*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Týr
25. október 2020 17:02

„Ríkissjóður þarf þetta“

Það þarf jú einhver að greiða laun þeirra sem fara yfir kreditkortayfirlit landsmanna í framtíðinni.

Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff.
Haraldur Guðjónsson

Nú eru aðeins nokkrir dagar síðan ríkið, í nafni sóttvarna, fór vandlega yfir það hverjir voru á barnum, hvar og hvenær þegar þriðja bylgja Covid-faraldursins var að hefjast. Það setur hættulegt fordæmi um þann aðgang sem hið opinbera hefur að rafrænum viðskiptum landsmanna.

                                                          ***

Þetta kom upp í huga Týs þegar hann horfði á viðtal við Margréti Kristmannsdóttur, framkvæmdastjóra Pfaff, í sjónvarpi ríkisins í vikunni. Margrét býr yfir mikilli reynslu í atvinnulífinu, hefur rekið eigið fyrirtæki í rúm 30 ár, setið í stjórnum hagsmunasamtaka og látið til sín taka í þjóðfélagsumræðunni.

                                                          ***

Í annars ágætu viðtali vék Margrét umræðunni að skattsvikum og minnti á að í fjármálaráðuneytinu lægi fyrir skýrsla með tillögum til að draga úr skattsvikum. Í ljósi þess að ríkissjóður væri tómur væri ráð að draga upp þá skýrslu. Margrét taldi þannig að of mikið reiðufé væri í umferð og að megninu til væru það svartir peningar. Þá þyrfti að fá upp á yfirborðið „því ríkissjóður þarf þetta, sveitarfélögin þurfa þetta og við þurfum bara að ná í þessa peninga með hörku," sagði hún. Ein af tillögum fyrrnefndrar skýrslu felst einmitt í því að takmarka reiðufé í umferð og gera nær öll viðskipti milli aðila rafræn.

                                                          ***

Rafræn viðskipti hafa vissulega orðið til þess að einfalda líf okkar til muna og meginþorri almennings stundar flest sín viðskipti með rafrænum hætti, án þess að ríkið geri kröfu um það. Svo er það nú reyndar þannig að ríkið kemst yfir stærstan hluta þess fjármagns sem er í umferð, menn kaupa fyrir það ýmsa vöru og þjónustu, nú eða rafmagnstæki, og við verðum að treysta á að Margrét og kollegar hennar í viðskiptalífinu gefi þau viðskipti upp til skatts. Ef hún kýs að taka ekki við reiðufé í verslun sinni er henni frjálst að gera það og menn geta þá snúið viðskiptum sínum annað.

                                                          ***

Týr ætlar ekki að leggja blessun sína yfir skattsvik. Aftur á móti hefur hann efasemdir um að þau séu það samfélagsmein sem látið er af. Þess utan stendur ríkissjóður frammi fyrir stærri vandamálum eins og er. Eitt af þeim er það hvort nokkur verði eftir til að greiða skatta yfirhöfuð. Það þarf jú einhver að greiða laun þeirra sem fara yfir kreditkortayfirlit landsmanna í framtíðinni.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: skattsvik reiðufé
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.