Þær ánægjulegu fréttir bárust á mánudag, að Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra ráðgerði að endurskoða fjölmiðlalög, meðal annars vegna ágreinings um störf fjölmiðlanefndar. Eins og áður hefur komið fram í þessum dálkum ákvað Blaðamannafélag Íslands það í vor að draga út fulltrúa sinn í nefndinni, þar sem hún væri komin langt út fyrir valdsvið sitt og hlutverk.

Þessar fyrirætlanir komu fram á Alþingi í svari Lilju við óundirbúinni fyrirspurn Kolbeins Óttarssonar Proppé, þingmanns vinstrigrænna (og margreynds blaðamanns af Fréttablaðinu), en Kobbi spurði ráðherra um viðbrögð við gagnrýni BÍ á skilning og verklag fjölmiðlanefndar varðandi 26. gr. fjölmiðlalaga. Fjölmiðlanefnd hefur úrskurðað og gefið út álit á grundvelli 26. greinar laganna, um lýðræðislegar skyldur fjölmiðla, þar sem fundið hefur verið að ritstjórnarákvörðunum fjölmiðla og þeim lagðar línurnar af stjórnvaldinu. Af þeirri ástæðu spurði Kolbeinn ráðherrann hvort hún teldi ástæðu til þess að endurskoða lög um fjölmiðla, þá sérstaklega með það að leiðarljósi að skýra hlutverk fjölmiðlanefndar. „Ég tel tímabært að endurskoða lögin og ég tel líka mjög brýnt að meðal aðila eins og Blaðamannafélags Íslands geti ríkt sátt um störf fjölmiðlanefndar,“ sagði Lilja.

* * *

Það hljómar allt vel, en spurningunni um þörfina á nefndinni er enn ósvarað. Störf hennar til þessa benda til þess að hún valdi verkefninu ekki, en einstaklega óljóst er til hvers hún er. Auðvelt raunar að tína til dæmi um hvernig hún er til megnustu óþurftar. Umfram allt er þó sérstök hætta falin í hvers kyns afskiptum ríkisvaldsins af frjálsum fjölmiðlum og framganga fjölmiðlanefndar ýtir undir þær áhyggjur.

* * *

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélag Íslands, lýsti ánægju með þessi svör ráðherrans, en drap á annan þátt í störfum nefndarinnar, fyrirhugaðar fjárveitingar til einkamiðla, sem einnig hefur oft verið drepið á hér.

Það eru margháttaðar fyrirætlanir um að einkareknir fjölmiðlar fái styrki frá ríkinu, en að jafnframt verði tekjuöflun RÚV endurskoðuð. Frumvarpið var birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins í lok janúar og samþykkt úr ríkisstjórn í maí. Á þriðja tug umsagna bárust menntamálaráðuneytinu um frumvarpið á sínum tíma, en ráðherra stefndi að því að leggja það fram í haust með það fyrir augum að það yrði að lögum 1. janúar 2020. Menningarmálaráðherrann hefur þó ekki treyst sér til þess að mæla fyrir því, enda er frumvarpið ekki óumdeilt, hvorki meðal hagsmunaaðila né innan ríkisstjórnarinnar.

Sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt afdráttarlaust að óbreytt njóti frumvarpið ekki stuðnings síns og Óli Björn Kárason, stofnandi og fyrsti ritstjóri þessa blaðs, hefur gagnrýnt það endurtekið og afdráttarlaust, en sennilega er enginn þingmaður annar kunnugri fjölmiðlun, bæði frá sjónarhóli blaðamennsku og fjölmiðlareksturs.

* * *

Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsálaráðherra, er ekki fyllilega ókunnug fjölmiðlun heldur, en hún var á sínum tíma í ritstjórn Vef-Þjóðviljans, sem kalla mátti fyrsta íslenska dagblaðið á vefnum. Hún lét skoðanir sínar á fjölmiðlastyrkjaáformum Lilju í ljós í vikunni og skóf ekki utan af því:

Nú eru uppi hugmyndir um að íslenskir fjölmiðlar fari sömu leið og [stjórnmálaflokkarnir] og verði upp á framlög úr ríkissjóði komnir. Hugmyndin kemur svo sem ekki upp úr þurru. Frjálsu fjölmiðlarnir eiga við ofurefli að etja gagnvart Ríkisútvarpinu. RÚV fær nokkur þúsund milljónir á ári frá almenningi óháð því hvort menn nýta sér þjónustu þess. Ríkisfyrirtækið nýtir þessa forgjöf einnig til að draga til sín auglýsingatekjur. Í stað þess að laga þetta óréttlæti gagnvart almenningi og einkareknu miðlunum með því að draga úr þvinguðum framlögum almennings til Ríkisútvarpsins vilja sumir stjórnmálamenn nú bæta í óréttlætið gagnvart skattgreiðendum. Það á að gera með því að skattgreiðendur verði einnig þvingaðir til að gerast styrktarmenn hjá alls kyns einkareknum miðlum, dagblöðum, útvarpsstöðvum og bloggsíðum.

Því fylgja sérstök ónot að hið svokallaða fjórða vald verði háð ríkinu á þennan hátt. Fjölmiðlar munu árlega þurfa að blanda sér í baráttuna um úthlutunarreglurnar og sækja að því búnu sameiginlega að fjárveitingavaldinu um að auka framlögin frá skattgreiðendum. Eru fjölmiðlar líklegir til að veita stjórnvöldum aðhald á sama tíma og þeir eru á slíkum fóðrum?

Hér skal tekið undir hvert orð.

* * *

Það snýst þó ekki aðeins um hag hans sem skattborgara, heldur einnig um málfrelsið sjálft. Yðar einlægur má ekki til þess hugsa að honum sé að lögum gert að borga fyrir þvæluna sem vellur á DV. Hvað þá skoðanaflutning, sem honum er ekki að skapi, sem finna má á ýmsum miðlum öðrum.

Málfrelsið felst nefnilega ekki aðeins í því að mega segja það sem manni sýnist, heldur einnig í því að maður þurfi ekki að segja annað en manni sjálfum sýnist. Og þá jafnframt að maður verði ekki neyddur með lögum til þess að styrkja eða greiða einhverjum fyrir að flytja fréttir eða skoðanir. Það er eitthvað sem hver á að gera upp við sjálfan sig. Hvort hann vilji borga Viðskiptablaðinu áskrift, Morgunblaðinu, Sýn, Stundinni, Kjarnanum eða jafnvel DV.

Þá er Ríkisútvarpið ótalið.

* * *

Kannski það sé þó einmitt meinið. Að Ríkisútvarpið er ótalið. Við blasir að þeir miklu rekstrarörðugleikar, sem blasa við daglegum, almennum fréttamiðlum, þessum sem við reiðum okkur mest á við frumvinnslu frétta, stafa að miklu leyti vegna ágengni Ríkisútvarpsins (RÚV) á auglýsingamarkaði, líkt og mikið hefur verið rætt að undanförnu.

Skoðanir um það allt eru þó mjög skiptar. Sumir benda á að alls ekki sé víst að þau auglýsingaútgjöld, sem nú renna til RÚV, fari lóðbeint til hinna frjálsu miðla verði RÚV tekið af auglýsingamarkaði; þau gætu eins runnið til Facebook og Google. Aðrir hafa varað við ruðningsáhrifum á kvikmyndageirann, sem þá framleiði ekki jafnmikið af sjónvarpsauglýsingum. O.s.frv.. En þá líta menn hjá stóru spurningunni um hlutverk Ríkisútvarpsins. Öllum er ljóst að breytingar í fjölmiðlun vorra tíma taka ekki síður til ljósvakans en prentmiðla.

Líkt og sjá má hér neðst á síðunni er kynslóðabil í útvarpshlustun nánast óbrúanlegt. Og sennilega engin sérstök ástæða til þess að freista þess. Hvers vegna á að halda úti ríkisstofnun til þess að keppa við Bylgjuna, FM, X-ið, Léttbylgjunnar, Gullbylgjuna og hvað þær heita allar um flutning á hinum aðskiljanlegu gerðum dægurtónlistar?

Eða klassískri rás sem enginn, alls enginn, hlustar á? Eða sjónvarpsrás, sem hefur erlent afþreyingarefni að uppistöðu? Það er hæpið út af fyrir sig, en fráleitt á dögum ólínulegrar dagskrár Netflix, Amazon, Apple og þeirra allra. Eða á litla Ísland að keppa við þá risa í kaupum og flutningi á erlendri afþreyingu?!

Vel má vera að það sé sérstakur tilgangur með rekstri ríkisfjölmiðils. En núverandi rekstrarfyrirkomulag og umfang er það ekki. Þess vegna þarf einlæga og opinskáa umræðu um hlutverk RÚV og endurskoðun þess.

Þar kynnu vafalaust margir að fallast á að það sé punktur með Ríkisútvarpinu, en að hann snúi að menningu og þjóðmálaumræðu, því sem hefur ríkt gildi en ekki miklar vinsældir eða tekjumöguleika. Í því skyni mætti hæglega fimmfalda fjárframlög til Rásar 1, en leggja hina þarflausu Rás 2 niður. Við sjónvarpsafþreyingarmiðil höfum við hins vegar ekkert að gera, en af hverju ekki að spara peninga með því að setja 2 milljarða á ári í sjónmenningarsjóð, sem styrkir séríslenska dagskrárgerð?