*

mánudagur, 13. júlí 2020
Drífa Snædal
13. júní 2020 13:35

Rétta leiðin

Í öllum kreppum munu stórkapítalistar reyna að nota ferðina til að draga úr eftirliti, auka samþjöppun og sölsa undir sig meiri auð.

Haraldur Guðjónsson

Rétta leiðin út úr kreppunni sem Covid hefur skapað er að hafa lífsgæði og öryggi að leiðarljósi í öllum aðgerðum. Ríki heimsins og alþjóðastofnanir hafa lært af síðustu kreppu að það sem öllu máli skiptir er að treysta innviði og tryggja afkomu fólks. Að leggja ofuráherslu á að verja fjármagnseigendur og koma ríkissjóðum á núllið hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir almenning.

Ríki sem keyrðu harða niðurskurðarstefnu eftir síðustu kreppu eru verr í stakk búin til að bjarga mannslífum og takast á við heilsufarslegar, félagslegar og efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins.

Hér heima hefur staðan afhjúpað bæði styrkleika og veikleika í okkar samfélagi. Styrkleikarnir eru óumdeildir: sterkar almannavarnir, gott fagfólk, skipulagður vinnumarkaður, almannatryggingar og opinbert heilbrigðis- og velferðarkerfi. Úrræði stjórnvalda hafa gengið upp vegna skipulagðs vinnumarkaðar þar sem ráðningasambönd eru í gildi og aðstoðin ratar þar af leiðandi til fólks. Veikleikarnir birtast  einnig harkalega, sérstaklega í ótryggum ráðningasamböndum. Ferðaþjónustan var orðin að stórum hluta okkar atvinnulífs og nú kom enn á ný í ljós hversu viðkvæm hún er fyrir ágjöf. Það þarf ekki nema eitt eldgos til að heil atvinnugrein raskist, að ekki sé minnst á heimsfaraldur. Að treysta á ótrygg ráðningarsambönd og að stunda gerviverktöku er ávísun á erfiðleika bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga.

Fyrirtækin geta ekki nýtt úrræðin sem standa til boða þar sem þau byggja á ráðningasamböndum og einstaklingar sem vinna að ákveðnum verkefnum eins og leiðsögumenn og fólk í ýmiss konar afþreyingarþjónustu eiga ekki uppsagnarfrest og verkefnin hverfa eins og dögg fyrir sólu á einni nóttu. Þá tekur við almannatryggingakerfið, þ.e. atvinnuleysisbætur sem eru allt of lágar til að hægt sé að draga fram lífið á þeim. Atvinnuleysisbætur hafa ekki fylgt launaþróun og það er orðið bráðnauðsynlegt að hækka bæturnar og lengja það tímabil þar sem fólk er með tekjutengdar bætur.

Við erum komin fyrir vind í bili í baráttunni við veiruna sjálfa og nú er kominn tími til að huga að framtíðinni. ASÍ hefur lagt fram framtíðarsýn í skjalinu „Rétta leiðin – frá kreppu til lífsgæða og öryggis fyrir okkur öll“. Þar er sótt í smiðju verkalýðshreyfingarinnar og í alþjóðlega umræðu og stefnumótun. Eftir síðustu kreppu urðu hinir ríku ríkari og ýmis lönd eru að glíma við alvarlegar afleiðingar þess að hafa holað opinber velferðarkerfi að innan. Rauði þráðurinn í leiðsögn alþjóðastofnana er að tryggja afkomu fólks, húsnæðisöryggi og sterka innviði. Ef það er ekki gert mun kreppan dýpka og vandinn verða langvinnari og skaðlegri en tilefni er til.

Þetta er tímapunkturinn til að snúa vörn í sókn, renna styrkari og fjölbreyttari stoðum undir atvinnulífið með stuðningi við ný störf um allt land og flýta þeirri þróun sem þegar er orðin í að stytta vinnuvikuna. Sú stytting á að hefjast hjá þeim sem sinna líkamlega og andlega erfiðum störfum; þeim sem hlupu hraðar eftir síðustu kreppu og hafa haldið í okkur lífinu í heimsfaraldrinum.

Forðum þeim frá kulnun og örorku á næstu árum og léttum undir með því að stytta vinnutímann án kjaraskerðingar. Þannig skapast líka fleiri störf og þar með er undið ofan af vanda framtíðarinnar. Treystum réttindi á vinnumarkaði þannig að fleiri séu í tryggari ráðningarsamböndum, upprætum gerviverktöku og svarta atvinnustarfsemi. Veitum atvinnurekendum stíft aðhald í gegnum framlög úr opinberum sjóðum og líðum það ekki að einhverjir greiði ekki sanngjarnan skerf til samfélagsins eða svíni á launafólki.

Framtíðin sem við höfum verið að búa okkur undir er mætt. Ný störf sem skapast þurfa að vera í sátt við náttúru og umhverfi og fólk þarf að fá tækifæri til að mennta sig til að mæta tækniframförum. Þetta er hægt að gera í gegnum úrræði fyrir atvinnuleitendur enda er löngu kominn tími til að standa við stóru orðin um aukna menntun í iðn- og tæknigreinum. Nú er það beinlínis orðið lífsnauðsyn fyrir samfélagið.

Í öllum kreppum munu stórkapítalistar reyna að nota ferðina til að draga úr eftirliti, auka samþjöppun og sölsa undir sig meiri auð. Það er því veruleg hætta á að eftirlitsstofnanir fái ekki nægt fjármagn til að sinna sínu hlutverki og að söngurinn um sölu eigna í okkar sameiginlegu eigu verði hávær á næstu árum. Þá er brýnt að standa í lappirnar og verja innviðina. Það er opinbert heilbrigðiskerfi sem hefur staðið vörð um heilsu okkar, opinbert menntakerfi sem við nýtum til endurmenntunar fyrir framtíðina og grunnkerfi rafmagns og hita sem reynir á þegar harðir vetur leika okkur grátt.

Við þurfum líka að hafa þolinmæði til að skulda þessa kreppu, það liggur ekki á að greiða skuldina, þaðan af síður að velta henni yfir á almenning í formi niðurskurðar, gjaldtöku, skattheimtu á almenning eða annars sem holar samfélagið að innan.

Strembnir tímar kalla á skynsamlega nálgun: Tryggjum afkomu og húsnæðisöryggi, aukum menntun og fjölbreytni. Þannig komum við sterkari út úr kreppunni.

Höfundur er forseti Alþýðusambands Íslands.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.