*

þriðjudagur, 21. september 2021
Óðinn
24. mars 2021 07:20

Ríkiseinokunarverslunin snýr öllu á hvolf

„Ríkiseinokunarsalan kemst að þeirri niðurstöðu að frumvarpið hafi mikil áhrif á rekstur hennar með mjög vafasömum hætti“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp sem myndi heimila brugghúsum að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað í því skyni að styðja við starfsemi minni áfengisframleiðenda og jafna samkeppnisstöðu þeirra við stærri framleiðendur.

* * *

Áslaug Arna situr í skjóli meirihluta þingmanna á Alþingi sem kosnir voru í löglegum kosningum og 81,2% þeirra sem höfðu kosningarétt í október 2017 tóku þátt í. Í skjóli þessa valds, sem kemur frá kjósendum, leggur Áslaug Arna fram þetta frumvarp en það hefur verið samþykkt af stjórnarflokkunum.

Þrátt fyrir þetta telur opinber stofnun sem hefur selt áfengi og tóbak í áratugi í einkasölu og heitir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sig umkomna að reyna að standa í vegi fyrir sjálfsögðum breytingum, með því meðal annars að senda umsögn til Alþingis.

* * *

Áskoranir í rekstri!
Helsta áhyggjuefni starfsmanna Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins eru þeir sjálfir. Hvort þeir geti áfram starfað hjá stofnuninni í skjóli einokunar ríkisins. Þetta hefur margsinnis komið fram, m.a. í ársskýrslu stofnunarinnar frá 2015 en þar sagði Ívar J. Arndal forstjóri:

„Frumvarp um að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum er enn til umfjöllunar á Alþingi og þegar þessi orð eru rituð er óljóst um afdrif frumvarpsins. Málið hefur verið rætt ítarlega í fjölmiðlum og sitt sýnist hverjum. Minna er rætt um að starfsfólk ÁTVR býr við óvissu meðan málið er óafgreitt. Það veldur vanlíðan og kvíða hjá starfsfólki og skapar óöryggi um framtíðina. Mikilvægt er að fá niðurstöðu í málið sem fyrst þannig að hægt sé að horfa fram á veginn og eyða óvissunni sem nú ríkir.“

* * *

Þarna er öllu snúið á haus. Það er ekki áskorun í rekstri ríkiseinokunarfyrirtækis þegar löglega kjörin stjórnvöld ákveða að breyta fráleitu fyrirkomulagi á sölu áfengis. Það lýsir að auki lítilli trú á „mannauðinum“, sem er skrautnafn fyrir starfsmenn, að þeir geti ekki fundið sér vinnu við hæfi þegar atvinnuleysi var aðeins í kringum 2% eins og var árið 2015. Það er hins vegar morgunljóst að forstjórinn fengi seint vinnu á sömu launum í einkageiranum þegar hann áttar sig ekki á því hvað raunveruleg áskorun í rekstri er, líkt og margir þekkja þessa dagana. Þessi málflutningur er brjóstumkennanlegur.

En mikilvægast er af öllu að nánast allur rekstrarkostnaður ríkiseinokunarsölunnar, annar en vörukaup, væri óþarfur ef starfsemin væri aflögð og almennar verslanir sem fyrir eru myndu taka við hlutverkinu líkt og víðast hvar í heiminum. Það eru ekki nema 4,6 milljarðar króna á ári.

* * *

Furðurök
Í athugasemd Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins við frumvarp dómsmálaráðherra er furðulegum rökum haldið á lofti gegn þessari lítils háttar breytingu á sölu á bjór.

Þrátt fyrir að fyrirliggjandi frumvarp láti e.t.v. lítið yfir sér við fyrstu sýn yrði höggvið stórt skarð í rótgróna einkasölu íslenska ríkisins á áfengi með því að heimila hér hagnaðardrifna smásölu áfengra drykkja. Með þeirri undanþágu sem frumvarpið gerir ráð fyrir myndu forsendur fyrir rekstri ÁTVR að öllum líkindum bresta. Til þess að gera langa sögu stutta er áfengissala beint frá býli afar flókið lögfræðilegt viðfangsefni og svigrúm til þess að heimila áfengisframleiðendum smásölu áfengis á framleiðslustað að öllum líkindum mjög þröngt. Þó er rétt að taka fram að slíkt fyrirkomulag er ekki endilega útilokað.

Að mati ríkiseinokunarsölunnar eru það sérstök rök í málinu að ríkiseinokun á áfengi sé rótgróin. Engu máli skiptir þessi óþarfi viðskiptakostnaður á óþörfu starfsfólki, húsnæði og öðrum rekstrarkostnaði.

* * *

Í formála forstjórans í ársskýrslunni frá 2015 er tekið fram að ÁTVR hafi alltaf skilað hagnaði síðan það var stofnað árið 1922. Hvaða máli skiptir að frumvarpið heimili hagnaðardrifna smásölu áfengra drykkja? Slík starfsemi er stunduð úti um allan bæ, á gististöðum, hótelum, listasöfnum, veitingahúsum, börum og skemmtistöðum.

Hagnaður ríkiseinokunarsölunnar er byggður á fastri álagningu ákveðinni af stjórnvöldum. Í ársskýrslunni frá 2015 segir þetta:

Heildsala tóbaks skilar ÁTVR hlutfallslega meiri hagnaði en smásala áfengis. Munurinn ræðst fyrst og fremst af ákvörðun Alþingis um álagningu. Þrátt fyrir þennan mun gera áætlanir ÁTVR fyrir árið 2016 ráð fyrir að tekjur af áfengissölu muni greiða fyrir allan launa- og rekstrarkostnað ÁTVR á árinu og gott betur.

Það er mun meiri hagnaður af sölu tóbaks en áfengis en ríkiseinokunarsalan og fjármálaráðuneytið eru ófáanleg að sýna hver raunveruleg skipting tekna og kostnaðar er milli áfengis og tóbaks. Það er ekkert því til fyrirstöðu að ríkissjóður hafi sömu tekjur af sprúttsölu og sölu á krabbameinsvaldandi tóbaki án þess að ríkiseinkasala sé til staðar. Það er hins vegar ánægjulegt að ríkiseinokunarsalan leggur mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð, svona í ljósi þessa.

* * *

Ippon dómsmálaráðherra
Ríkiseinokunarsalan kemst að þeirri niðurstöðu að frumvarpið hafi mikil áhrif á rekstur hennar með mjög vafasömum hætti, svo ekki sé meira sagt. Ekki síst í ljósi þess að tóbak skilar hlutfallslega miklu meiri framlegð og litlum kostnaði. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að brugghús sem framleiða minna en 500 þúsund lítra á ári geti selt í smásölu. Í umsögninni um þetta segir:

„Eftir því sem fram kemur í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi eru á þriðja tug brugghúsa aðilar að Samtökum íslenskra handverksbruggshúsa. Ef tuttugu þeirra myndu á einu ári selja allt að 500.000 lítra eigin framleiðslu í smásölu á grundvelli undanþáguheimildarinnar næmi heildarsala þeirra allt að 10.000.000 áfengislítrum, sem samsvarar hátt í helmingi allrar bjórsölu ÁTVR síðastliðið ár. Því getur varla talist um þrönga undanþágu frá ríkiseinkasölunni að ræða.“

Í fyrradag jarðaði dómsmálaráðherrann þessa röksemd ríkiseinkasölunnar í samtali við mbl.is.

„Ég held að það sé kolrangt að þetta muni kippa fótunum undan rekstri áfengisverslunar ríkisins. Þetta eru 2,3% af sölu þeirra, bjórarnir sem eru framleiddir af þessum örfáu brugghúsum.“

* * *

Óðinn vill enda þessa umfjöllun á að vitna í hinn ágæta Hauk Örn Birgisson, hæstaréttarlögmann og forseta Golfsambands Íslands og Evrópu, úr grein sem birtist í Fréttablaðinu í vikunni.

„Maður hefði samt einhvern veginn haldið að hlutunum væri öfugt farið. Yfirleitt eru það einkaaðilarnir sem eiga í vök að verjast gegn ríkisfyrirtækjunum, sem öll starfa í skjóli hins opinbera með botnlausa sjóði. Þetta þekkja íslensk fjölmiðlafyrirtæki vel. Nú er það hins vegar frjálsa verslunin sem mun koma niður á ríkisfyrirtækinu með óbilgjörnum hætti. Ég meina, hver hefur ekki samúð með því sjónarmiði einokunarrisans að aukið verslunarfrelsi muni hugsanlega leiða til þess að viðskiptavinirnir ákveða frekar að versla annars staðar? Þetta er beinlínis ómannúðlegt gagnvart ÁTVR, ef maður hugsar út í það. Engan skal þó undra þótt ríkisstofnun, sem hefur það lögfesta markmið að takmarka aðgengi að áfengi á sama tíma og hún hreykir sér af miklu vöruúrvali í verslunum sínum, skuli vera rugluð í ríminu.“

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.