Tölulegar staðreyndir um svimandi háar greiðslur Reykvíkinga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á sama tíma og sjóðurinn sniðgengur börnin í borginni og nágrannasveitarfélög sækja þangað niðurgreiðslu á sinni þjónustu fór illa ofan í pistlahöfund Hugins og Munins í Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Fór þar lítið fyrir meintri varðstöðu nafnlausu skoðanahöfunda Viðskiptablaðsins fyrir hagsmunum skattgreiðenda. Sannleikurinn í þessum efnum sveið greinilega illa.

Sjálfstæðismenn búsettir eru í borginni eru misglaðir yfir því að greiða skatta og skyldur í samneysluna. Auðvitað eiga að koma illa við þá upplýsingar um hvernig Jöfnunarsjóður sniðgengur framlög til grunnskóla borgarinnar og framlög til barna með annað móðurmál en íslensku. Það hlýtur að svíða sárt að þurfa tvígreiða fyrir skóla borgarinnar í gegnum Jöfnunarsjóð og hefðbundið útsvar og borga svo undir flokkssystkini í nágrannasveitarfélögunum.

Samt minntust Huginn og Muninn ekki orði á að sveitarfélög sem fullnýta ekki útsvarið sitt, vel efnuð bæjarfélög sem státa sig af því á tyllidögum að vera útsvarsparadísir fyrir fjölskyldufólk, þiggja mörg hver fleiri hundruð milljónir á ári í skjóli Jöfnunarsjóðs.

Skrif hrafnanna í síðustu viku voru vandræðalegar hártoganir um bótasvik nágrannasveitarfélaga. Athygli á að sjálfsögðu að vera á sláandi staðreyndir um að á næsta kjörtímabili munu Reykvíkingar niðurgreiða þjónustu annarra sveitarfélaga um rúma 56 milljarða.

Sara Björg Sigurðardóttir er varaborgarfulltrúi, formaður íbúaráðsins í Breiðholti og sækist eftir 4.- 6. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar 12.- 13. febrúar nk.