*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Týr
9. júní 2019 11:01

Ríkisrekstur

Ef það sverfur að mun atvinnuleysisins gæta á einkamarkaðnum en ekki hjá hinu opinbera. Því kynntust menn vel í hruninu.

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

Engum blöðum er um það að fletta lengur að gríðarleg efnahagsþensla liðinna ára er komin á endastöð, þó enn sé auðvitað ekki ljóst með hvaða hætti lendingin verður. Það er rétt athugað hjá Bjarna Benediktssyni, að undanfarin ár hafa að mörgu leyti verið vel nýtt til þess að búa í haginn fyrir hið óumflýjanlega. Skuldir hafa verið greiddar upp, skattar og gjöld hafa lækkað nokkuð og ríkisreksturinn verið góður. Annað er raunar erfitt í góðærinu mikla.

* * *

Vegna þess að mjög hefur hægst á í hagkerfinu, hefur nú verið lögð fram ný fjármálastefna, þar sem byggt er á traustum grunni, tekið mið af breyttum aðstæðum án nýrrar skuldasöfnunar og gert ráð fyrir stuðningi við nýgerða lífskjarasamninga, þannig að heimilin í landinu geti áfram dafnað, eins og þar stendur.

* * *

Þrátt fyrir að skattar hafi verið lækkaðir nokkuð síðastliðin ár, má ekki gleyma því að þeir höfðu hækkað mjög verulega í tíð norrænu velferðarstjórnarinnar, sem tók við eftir bankahrun. Enginn vafi er á að þær drógu mjög úr viðnámi atvinnulífsins og hertu mjög að heimilunum, einmitt þegar þau máttu síst við frekari áföllum. Eftir að efnahagslífið tók loks að rétta úr kútnum, fyrst og fremst vegna ferðamannastraumsins, voru skattalækkanirnar samt sem áður ákaflega hóflegar og fyrr en varði var ríkisvaldið vitaskuld orðið ákaflega háð hinum stórkostlega auknu tekjum.

* * *

Á myrkum dögum hrunsins var skattpíningin réttlætt með neyðarrökum, að ríkið þyrfti peninginn til endurreisnar sem þó bólaði ekkert á utan ríkisgeirans. Eftir að atvinnulífið rétti sjálft úr kútnum mátti svo ekki minnast á myndarlegar skattalækkanir vegna þess að þá biði okkar ofhitnun. Og nú þegar aftur kólnar, þá er áður boðuðum skattalækkunum frestað. Eins og skattabreytingar megi aðeins og einvörðungu vera í eina átt og enginn kunni betur að ráðstafa verðmætum en ríkisvaldið!

* * *

Ekki verður þó annað séð en að ofhitnunar hafi ekki síst gætt hjá ríkinu upp á síðkastið, því annað árið í röð fjölgar nú starfsfólki hins opinbera mun örar en í einkageiranum. Ef það sverfur að mun atvinnuleysisins gæta á einkamarkaðnum en ekki hjá hinu opinbera. Því kynntust menn vel í hruninu. Er það þannig sem menn ætla að auka verðmætasköpunina og verja vígin? Með því að slá skjaldborg um skattheimtu og starfsmenn hins opinbera?

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.