Íslenskur sjávarútvegur er sá eini innan OECD-ríkjanna sem greiðir meira til hins opinbera en greinin fær greitt úr opinberum sjóðum. Í helstu samkeppnislöndum Íslands er sjávarútvegur ríkisstyrktur. Í þessu felst meðal annars sjálfbærni íslensks sjávarútvegs.

Vekja má athygli á því, að á vettvangi Evrópusambandsins er starfræktur sérstakur sjávarútvegs- og fiskeldissjóður, sem veitir styrki til hlutaðeigandi atvinnugreina í aðildarlöndum sambandsins. Á tímabilinu 2021-2027 mun sjóðurinn ráðstafa 6,1 milljarði evra til sjávarútvegs og fiskeldis. Það gera um 860 milljarða króna.

Það gefur reglulega á bátinn í sjávarútvegi. Af nýlegum atburðum mætti nefna útgöngu Breta úr ESB, kórónuveirufaraldurinn og stríð í Úkraínu. Allir þessir atburðir hafa haft áhrif á sjávarútveg og sölu á sjávarafurðum á erlendum mörkuðum. Við þessar sviptingar allar hefur enn verið aukið við digra sjóði ESB í því skyni að bæta sjávarútvegsfyrirtækjum beint og óbeint tjón. Þannig var sérstökum fjármunum úr sjóðum ESB varið til sjávarútvegsfyrirtækja sem urðu fyrir áhrifum Brexit, og aftur vegna áhrifa kórónuveirunnar og enn á ný vegna stríðs í Úkraínu. Áhættu í sjávarútvegi hefur í viðtækum mæli verið velt yfir á reikning evrópskra skattgreiðenda.

Sjávarútvegur í ESB nýtur einnig víðtækrar undanþágu frá kolefnissköttum. Sú undanþága hefur verið gagnrýnd nokkuð, nú þegar allt kapp er lagt á að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Og hvaða lausn ætli ESB hafi á þeirri áskorun sem felst í nauðsynlegum samdrætti í olíunotkun evrópska fiskiskipaflotans? Jú, að sjálfsögðu að veita opinberum fjármunum til að aðstoða við verkefnið.

Íslenskur sjávarútvegur hefur ekki farið varhluta af nefndum áskorunum. Skattgreiðendur hér á landi hafa þó ekki þurft að létta undir með atvinnugreininni, ólíkt evrópskum skattgreiðendum. Mikil verðmæti felast þannig í hinu íslenska fiskveiðistjórnunarkerfi og fjárhagslega burðugri atvinnugrein. Þetta vill stundum gleymast.