*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Huginn og muninn
4. ágúst 2018 11:02

Reykjavíkurborg hýdd

Málefni heimilislausra og forystuhæfileikar Heiðu Bjargar Hilmisdóttur.

Heiða Björg Hilmisdóttir.
Aðsend mynd

Þótt það sé sól og sumarblíða hefur verið óvenjumikið að gera á vettvangi borgarstjórnar. Ástæðan er sú að umboðsmaður Alþingis birti niðurstöður frumkvæðisathugunar á því hvernig staðið væri að málefnum heimilislausra í 15 stærstu sveitarfélögum landsins, en þar var Reykjavíkurborg tekin út úr og nánast hýdd fyrir að hafa brotið reglur stjórnsýsluréttar, landslög, stjórnarskrá og fjölþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar í þessum málaflokki.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var að vísu illa fjarri góðu gamni, sem er miður því hann er eini fulltrúi meirihlutans í borgarstjórn, sem verið hefur samfellt við völd á þeim tíma sem heimilislausum tók að fjölga svo mjög. Hins vegar var eftir því tekið að 2. maður Samfylkingar, Heiða Björg Hilmisdóttir, sem jafnframt er varaformaður Samfylkingarinnar, kom fram af þeim myndugleik að fáum dylst að hún ætlar sér að taka við af Degi í fyllingu tímans. Ekki var annað séð en að fulltrúar hinna flokkanna í meirihlutanum gætu vel fellt sig við forystu hennar.

Fjarvera Dags kom auðvitað ekki til af góðu, en líkt og hann greindi frá í viðtali við Fréttablaðið í fyrri viku hefur hann greinst með sjaldgæfan sjúkdóm, fylgigigt, og undirgengst nú meðferð við honum. Sennilega hefur sjúkdómurinn grafið um sig í kjölfar sýkingar liðið haust, en hann greindist ekki fyrr en í sumar og kveðst Dagur búast við því að hann þurfi að vera í lyfjameðferð í a.m.k. 1-2 ár.

Að sögn Dags fylgja sjúkdómnum miklir verkir og skert hreyfigeta, en hann gengur nú við staf. Dagur segist vonast til þess að koma aftur til starfa í Ráðhúsinu að loknum sumarleyfum, en býst við að „fara ekki jafn hratt yfir og áður“. Annars viti hann lítið enn sem komið er hvaða áhrif sjúkdómurinn hafi á starf hans sem borgarstjóra, en sjúkdómurinn getur lagst á fleiri líffæri, svo sem augu og hjartalokur. Hrafnarnir óska borgarstjóra skjóts og góðs bata.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is