*

föstudagur, 21. janúar 2022
Huginn og muninn
9. janúar 2022 10:12

Riddarar réttlætis

Hafa stjórnendur lífeyrissjóða og fyrirtækja umboð til að hampa einu máli umfram annað spyr forstjóri Sýnar.

Heiðar bendir á að lögum samkvæmt eigi lífeyrissjóðir að fjárfesta með tilliti til ávöxtunar og áhættu, einskis annars.
Eva Björk Ægisdóttir

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, ritaði áhugaverða grein í Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Í greininni segir hann að nú á dögum sé mikil pressa á fyrirtæki að hugsa út fyrir hefðbundið markmið sitt, að skapa verðmæti, því þau eigi að hafa sjálfbærnistefnu, samfélagsstefnu, umhverfisstefnu og svo mætti lengi telja.

Í þessu sambandi minnist hann á yfirlýsingu íslenskra lífeyrissjóða á ráðstefnu SÞ um loftslagsmál, sem haldin var í Glasgow. Samkvæmt yfirlýsingunni hyggjast sjóðirnir hjálpa til við að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um minnkandi útblástur koltvísýrings. „Allt er þetta í takt í við ríkjandi tísku en algerlega í trássi við lagaumgjörð,“ skrifar Heiðar og bendir réttilega á að samkvæmt lögum beri sjóðunum að fjárfesta með tilliti til ávöxtunar og áhættu, einskis annars. Ef sveigja eigi frá þeirri lögbundnu fjárfestingarstefnu þurfi að breyta lögum og síðan að bera nýja stefnu undir sjóðsfélaga á aðalfundi.

Í greininni segir hann enn fremur: „Sumir stjórnendur fyrirtækja brenna fyrir ákveðnum málefnum og er það skiljanlegt. En hafa þeir umboð hluthafa eða stoð í lögum um hlutafélög til að hampa einu máli umfram annað og krýna sjálfa sig í leiðinni sem riddara réttlætis?“

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.