Í júní kaus Alþingi nýjan ríkisendurskoðanda. Sá heitir Guðmundur Björgvin Helgason. Óðinn var furðu lostinn þegar hann áttaði sig á því að ríkisendurskoðandi er ekki löggiltur endurskoðandi.

Krafa um að ríkisendurskoðandi skuli hafi löggildingu sem endurskoðandi var felld niður í meðförum þingsins á frumvarpi sem varð að núgildandi lögum sem tóku gildi árið 2017. Í staðinn er eingöngu gerð krafa um að hann hafi þekkingu á reikningsskilum og ríkisrekstri auk stjórnunarreynslu.

Þessi breyting er næstum óskiljanleg. Það er reyndar alls ekki fráleitt að ríkisendurskoðandi sé lögfræðingur, enda reynir mjög á lagatúlkun í störfum stofnunarinnar. En þá er starfsheitið orðið æði sérstakt.

Stjórnmálafræðingur

Nýr ríkisendurskoðandi er með BA-próf í alþjóðasamskiptum og meistarapróf í stjórnmálafræði. Með fullri virðingu fyrir þeirri menntun er hún ekki góður grundvöllur fyrir störf ríkisendurskoðanda. Að auki hefur nýr ríkisendurskoðandi aðeins starfað hjá stofnuninni í þrjú ár.

***

Þegar Alþingi tekur ákvarðanir sem þessar, sem virðast algjörlega út úr kú, veltir Óðinn því fyrir sér hvort að baki sé eitthvert pólitískt baktjaldamakk. Ekki síst í ljósi þess að í hópi umsækjenda eru afar færir endurskoðendur.

Sendifulltrúi

Árið 2000 var Guðmundur Björgvin Helgason skipaður ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneytinu af Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra. Þá var Guðmundur sendifulltrúi í sendiráðinu í París. Hann hóf störf í utanríkisráðuneytinu árið 1991. Þess má geta að Guðmundur er sonur Helga Ágústssonar, fyrrverandi sendiherra.

Bændablaðið ræddi við Guðmund vegna skipunarinnar í júlí 2000:

,,Ég hef þegar sýslað ýmislegt í landbúnaðarmálum í gegnum störf mín fyrir WTO og FAO þannig að ég hef nokkra reynslu á þessu sviði. Ég er mjög þakklátur landbúnaðarráðherra fyrir það traust sem hann sýnir mér og ég hlakka mikið til að starfa með honum og starfsfólki hans í ráðuneytinu.“

Óðinn getur ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að Guðmundur Björgvin hafi tvívegis verið skipaður nokkuð óhefðbundið í tvö háttsett störf hjá ríkinu, annað ákaflega mikilvægt. Eða ætli sendifulltrúi hafi oft stokkið beint í embætti ráðuneytisstjóra?

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 7. júlí 2022.