Eftir samfelldan hagvöxt undangengin ár, allt frá 2011, stöðugt verðlag og aukinn kaupmátt mætum við nú þeirri áskorun að stýra ríkisfjármálum í hjaðnandi hagvexti og jafnvel samdrætti gangi spár eftir.

Hagstjórn

Í þeirri viðleitni að bæta lífskjör og ná æskilegum markmiðum hagstjórnar, að allir hafi vinnu, verðstöðugleika og aukna verðmætasköpun, er nauðsynlegt að huga að samspili þriggja meginstoða efnahagsumhverfisins; ríkisfjármálastefnu, peningamálastefnu og vinnumarkaðar.

Samspil er einn af mikilvægari þáttum knattspyrnu, sem er vinsæl íþróttagrein og í eðli sínu kraftmikill dýnamískur leikur og margir vilja meina að krafturinn, hreyfanleikinn, návígin, félagslegi þáttur umgjarðarinnar og hið óvænta geri leikinn jafn áhugaverðan og raun ber vitni. Með skipulagi, aga og samstöðu geta „smærri“ lið og þjóðir náð árangri eins og við Íslendingar höfum svo eftirminnilega upplifað.

Slíkur árangur byggist m.a. á styrkog veikleikagreiningu andstæðinga hverju sinni. Góður þjálfari sagði gjarnan að til þess að ná samspili og vænlegri sókn þyrfti að fara saman hlaup og sending. Hagkerfi er ekki ólíkt þessari vinsælu íþrótt að því leyti að á bakvið er samfélag fólks sem „hreyfir“ sig kröftuglega og efnahagsumhverfið er í eðli sínu dýnamískt þar sem kraftar framboðs og eftirspurnar mætast. Þróttmikið og sterkt efnahagslíf er enda æskilegt fyrir vöxt og aukna velsæld og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur þess vegna áherslu á „traustar undirstöður ríkisfjármála til þess að byggja undir og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir“ í stjórnarsáttmálanum.

Umgjörð ríkisfjármála

Lengi hefur verið gagnrýnt að ríkisfjármálastefna og peningastefna spili ekki saman og að fjármálastefna hafi ekki virkað sveiflujafnandi heldur þvert á móti, og skort hafi á aðhald ríkisútgjalda í uppsveiflu.

Með lögum um opinber fjármál var stigið mikilvægt skref til að breyta þessu með áherslu á langtímasýn, agaðri ferla og vinnubrögð auk samhæfðrar stefnumótunar ríkis og sveitarfélaga.

Mikilvægt og hagkvæmt er að ákvarðanir um ný útgjöld og fjárfestingar taki mið af stöðu hagkerfisins og framleiðslugetu út frá nýtingu framleiðsluþátta.

Eitt af fjölmörgum nýmælum laganna er ákvæði um skipan fjármálaráðs sem gefur út álit á stefnumörkun stjórnvalda eins og hún kemur fram í fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Ráðið er algerlega sjálfstætt í störfum sínum og álitin og rökstuðningur ráðsins eru birt opinberlega. Þetta hefur leitt til dýpri og heildstæðari umræðu og greininga sem nær til þjóðhagslegra þátta og samspils fjármálastefnu við peningastefnuna og þróun á vinnumarkaði.

© vb.is (vb.is)

Í hvað fara peningarnir?

Í stöplaritinu kemur fram vægi heildarframlaga til meginsviða ríkisútgjalda annars vegar árið 2019 og hins vegar árið 2011. Frá upphafi uppsveiflunnar frá 2011 hafa ríkisútgjöld verið aukin verulega úr 612 milljörðum kr. í 932 milljarða kr. eða yfir 50%. Samhliða hafa einskiptis- og óreglulegar tekjur verið nýttar til þess að greiða niður skuldir og draga úr vaxtabyrði en á móti vegur að lífeyrisskuldbindingar hafa hækkað.

Hlutfallslega hefur vægi útgjalda til heilbrigðismála aukist mest enda markmiðið að forgangsraða til velferðarmála. Jafnframt er mikilvægt að leita leiða til hagræðingar og mæta vaxandi þjónustuþörf velferðarmála með forvirkum aðgerðum og nýsköpun.

Samspilið er dýrmætt

Í skýrslu peningastefnunefndar til Alþingis kemur m.a. fram að peningastefnan muni á næstunni ráðast af samspili minni umsvifa í þjóðarbúskapnum, þróun verðbólgu, ríkisfjármála og ákvörðunum á vinnumarkaði. Ríkissjóður stendur styrkari fótum og viðnámsþróttur hagkerfisins er meiri sem gefur aukin færi á að bregðast við versnandi horfum.

Áhersla stjórnvalda á að greiða skuldir hraðar niður en skuldaregla opinberra fjármála mælir fyrir um og lægri vaxtabyrði skila auknu svigrúmi til innviðauppbyggingar. Heimili og fyrirtæki hafa lækkað skuldir sínar og skuldir allra í erlendri mynt hafa lækkað auk þess sem við höfum búið við stöðugt verðlag í langan tíma.

Þrátt fyrir að ekki sé hægt að fullyrða að samspil ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar gangi fullkomlega upp eru sterkar vísbendingar um bættar forsendur hagstjórnar og aukið samspil. Seðlabankinn hefur nú í tvígang á þessu ári lækkað vexti og stýrivextir eru nú í sögulegu lágmarki.

Endurskoðuð ríkisfjármálastefna felur í sér aukinn sveigjanleika, sem gefur færi á að áætlanir haldi betur og ríkisfjármálaáætlun 2020-2024 boðar minni afgang. Fullyrða má að farsælum samningum, lífskjarasamningum, hafi verið náð á vinnumarkaði. Í öllu falli má segja að með bættri stefnumótandi umgjörð ríkisfjármála, þar sem fjárlög fyrir hvert ár hvíla á áætlun og stefnu til lengri tíma, auknum aga og langtímahugsun má færa fyrir því rök að meiri líkur eru á því að „hlaup og sending“ fari saman, að samspilið gangi upp og við náum vænlegri sókn.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar.