*

sunnudagur, 20. júní 2021
Örn Arnarson
16. mars 2021 12:31

Riðlaði skjálftahrinan bóluefnadagatalinu?

Áætlun heilbrigðisyfirvalda gerði ráð fyrir að allir framlínustarfsmenn Landspítalans fengju bólusetningu um miðjan janúar.

Þrátt fyrir að landskjálftar ríði yfir og farsóttir geisi virðast sumir fréttamiðlar eiga fullt í fangi með að færa landsmönnum tíðindi af líðandi stund. Í sumum tilfellum bregða þeir á það ráð að fylla dálksentimetra og útsendingartíma af gömlum eða þá almæltum tíðindum. Þannig mátti lesa burðarfrétt á síðu tvö í Fréttablaðinu fyrir tæpum tveimur vikum um niðurstöður könnunar landshlutasamtaka sveitarfélaga og Byggðastofnunar um afstöðu íbúa til búsetuskilyrða. Niðurstöðurnar eru vissulega áhugaverðar en þær geta ekki talist fréttnæmar þar sem þær voru birtar fyrir tæpum mánuði síðan og frá þeim sagt í flestum fjölmiðlum. Fréttablaðið var einn þeirra miðla en frétt um niðurstöðurnar birtust 9. febrúar síðastliðinn.

Svona endurvinnsla sést endrum og eins í fréttamiðlum yfir hásumar þegar fátt er í fréttum nema vonbrigði vegna veðurfars. Fáheyrt er aftur á móti að einn stærsti fjölmiðill landsins gerist sekur um svona vinnubrögð og metnaðarleysi þegar hver stórfréttin rekur hver aðra. Það hlýtur að vekja upp áleitnar spurningar um hvernig staðið er að verkstjórn á blaðinu frá degi til dags.

                                                    ***

Fjölmiðlar lenda oft í vandræðum þegar kemur að því að fjalla um viðvarandi tíðindi á borð við skjálftavirknina sem hefur staðið yfir á Reykjanesskaga undanfarnar vikur. Hætt er við því að þeir rati í enn frekari vandræði þegar þeir reyna að koma með nýja vinkla á umfjöllunarefnið og eftir standi hjákátlegur fréttaflutningur.

Þriðjudagsmorguninn 2. febrúar blasti við flennistór fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins: Líkur aukast á gosi. Umfjöllunin tók yfir stóran hluta forsíðunnar og inni í blaðinu fylgdi ítarleg umfjöllun um skjálftavirknina á Reykjanesi. Ritstjórn Fréttablaðsins tók annan pól í hæðina. Á forsíðu blaðsins var að finna spjall við sálfræðing sem sagðist „telja" að fólk finni fyrir kvíða og „jafnvel hræðslu" þegar jarðskjálftar ríða yfir. Til allra lukku fyrir lesendur bætti sálfræðingurinn þó við að upplifun fólks og viðbrögð fólks séu misjöfn.

Nálgun Fréttablaðsins á forsíðufréttinni verður að teljast sérstök í ljósi þess að almannavarnayfirvöld höfðu deginum áður nánast lýst því yfir að gos væri í þann mund að hefjast á Reykjanesi. Ekki síst í ljósi þess að með forsíðufréttinni fylgdi tilvísun á eins dálks frétt á síðu tvö undir fyrirsögninni: Eldgos kynni að vara í vikur. Það má velta fyrir sér hvort lesendum blaðsins þyki fréttnæmara - að gos í nágrenni þéttbýlis gæti staðið yfir í margar vikur eða það að sálfræðingur sé að staðfesta að hún hafi á tilfinningunni þau almæltu tíðindi að fólki þyki fremur óþægilegt en hitt að finna fyrir snörpum jarðskjálftum. Það síðarnefnda hefði hugsanlega getað talist fréttnæmt ef viðkomandi sálfræðingur hefði verið að kynna einhverja vísindalega rannsókn um áhrif jarðskjálfta á sálarlíf landsmanna en því var ekki að skipta.

                                                    ***

Fleiri fjölmiðlar hafa gert sér mat úr því að einhverju fólki finnist eitthvað um eitthvað. Þannig mátti lesa í Morgunblaðinu í febrúar umfjöllun um að notendur nikótínpúða standi frammi fyrir jafn alvarlegum fráhvörfum þegar þeir hætta neyslu og heróínsjúklingar. Margir ráku rogastans við lesturinn enda eru nikótínpúðar lögleg neysluvara og flestir vita að heilbrigðiskerfið býður upp á skaðaminnkandi úrræði fyrir þá sem eru háðir morfínlyfjum á borð við heróín þar sem meðal annars lyfjagjöf er beitt til þess að koma böndum á alvarleg fráhvarfseinkenni. Engan skal undra að leiðarahöfundur Morgunblaðsins tók málið upp og varaði við notkun þessara púða.

En hvað hafði blaðamaður Morgunblaðsins fyrir sér að fráhvörfin af notkun nikótínpúða væru þau sömu af notkun heróíns? Jú, það var samtal við ungan mann á þrítugsaldri sem vildi ekki koma fram undir nafni. Eins og fram kemur í umfjölluninni þá hafði hann eitt sinn reynt að hætta að nota þessa púða og varð slappur fyrir vikið. Að eigin sögn kom þessi reynsla hans heim og saman við frásagnir sem hann hafði lesið um heróínsjúklinga í fráhvörfum.

                                                    ***

Um fyrri helgi bárust fréttir af því að starfsmaður á göngudeild lyflækninga á Landspítalanum hafði ásamt nágranna sínum greinst með svokallað breska afbrigði kórónuveirunnar. Annar hinna smituðu hafði farið á 800 manna tónleika í Hörpunni og greip um sig ótti um fjöldasmit kunni að brjótast út. Þetta varð til þess að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var kallaður til viðtals í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins á sunnudeginum. Það vakti sérstaka athygli að í lok viðtalsins spurði fréttaþulurinn Þórólf sérstaklega um sóttvarnir á íþróttaviðburðum þar sem áhorfendur eru enn sem komið er leyfðir. Ástæðan fyrir spurningunni var að sögn þularins að fréttastofunni höfðu borist ábendingar um að sést hafi til grímulausalausra áhorfenda á pöllunum. Þetta virðist vera fréttastofu ríkismiðilsins hugleikið því að í hádegisfréttum var Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, spurður út í hið sama.

Þessi sérstaka athygli á íþróttakappleiki vekur eftirtekt í þessu samhengi þar sem óttinn um hópsmit er tilkominn vegna starfsmanns á bráðadeild Landspítalans og tónleikagesti í Hörpunni. Eflaust hefur einhver sjónvarpsáhorfandi getað rekið augun í grímulausan einstakling í fámennum áhorfendahóp í beinni útsendingu af kappleik en þar með er ekki sagt að pottur sé brotinn í sóttvörnum hjá íþróttahreyfingunni. Í sjálfu sér er hægt að sjá hið sama ef myndir af tónleikunum í Hörpunni eru skoðaðar grannt.

Þetta mögulega hópsmit vekur upp aðrar spurningar og áleitnari en þær sem fréttastofa ríkisútvarpsins spurði að. Til að mynda vekur athygli að starfsmaður Landspítalans hafi greinst með veiruna nýverið þegar bóluefnadagatal heilbrigðisyfirvalda gerði ráð fyrir að allir framlínustarfsmenn Landspítalans fengju bólusetningu um miðjan janúar. Í raun og veru mættu allir fjölmiðlar taka sig á og reyna að útskýra hver hin raunverulega staða er á bólusetningu landsmanna og varpa ljósi á hversu líklegt það er að fyrirheit stjórnvalda um að það verði búið að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar á fyrri helmingi ársins rætist.

                                                    ***

Meira um bólusetningar. Í síðustu viku lét Þórólfur sóttvarnalæknir hafa það eftir sér að ekki væri ráðlegt að slaka frekar á sóttvarnaaðgerðum á meðan skjálftavirkni gætti á Reykjanesskaga. Þessi ummæli vöktu furðu enda er erfitt að sjá orsakasamhengi á milli grímuskyldu og landskjálfta í Grindavík. Fréttamaður Vísis hafði frumkvæði að því að leita frekari skýringa á þessum undarlegu ummælum og á sunnudag birtist viðtal við Hjördísi Guðmundsdóttur, upplýsingafulltrúa almannavarna, um málið. Upplýsingafulltrúinn útskýrði málið með því að segja að það væri svo erfitt að tryggja sóttvarnir ef fólk þyrfti að hópast saman vegna náttúruhamfara. Þessi einkennilega fullyrðing vakti ekki mikla athygli. Ef þetta er hin raunverulega afstaða almannavarna þá er bara verið beinlínis að útiloka frekari tilslakanir á sóttvarnaaðgerðum í landi þar sem sífellt ríkir óvissa vegna mögulegra náttúruhamfara.

                                                    ***

Í helgarblaði Fréttablaðsins um fyrri helgi birtist viðtal við Fjölni Sæmundsson, nýkjörinn formann Landssambands lögreglumanna. Tilefni viðtalsins virðist vera að Fjölnir er yfirlýstur sósíalisti og að kjör hans sé til marks um að hundur sé í lögreglumönnum. Lýsing Fjölnis á því hvernig það kom til að hann hóf störf hjá sérstökum saksóknara á sínum tíma vakti athygli. Eins og segir í viðtalinu: „Þótti hann talnaglöggur og kunni að lesa bókhaldsrekstur eiginkonu sinnar."

Vert er að nefna að í síðustu viku viðurkenndi íslenska ríkið brot gegn Mannréttindasáttmála Evrópu í málum fimm Íslendinga, sem rekin hafa verið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu en um er að ræða anga svokallaðra hrunmála sem sérstakur saksóknari rak á sínum tíma.

                                                    ***

Fréttir voru sagðar af því að vinir Jóhannesar Stefánssonar, heimildarmanns fréttaskýringaþáttarins Kveiks, safni nú fé til að hann geti leitað sér lækninga vegna eitrunar sem hann telur að hann hafi orðið fyrir. Fram kemur á heimasíðu söfnunarinnar að íslenska heilbrigðiskerfið ráði ekki yfir búnaði til að meðhöndla einkenni Jóhannesar og því þurfi að safna fé svo hann geti sótt sér lækninga á erlendri grund. Þetta mál hefur vakið furðu litla athygli þeirra fjölmiðla sem til þessa hafa fjallað ítarlega um alla anga umsvifa Samherja í Namibíu.

                                                    ***

Upphefðin kemur að utan. Það var sérstakt fagnaðarefni þegar Isavia tilkynnti að félagið hefði hlotið alþjóðleg verðlaun fyrir að halda flugstöð Leifs Eiríkssonar skikkanlega hreinni meðan aðeins örfáar hræður fara þar um. Það er greinilegt að 15 milljarða hlutafjáraukning ríkisins fyrr á þessu ári hefur komið í góðar þarfir.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.