Sveitarfélög eiga fyrst og síðast að þjóna íbúum sínum. Reykjavík er engin undantekning á því. Þegar skoðaðar eru samræmdar kannanir CapacentGallup kemur í ljós að Reykjavíkurborg mælist langneðst meðal sveitarfélaga. Með öðrum orðum þá eru íbúar Reykjavíkur áberandi óánægðir með þjónustuna. Borgin sem ætti að vera í bestum færum að nýta fjármuni best í krafti stærðar sinnar. Reyndin er önnur.

Þrátt fyrir að skattar og gjöld séu með því hæsta í landinu hafa skuldir borgarsjóðs aukist gríðarlega á síðasta kjörtímabili. Eymdarvísitalan (e. misery index) mælir atvinnuleysi og verðbólgu. Segja má að mælikvarðar á sveitarfélög séu álögur, skuldsetning og ánægja. Á þessa mælikvarða fær borgin falleinkunn. Útsvar er í hæstu leyfilegu hæðum í Reykjavík, en áður var borgin hóflegri í þeim efnum.

Fasteignaskattar á íbúðar- og atvinnuhúsnæði hafa snarhækkað og er hækkunin víða um 50% á kjörtímabilinu. Borgarsjóður hefur bætt á sig um milljarði á mánuði allt kjörtímabilið. Það er um 80% aukning skulda í þeim sjóði sem tilheyrir kjarnarekstri sveitarfélaganna. Þá er það loks ánægjuvog viðskiptavinanna; íbúanna. Þar mælist borgin ekki bara neðst . Hún mælist langneðst.

Heimatilbúinn húsnæðisvandi

Fyrir fjórum árum síðan var miklu lofað um uppbyggingu íbúða. Reyndin varð önnur. Í stað þess að byggðar séu yfir eitt þúsund íbúðir á ári eins og nauðsyn krefur voru eingöngu 322 íbúðir byggðar á síðasta ári. Minna en í Mosfellsbæ. Einhæf áhersla á dýr þéttingarsvæði hefur óhjákvæmilega leitt til þess að þær íbúðir sem eru í boði eru dýrar. Sífellt fleiri flytja til annarra sveitarfélaga þar sem hagstæðara er að búa.

Í stað þess að Reykjavík stækkaði tekjustofna sína með fjölgun útsvarsgreiðenda hefur þeim fækkað í nokkrum hverfum borgarinnar. Mest er fækkunin í miðborginni eða 9% á fimm árum. Núverandi borgarstjórnarmeirihluti hefur lagt áherslu á að fá sem allra hæst verð fyrir lóðir. Það er skammgóður vermir. Hyggilegra væri að tryggja nægt og fjölbreytt framboð lóða í austur- og vesturborginni. Það er það sem þarf að gera strax að loknum kosningum.

Nýr meirihluti mun taka upp aðalskipulag og leyfa uppbyggingu við Keldur, í Örfirisey við Grandann, klára Úlfarsárdalinn með sóma auk annarra verkefna. Tvennt annað ber að gera: Annars vegar að minnka kvaðir á húsbyggjendur og leyfa byggingu hagkvæmara húsnæðis. Hins vegar að stytta afgreiðslutíma kerfisins, sem er stundum mörg ár að afgreiða mál. Þetta þrennt mun gera Reykjavík nútímalegri og auk þess tryggja milljarðatekjur.

Fyrirtækin fara

Fleiri og fleiri fyrirtæki eru að flytja burt úr Reykjavík. Lítið sem ekkert er í boði af atvinnulóðum og stefnan er að fyrirtækin fari í Kópavog, Hafnarfjörð, Reykjanesbæ og Árborg. Ekki minnkar þessi stefna umferðarvandann. Þessi stefna veikir rekstrarmódel borgarinnar með tvennum hætti. Tekjur af fyrirtækjum er miklar. Fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði eru um 12 milljarðar á ári.

Vinnandi fólk vill oft búa sem næst fyrirtækjunum sem það starfar hjá. Það er því óumflýjanlegt að margir góðir útsvarsgreiðendur fylgi á eftir. Þessu vil ég breyta og búa fyrirtækjum og stofnunum góða kosti til að byggja upp og vera með starfsemi sína í Reykjavík. Keldnalandið er hér góður kostur þar sem mikið óskipulagt landsvæði liggur í austurborginni.

Skipulagslega er það skynsamlegt, enda mun slík uppbygging nýta samgöngukerfið mun betur. Á morgnana liggur leiðin vestur í bæ, en síðdegis í austur. Helmingur akreinanna er mjög illa nýttur á háannatímum. Bætt skipulag með fleiri vinnustöðum austar í borginni eykur sjálfbærni og gæði hverfanna og minnkar álagið á umferðina. Þetta sparar ómælda fjármuni.

Kerfið stækkar og stækkar

Loks er ljóst að stjórnkerfið sjálft er orðið stórt, kostnaðarsamt og óskilvirkt. Hér þarf að stytta boðleiðir og spara fjármuni. Á síðustu átta árum hefur stjórnkerfið stækkað og kostnaður aukist mikið. Svigrúm sveitarfélaga er lítið fyrir en hjá sveitarfélagi sem er með alla gjaldstofna í botni og er sífellt að auka skuldsetningu sína þá skiptir hvert prósent miklu. Hver milljarður sem fer í stækkun stjórnkerfisins fer ekki í bætta þjónustu. Hann er tapaður.

Reykjavík þarf að bæta tekjuhlið sína með eðlilegum vexti. Það gerir hún ekki í dag. Borgin þarf að setja fjármuni í þjónustuna og minnka yfirbygginguna sem er orðin of mikil. Þannig þarf að laga rekstrarmódel borgarinnar sem orðið er ósjálfbært. Í næsta mánuði gefst tækifæri að breyta um kúrs. Ég treysti því að íbúarnir velji breytingar og betri Reykjavík.

Höfundur er borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins.