Við stofnun A-deildar lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna árið 1997, með 15,5% iðgjald, fékk jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins aukið vægi. Skref til jöfnunar voru stigin árin 2005-2007, en bankahrunið tafði áform samningsaðila á almennum vinnumarkaði.

Haustið 2015 stóðu SA og ASÍ enn einu sinni frammi fyrir því að forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hefðu brugðist vegna kjarasamninga innan hins opinbera. Meginforsendan var sú að launastefna samninganna yrði stefnumarkandi fyrir aðra kjarasamningagerð, en sérstakur gerðardómur skipaður af Alþingi úrskurðaði félagsmönnum í Félagi hjúkrunarfræðinga, í ágúst 2015, umtalsvert meiri launahækkanir en í stefnunni fólst. Þá varð ljóst að kjarasamningum yrði sagt upp fyrir lok apríl 2016 ef ekki yrðu gerðar á þeim verulegar breytingar.

Í janúar 2016 gerðu síðan SA og landssambönd ASÍ kjarasamninga sem fólu í sér að framlag launagreiðenda í lífeyrissjóði hækkaði í þremur áföngum í 11,5% á árunum 2016-2018 og í kjölfarið úrskurðaði forsendunefnd SA og ASÍ að forsendur hefðu staðist vegna samninganna um hækkun framlaga í lífeyrissjóði.

Samningarnir kváðu á um heimild til ráðstöfunar á 3,5% af framlaginu í tilgreindan séreignarsparnað í stað samtryggingar til að auka sveigjanleika við lífeyristöku. Sjóðfélagi gæti varið hluta skylduiðgjalds til uppbyggingar lífeyrisréttinda í séreign og skapað möguleika á að hætta störfum fyrir almennan lífeyristökualdur, að fara í hlutastarf á síðustu starfsárunum eða hafa hærri lífeyri á fyrri hluta lífeyristímabilsins en því síðara.

Í samskiptum við stjórnvöld lögðu samningsaðilar ítrekað áherslu á að lögum nr. 129/1997 yrði breytt þannig að sérstök ákvæði um tilgreinda séreign fengju lagastoð. Í raun voru kjarasamningarnir gerðir á grundvelli fullvissu um að stjórnvöld myndu beita sér fyrir slíkri lagabreytingu. Á fyrri hluta ársins 2017 vann starfshópur aðila vinnumarkaðarins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins að gerð lagafrumvarps til þess að veita tilgreindri séreign skýra lagastoð og var þá miðað við að breytingarnar tækju gildi 1. júlí 2017. Síðasti fundur starfshópsins var í maí 2017, hann lauk ekki störfum og ekkert frumvarp var lagt fram á Alþingi.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í tengslum við Lífskjarasamninginn frá apríl 2019 segir að stjórnvöld muni setja í forgang lögfestingu greiðslu 15,5% af iðgjaldsstofni til lífeyrissjóðs og að 3,5% geti farið til öflunar réttinda í tilgreindri séreign.

Fjármálaráðherra hefur nú lagt fram langþráð frumvarp fyrir Alþingi. Lögbundið lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs verður hækkað úr 12% í 15,5% og lögfest er heimild til að ráðstafa allt að 3,5% af lágmarksiðgjaldi í tilgreinda séreign.

Ómálefnaleg gagnrýni

Því hefur verið haldið fram að 15,5% iðgjald í lífeyrissjóð sé of hátt og leiði til of mikilla lífeyrisréttinda. Því er til að svara að iðgjaldagreiðslur sem nema 15,5% af launum í 40 ár, og bera að jafnaði 3,5% raunávöxtun, mynda rétt til lífeyris sem nemur 72% af meðallaunum á starfsævinni. Þar sem kaupmáttur launa hefur almennt farið vaxandi má gera ráð fyrir að hlutfallið yrði mun lægra af lokalaunum viðkomandi starfsmanns áður en hann hæfi töku lífeyris. Væri miðað við 2% árlega kaupmáttaraukningu næmi tryggingaverndin aðeins 46% af lokalaunum.

Þá halda sumir því fram að tilgreind séreign flæki lífeyrissjóðalögin. Undir það skal tekið að mikilvægt er að lífeyrissjóðalögin séu eins einföld og skýr og kostur er. Þó má ætla að í framhaldi samþykktar frumvarpsins verði tvenns konar séreignarsparnaður ríkjandi, þ.e. viðbótarlífeyrissparnaður umfram skyldutryggingu og tilgreindur séreignarsparnaður.

Loks halda gagnrýnendur frumvarpsins því fram að allar breytingar verði að gera í víðtækri sátt allra sem um málið fjalla. Um núgildandi ákvæði hafi verið mikil sátt. Í þessu felst krafa um neitunarvald. Það hefur engin sátt verið um það að lífeyrissjóðir utan samningssviðs SA og ASÍ bjóði leiðir sem heimila útgreiðslu stórs hluta skyldusparnaðar við 60 ára aldur á grundvelli loforðs um ævilangan lífeyri frá 82 ára aldri. Um andval þar sem menn geta valið leiðir sem veita þeim hærri greiðslur úr almannatryggingum en sjóðfélagar í lífeyrissjóðum á samningssviði SA og ASÍ getur aldrei orðið sátt. Það er hægt að fullyrða með 100% vissu að það verður ekki gert samkomulag um breytingar í nefnd hagsmunaaðila um lífeyrismál. Um það ber sagan órækt vitni og nægir að vísa til nefndar fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem starfaði á fyrri hluta ársins 2017 og hætti störfum um mitt það ár, enda var þá tilgangslaust að halda karpinu áfram.

Réttlætismál

Samhliða frumvarpinu um breytingar á lífeyrissjóðalögunum eru lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar. Þar er mælt fyrir um að réttindi sem myndast af skyldutryggingariðgjaldi, hvort sem þau eru í formi samtryggingar eða séreignar, hafi áhrif til lækkunar á greiðslum almannatrygginga. Þó er kveðið á um að að réttindi í tilgreindri séreign skerði ekki lífeyri almannatrygginga. Þessi breyting jafnar aðstöðu sjóðfélaga eftir því hvort þeir eru í almennum lífeyrissjóðum eða sjóðum með frjálsri aðild. Verði frumvarpið að lögum munu þannig réttindi sem myndast með tilgreindum lífeyrissparnaði og viðbótarlífeyrissparnaði umfram skyldu ekki skerða ellilífeyri, en önnur lífeyrisréttindi sem myndast vegna séreignarsparnaðar innan skyldutryggingar gera það.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.