*

sunnudagur, 19. september 2021
Óðinn
19. mars 2020 14:01

Ríkisstuðningur við Icelandair

Uppi eru hugmyndir innan íslensku stjórnsýslunnar um að ríkissjóður veiti lán eða ábyrgðir fyrir lánum.

Árið 2018 var launakostnaður 34,2% sem hlutfall af tekjum hjá Icelandair en 21,1% hjá SAS og enn lægra hjá lággjaldaflugfélögum.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Mótaðar hugmyndir eru nú í skoðun innan stjórnsýslunnar um að ríkissjóður veiti Icelandair lán eða ríkisábyrgð á lánum. Óðinn hefur verulegar efasemdir um að ríkisstjórnin hlutist til um reksturs eins fyrirtækis. Fjölmörg íslensk fyrirtæki eru nú í miklum erfiðleikum og myndu þiggja slíka ríkisaðstoð.

                                                       ***

Mun skynsamlegra og réttlátara er ef fyrirtækin í landinu fá sömu meðferð. Til dæmis með því að lækka skatta og gjöld, bæði tímabundið og ótímabundið, og veita rúman greiðslufrest á sköttum og gjöldum. Einnig er nauðsynlegt að sveitarfélögin lækki fasteignagjöld og veiti greiðslufresti á þeim.

                                                       ***

Greiðslufrestir ríkisins og sveitarfélaga valda þeim afar litlum kostnaði. Ríkissjóður getur fjármagnað sig á vöxtum í kringum 0% verðtryggt og sveitarfélögin í kringum 0,5-1% í stuttum bréfum.

                                                       ***

Launakostnaður Icelandair alltof hár

Rekstrarerfiðleikar Icelandair hafa varað í tæp þrjú ár. Verulegt rekstrartap var árin 2018 og 2019 og gríðarlegt rekstrartap er fyrirsjáanlegt í ár.

                                                       ***

Árið 2018 var ágætur hagnaður í flugrekstri á heimsvísu en Icelandair tapaði 6,7 milljörðum króna. Launakostnaður félagsins hefur verið gagnrýndur undanfarin ár en hagnaður hefði verið á félaginu ef launakostnaður hefði verið í svipuðu hlutfalli og hjá skandinavíska flugfélaginu SAS.

                                                       ***

Árið 2018 var launakostnaður 34,2% sem hlutfall af tekjum hjá Icelandair en 21,1% hjá SAS. Árið 2019 lækkaði hlutfallið lítillega hjá Icelandair og nam 32,5% en 21,2% hjá SAS. Hlutfallið hjá lággjaldaflugfélögum er mun lægra. Til dæmis var hlutfallið 7,6% hjá Wizzair árið 2018 og 8,6% 2019. Árið 2018 var hlutfallið 12,8% hjá easyJet og 13,5% árið 2019.

                                                       ***

Óhætt er að fullyrða að Icelandair verður ekki arðbært, í samanburði við önnur flugfélög, nema að launakostnaður félagsins lækki verulega.

                                                       ***

Rétt er að geta þess að SAS var mjög nærri gjaldþroti árið 2012 en til að forðast gjaldþrot var meðal annars endursamið við starfsmenn félagsins. Það var meðal annars gert að kröfu lánadrottna.

                                                       ***

Það væri því galið af ríkisvaldinu að stíga inn í félagið með lánafyrirgreiðslu eða öðrum ríkisstuðningi, án þess að farið hafi verið í niðurskurðaraðgerðir í félaginu.

                                                       ***

Sértækar aðgerðir og spilling

Óðinn vil minna á að það er verulegur munur á því að lækka eða afnema skatta eða styrkja einstaklinga eða fyrirtæki á kostnað skattgreiðenda. Óðinn er mótfallinn því að styðja einstök fyrirtæki eða atvinnugreinar. þar með er ekki sagt að við aðstæður sem þessar sé ekki unnt að gera ráðstafanir á vegum hins opinbera, sem komi í veg fyrir að annars lífvænleg fyrirtæki leggi upp laupana vegna óvænts en vonandi stutts tekjubrests. Þar sé þess enda vel gætt að almennar reglur og jafnræði séu í fyrirrúmi, að spilling og misnotkun komist hvergi að, en eins að ekki sé verið að lengja dauðastríðið hjá fyrirtækjum sem voru að stöðvast af öðrum ástæðum.

Óðinn er skoðanapistill Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Icelandair
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.