*

föstudagur, 3. júlí 2020
Óðinn
15. janúar 2019 18:02

Reykjavíkurborg og bragginn Winston

Pólitísk aðkoma og fé án hirðis eru ástæðurnar fyrir því hvernig tókst að klúðra endurbyggingu braggans.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirritar samning um endurbætur á bragganum umdeilda.
Aðsend mynd

Skýrsla innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggamálið, endurbyggingu á hluta af Hótel Winston sem sett var á stofn árið 1944, er á köflum áhugaverð.

                                                           ***

Sérstök almenn umfjöllun er í skýrslunni um opinberar framkvæmdir er illskiljanleg og veltir Óðinn fyrir sér hvort starfsmenn innri endurskoðunar séu í stakk búnir að fjalla um þessa ótrúlegu meðferð á skattfé Reykvíkinga, sem braggamálið er, og um leið að fjalla um verk borgarstjóra, borgarritara og annarra yfirmanna og starfsmanna í Ráðhúsi Reykjavíkur.

                                                           ***

Í skýrslunni segir „Heyrst hefur það álit sumra að framúrkeyrsla á opinberum framkvæmdum stafi af því að kostnaðaráætlanir séu vísvitandi hafðar í lægri kantinum til þess að samþykki fáist fyrir verkefninu. Vandséð er að þeir sem leggja fram áætlanirnar hafi einhverja hagsmuni af slíkum blekkingum nema þeir séu tengdir framkvæmdunum persónulegum böndum. Ekkert slíkt hefur komið í ljós varðandi framkvæmdirnar að Nauthólsvegi 100.“

                                                           ***

Pólitískur þrýstingur
Doktor Þórður Víkingur Friðgeirsson verkfræðingur, sem hefur fjallað mikið um opinberar framkvæmdir og framúrkeyrslur þeirra, kemst að þeirri niðurstöðu í grein sinni, Frumundirbúningur og ákvörðunartaka vegna opinbers verkefnis á Íslandi borið saman við norskar lágmarkskröfur, að „[vandamál] framúrkeyrslu er því hugsanlega ekki skortur á þekkingu heldur fremur ríkuleg óskhyggja sem byrgir ákvörðunartökum sýn í bland við þrýsting um að veita tilteknum verkefnum brautargengi. Mikilvægi þess að undirbúningur verkefnis sé faglegur og byggi á mótaðri aðferðafræði er því mikið út frá sjónarhóli almennings.“

                                                           ***

Höfundurinn jarðar þarna hugmyndir innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar að það þurfi að vera persónulegir hagsmunir sem ráði því að menn af ásetningi leggi fram óraunhæfar kostnaðaráætlanir hjá hinu opinbera. Pólitískur þrýstingur getur haft þar áhrif sem getur birst sem fyrirgreiðslupólitík, hreppapólitík og kjördæmapot. Nýlegasta og besta dæmið um það eru Vaðlaheiðagöng. Þegar lög um ríkisábyrgð á lánum til gangagerðarinnar voru samþykkt áttu þau að kosta 8,7 milljarða króna. Í dag er áætlað að kostnaðurinn nemi 17 milljörðum króna. Í umræðum um framkvæmdina var ítrekað bent á hversu veikum grunni kostnaðaráætlun byggði á, litlar rannsóknir höfðu farið fram á berglögum og hættu á vatnselg. Aðeins 29 þingmenn samþykktu framkvæmdina.

Bragginn eins og lúxushótel
Það var pólitísk ákvörðun að endurbyggja braggann að Nauthólsvegi 100. Það er ekki nokkur vafi að það er auðveldara að fá samþykki fyrir endurbyggingu á bragga ef áætlunin hljóðar upp á 152 m.kr. heldur en 425 m.kr. Til að setja þetta í samhengi þá var áætlaður kostnaður á fermetra svipaður og kostar að byggja meðalstóra íbúð, eða 337 þúsund kr. Hins vegar var endanlegur kostnaður 945 þúsund kr. sem er hærri kostnaður en áætlað er að fimm stjörnu hótelið við Hörpu muni kosta.

                                                           ***

Í inngangi að skýrslu sinni fer innri endurskoðun yfir hlutverk sitt: „Innri endurskoðun veitir óháða og hlutlæga staðfestingu og ráðgjöf sem ætlað er að vera virðisaukandi og bæta rekstur Reykjavíkurborgar. Innri endurskoðun heyrir undir borgarráð Reykjavíkur en innri endurskoðandi nýtur faglegs sjálfstæðis í störfum sínum gagnvart allri stjórnsýslu borgarinnar, þar með talið borgarstjóra.“

                                                           ***

Þegar minnihlutinn í borgarstjórn var að gagnrýna að ekki væru fengnir utanaðkomandi sérfræðingar til að fara yfir braggamálið hafði Óðinn efasemdir um það. Innri endurskoðun hlyti að ráða við verkefnið. En þetta atriði bendir þó til að svo sé ekki og þarna sé beinlínis verið að fegra niðurstöðu skýrslunnar.

                                                           ***

Fjárhagslega ábyrgð skorti
Til viðbótar við pólitíska aðkomu að verkefninu þá hafa þeir sem stýra verkefnum sem þessu hjá hinu opinbera engan hvata og bera ekki fjárhagslega ábyrgð. Í fyrrnefndri grein doktors Þórðar Víkings er fjallað um þennan vanda: „Ákvarðanataka vegna opinberra verkefna hefur þá sérstöðu, borið saman við einkaframkvæmdir, að þeir sem taka ákvarðanir um að ráðast í verkefnin bera ekki fjárhagslega ábyrgð sjálfir. Þeir sem að lokum greiða fyrir opinber verkefni eru yfirleitt skattgreiðendur. Vandamálið sem við blasir er að þar sem menn eru ekki að hætta eigin fjármunum ráði önnur sjónarmið en ávinningurinn fyrir samfélagið. Vera má að hagsmunir heildarinnar víki fyrir hagsmunum ákvörðunartakans. Þetta fyrirbæri hefur stundum verið nefnt „fé án hirðis“ sem í þessu tilfelli lýsir sér þannig að þar sem ákvörðunin er tekin án persónulegrar ábyrgðar sé áhættu- og kostnaðarvitundin minni en ella.“

                                                           ***

Þessi tvö atriði, pólitísk aðkoma og fé án hirðis, eru ástæðurnar fyrir því hvernig tókst að klúðra endurbyggingu braggans eins óskaplega og raun ber vitni.

                                                           ***

Mörg hundruð milljóna styrkur
Í skýrslunni er umfjöllun um leiguverð á bragganum til Háskólans í Reykjavík. Í skýrslunni segir að HR hafi lagt til að hann greiddi 450.000 kr. í leigu á hverjum mánuði og samningurinn verðtryggður og var miðað við í endanlegum samningi. Miðað við ávöxtunarkröfuna 3,65%, sem skrifstofa eigna og atvinnuþróunar gerði í upphafi verkefnisins, er núvirði verkefnisins neikvætt um 41 milljón kr. samkvæmt skýrslunni. Það væri í raun ósýnilegur styrkur til háskólans. Miðað við endanlegan byggingarkostnað er styrkurinn hins vegar 257 m.kr. Leigan í október nam 670.125 kr. en þyrfti að vera 1,7 m.kr. til að ávöxtunarkrafa héldist óbreytt.

                                                           ***

Það er hins vegar áhugavert, og aðfinnsluvert, að innri endurskoðun leggur ekki sérstakt mat á ávöxtunarkröfuna sem notast var við. Hún er umtalsvert lægri en skráðu fasteignafélögin gera. Vissulega er Reykjavíkurborg með betri lánakjör en ætti munurinn ekki að koma fram sem styrkur? Svo má ekki gleyma því að Háskólinn í Reykjavík er hlutafélag og því er ekki hægt að miða við þá ávöxtunarkröfu sem gerð væri til opinberra stofnana. Því má segja að styrkur borgarinnar til Háskólans í Reykjavík sé mun hærri.

                                                           ***

Þórður Víkingur nefnir í grein sinni dæmi um framúrkeyrslur á opinberum verkefnum síðustu áratugi. Ekkert dæmi er þó verra en framúrkeyrslan á Nauthólsvegi 100 þrátt fyrir að meðal framkvæmda séu mjög flóknar og umfangsmiklar framkvæmdir, líkt og Kárahnjúkavirkjun. Árangur Reykjavíkurborgar er því alveg ótrúlegur. Í sóun á skattfé.

Óðinn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.