Guðni Th. Jóhannesson forseti á von á 220 þúsund króna launahækkun um næstu mánaðarmót, ef lögum verður ekki breytt.

Hröfnunum var bent á frétt í Ríkisútvarpinu í gær þar sem rifjuð voru upp orð forsetans frá 2016, þá nýkjörnum, um 500 þúsund króna launahækkun hans.

„Ég bað ekki um þessa kauphækkun. Ég vissi ekki af þessari kauphækkun. Ég þarf ekki þessa kauphækkun.“

Guðni gaf, að sögn fréttamanns Ríkisútvarpsins, launahækkunina til góðgerðarmála.

Síðar í fréttinni var viðtal við forsetann um væntanlega kauphækkun.

„Nú erum við að reyna að búa til kerfi þar sem farið er eftir einhverju meðaltali, en ég ítreka að ef alltaf bætist í prósentutölum við höfuðstólinn, þá er býsna fljótt að aukast bilið á milli þeirra sem lægst fá og þeirra sem fá mest í prósentum talið.“

Þetta er meinleg reiknivilla hjá forsetanum. Ef þú hækkar tvær tölur um sömu prósentu helst hlutfallið milli talnanna óbreytt.

Meira segja er það nú svo að skattkerfið sér til þess að sá sem er með hærri launin og er í efsta skattþrepinu færi hlutfallslega minni launahækkun í vasann.

Tveir sagnfræðingar komu að þessari frétt. Forsetinn og Sigríður Hagalín Björnsdóttir fréttamaður. Hún hefur áður látið viðmælanda sinn plata sig upp úr skónum í talnaleikfimi eins og sjá má hér.

Það er hægt að halda því fram að hvorugt þeirra sé að gera það sem þau eru best í. Bæði eru þau nefnilega mjög góð í að skrifa bækur.