Eins og landsmenn komust að í gær er netverslunin Heimkaup farin að bjóða viðskiptavinum upp á kaup á áfengi. Þetta er hluti af fyrirsjáanlegri þróun sem hófst þegar Arnar Sigurðsson, vínkaupmaður í Sante, hóf að bjóða upp á netverslun með áfengi. Frá og með þeim tíma hefur einungis verið tímaspursmál hvenær stærri verslanir á dagvörumarkaði myndu fylgja í kjölfarið. Vafalaust er þess ekki langt að bíða að netverslun með áfengi verði hið viðtekna form slíkra viðskipta.

Þetta leiðir hugann að þeirri miklu og viðvarandi tímaskekkju sem ríkiseinokun á smávöruverslun með áfengi er. Rekstur -Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins er eins og viðvarandi bergmál frá löngu liðnum tíma þegar sauðalitirnir voru allsráðandi og allir gengu um í Álafossúlpum. Kostnaðarsamur og tilgangslaus rekstur sem engin ástæða er til að leggja á herðar skattgreiðenda til frambúðar.

Það er vart neinum vafa undirorpið hvort netverslun með áfengi stenst lög. Tilraunir stjórnenda Áfengis- og tóbaksverslunar ríkis-ins til að grafa undan slíkri verslun misheppnuðust algjörlega og lögreglan sá ekki ástæðu til aðgerða þrátt fyrir kæru og klögumál hinnar fyrrnefndu. Í mars lagði Hildur Sverrisdóttir, þing-maður Sjálfstæðisflokksins, fram frumvarp á Alþingi sem var ætlað að eyða endanlega réttaróvissu um netsölu á áfengi og jafna þann aðstöðumun sem vissulega hefur ríkt á milli innlendra og erlendra -fyrirtækja í þessum efnum. Alþingi afgreiddi ekki málið og þar af leiðandi má álykta sem svo að löggjafinn telji þessa óvissu ekki vera til staðar. Ákvörðun Heimkaupa bendir til þess að sú sú skoðun sé útbreidd.

Að mörgu leyti má líkja stöðunni sem nú er uppi í þessum málum við ástandið á fjölmiðlamarkaði á fyrri hluta níunda áratugarins. Tækniframþróun gerði þá að verkum að óumflýjanlegt var að athafnamenn reyndu á þá ríkiseinokun sem þá ríkti á ljósvakamiðlun. Sú staðreynd að hægt var að stofna til útvarps- og sjónvarpsreksturs með lægri tilkostnaði en áður hafði þekkst gerði það að verkum að óumflýjanlegt var að einokun ríkisvaldsins á ljósvakamiðlun yrði á endanum rofin.

Stjórnmálamenn allra flokka brugðust eigi að síður við framgangi frjálsra ljósvakamiðla með því að styrkja ríkisrekstur fjölmiðla sífellt meir eftir því sem samkeppnin við frjálsa fjölmiðla jókst. Í staðinn hefði verið rétt að eftirláta frjálsri fjölmiðlun markaðinn sem hún var og er fullfær að sinna. Nú tæplega fjörutíu árum síðar er staðan sú að RÚV drottnar yfir markaðnum í krafti ríkisrekstrar. Frjálsir fjölmiðlar standa ríkismiðlinum á sporði þegar kemur að framleiðslu og miðlun menningar- og afþreyingarefnis og það sama á við um innlenda dagskrárgerð. Ríkisreksturinn hefur ekkert fram að færa í þeim efnum annað en kostnað fyrir skattgreiðendur og óréttláta samkeppnisstöðu á markaði.

Brýnt er að hafa þetta í huga þegar kemur að stöðunni sem nú er uppi í smásölu á áfengi hér á landi. Hætt er við því að stjórnmálamenn bregðist við þeirri stöðu sem nú er uppi með tilraunum til að festa yfirburðastöðu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins enn frekar í sessi. Hætt er við því að eftir nokkra áratugi muni þetta tilgangslausa ríkisapparat gnæfa yfir markaðinn, öllum til óþurftar og með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur þessa lands.

Mistökin sem voru gerð á níunda áratugnum má ekki endurtaka. Það er engin þörf á ríkisrekstri þegar kemur að sölu áfengis. Þær áherslur sem eru uppi um forvarnir og lýðheilsu hverju sinni er hægt að tryggja án þess að ríkið reki smásöluverslanir með áfengi í hverju einasta hverfi höfuðborgarsvæðisins og í flestum byggðum landsins. Í því felst algjör tímaskekkja eins og flestum er að verða ljóst.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra boðaði nýtt áfengisfrumvarp í samtali við Viðskiptablaðið á dögunum. Frumvarpið yrði niðurstaða starfs sem nú færi fram í ráðuneytinu. Mikilvægt er að sú vinna taki tillit til ofangreindra sjónarmiða og að sama skapi er brýnt að umræða um þessi mál taki mið af þeirri þróun sem hefur átt sér stað í smásölu með áfengi að undanförnu. Markmiðið getur ekki -verið að finna leiðir til að grafa undan eðlilegri og óumflýjanlegri þróun og standa að sama skapi vörð um nátttröll sem er við það að daga uppi.