*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Huginn og muninn
27. febrúar 2021 08:33

Reynsluboltar í brotnum siðareglum

Píratar hafa gefið lítið fyrir það þegar þeir hafa reynst brotlegir við siðareglur en láta þó á þær reyna hvað annarra hegðun varðar.

Haraldur Guðjónsson

Fregnir af umkvörtunum Halldórs Auðar Svanssonar vegna Brynjars Níelssonar og ætlaðra brota þingmannsins á siðareglum vekja talsverða kátínu hrafnanna, enda hafa Píratar nokkra reynslu af brotnum siðareglum.

Skemmst er að minnast þess þegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir gerðist brotleg við siðareglur, en Píratar afgreiddu niðurstöðuna sem þöggunartilburði og sagði Þórhildur það „varasamt að nota siðareglurnar til að þagga niður í þingmönnum og gagnrýni þeirra".

Árið 2016 komst umboðsmaður borgarbúa að þeirri niðurstöðu að kjörnir fulltrúar borgarinnar hefðu brotið gegn siðareglum með ráðstöfun á fjármunum Bílastæðasjóðs sem þótti í verulegri andstöðu við vandaða stjórnsýsluhætti, enda fæli hún í sér ógagnsætt ferli við meðferð opinberra fjármuna.

Viðbrögð meirihlutans í borginni voru að hafna niðurstöðunni, en meðal fulltrúa í meirihluta var Halldór Auðar, sem jafnframt er stjórnarmaður gagnsæissamtaka á Íslandi.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.