*

föstudagur, 10. júlí 2020
Leiðari
3. apríl 2020 14:42

Ríkið á ekki að velja sigurvegara

Áfallið er enn ein áminning þess að ríkisvaldið veit ekki frekar í hvaða atvinnugrein mestu tækifærin til vaxtar verða í framtíðinni.

Haraldur Guðjónsson

Stór hluti af hagkerfi heimsins er kominn í dá til að hindra óþarfa mannfall og hörmungar af útbreiðslu kórónuveirunnar. Aðgerðirnar eru nauðsynlegar en langt því frá sársaukalausar. Hægt er að blása lífi í efnahagslífið á ný en það tjón sem veiran veldur á heilsu fólks verður í mörgum tilfellum óbætanlegt.

Hér á landi hefur fjármálaráðherra verið skýr um að betra sé að gera of mikið en of lítið. Útbreiðsla kórónuveirunnar er ekki þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem hún bitnar harðast á að kenna. Fæst fyrirtæki lifa af að vera svo gott sem tekjulaus svo mánuðum skiptir. Tjón af því að heilu atvinnugreinarnar fari í þrot yrði verulegt, jafnvel þó að rúturnar, hótelin og flugvélarnar hverfi ekki við gjaldþrot. Í sumum tilfellum verður svo gott sem hægt að byrja upp á nýtt næsta dag þó að kröfuhafar og hluthafar hafa tapað sínu.  Engu síður er mun heppilegri lausn ef hægt er að halda fyrirtækjum á lífi í gegnum þessar hremmingar og þau geti tekið aftur til starfa af fullum krafti þegar faraldurinn er liðinn hjá.

Þó verður að gjalda varhug við því að fara í beinar aðgerðir til að bjarga einstaka félögum, og hvað þá hluthöfum þeirra. Hluthafar og kröfuhafar tóku ákvörðun um að fjárfesta í félögum vitandi að í því fælist áhætta og að óvæntir atburðir gætu komið upp. Reynslan af krísunni 2008 er að ríkið á ekki að borga skuldir einkafyrirtækja.

Stuðningur við atvinnulífið hlýtur að þurfa að vera almennur en ekki sértækur og handahófskenndur. Tilmæli um að skattyfirvöldum sé falið að meta hvaða fyrirtæki hafi orðið fyrir nægjanlegu tjóni til að fá að fresta skattgreiðslum eru varhugaverðar. Öllum hlýtur að hrylla við þeirri tilhugsun að ríkisvaldið handvelji sigurvegara í þessari krísu. Dragist kreppan á langinn verða ákvarðanir um hvaða fyrirtæki lifi og hver sigli í þrot líklega að mestu leyti teknar í bankakerfinu. Það er eina raunhæfa lausnin. Innan þess er þekking á rekstri nær alls atvinnulífsins. Bankarnir hafa lagt eitthvað undir — lánað fyrirtækjum — og þannig tekið áhættu á rekstri þeirra.

Annar angi af þessari umræðu er hve mjög íslenskt efnahagslíf treystir í dag á ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan hefur staðið undir stórum hluta af hagvexti síðasta áratugar. Með vexti hennar hefur tekist að nýta áður vannýttar náttúruauðlindir — ósnertar náttúruperlur — til að skapa þúsundir starfa, auka fjölbreytileika mannlífsins og skapa ný tækifæri fyrir íbúa um land allt. Útflutningstekjurnar hafa hækkað gengi krónunnar, sem kemur öllum þorra almennings til góða.

Engu síður er stór hluti starfa í ferðaþjónustu fremur lágt launaður og hafa þessi störf að miklu leyti verið mönnuð af fólki, sem flutt hefur til landsins til að vinna þau. Ferðaþjónustan er í eðli sínu sveiflukennd grein eins og margar stoðir íslensks efnahagslífs. Ferðamönnum getur alltaf fækkað um hríð, hvort sem ástæðan er farsóttir, náttúruhamfarir, áfangastaðir verði of dýrir eða þeir detti úr tísku.

Hafa má í huga að stjórnvöld hafa ýtt undir vöxt ferðaþjónustunnar, til að mynda með því að hafa atvinnugreinina í lægra virðisaukaskattsþrepi en aðrar atvinnugreinar. Þó auðvelt sé að vera vitur eftir á er nú útlit fyrir að offjárfest hafi verið í ferðaþjónustu. Ómögulegt er að segja hvaða tækifæri hefðu skapast á öðrum sviðum hefði tíma fólks og fjármagni verið beint í aðra geira en ferðaþjónustu. Áfallið er enn ein áminning þess að ríkisvaldið veit ekki frekar en aðrir í hvaða atvinnugrein mestu tækifærin til vaxtar verða í framtíðinni.

Reynslan af ívilnunum til stóriðju undanfarin ár er sú sama. Háleitar hugmyndir um byggingu kísilvera frá hruni hafa hingað til reynst feigðarflan. Um tíma stóð til að reisa hér fjögur kísilver með ríkulegum ívilnunum stjórnvalda. Ekki þarf að fjölyrða um tjónið af kísilveri United Silicon sem kostað hefur kröfuhafa um tuttugu milljarða króna. Þá hefur PCC á Bakka einnig átt í vandræðum þrátt fyrir að ríkið hafi varið fjórum milljörðum í framkvæmdir tengdar kísilverinu.

Besta leiðin til að tryggja blómlegt atvinnulíf er að ríkið einbeiti sér að stuðla að stöðugu og opnu efnahagsumhverfi þar sem skattar eru lágir og jafnir milli atvinnugreina. Enginn veit hvar næsti vaxtarbroddur mun skapast.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.