og ólöglegt. En það hefur ekkert komið fram um að þetta sé stórfellt vandamál.

Að því sögðu væri óðs manns æði að ætla að bregðast við með hækkun fjármagnstekjuskatts. Hækkun hans hefur víðtæk og langvarandi áhrif á efnahagslífið í heild. Það væri eins og vera með skítugt hár og klippa af sér taglið í stað þess að fara í sturtu. Kannski vex það aftur, en það tekur tíma.

Það hefði farið betur á því ef doktorsneminn hefði kynnt sér staðreyndir málsins áður en hann mundaði pennann. Eins og sjá má er gagnrýni hans í öllum meginatriðum röng.

Elísa Arna Hilmarsdóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands