*

miðvikudagur, 23. september 2020
Heiðrún Lind Marteinsdót
4. september 2020 12:30

Ríkisstyrkt samkeppni

„Íslenskur sjávarútvegur hefur engrar aðstoðar óskað frá ríkissjóði – og ekki er fyrirséð að til þess komi.“

Haraldur Guðjónsson

Töluverður samdráttur hefur orðið í sölu á sjávarafurðum frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á. Veiran er ekki á förum og á meðan má gera ráð fyrir hökti í efnahagslífi um allan heim.

Það hefur áður gefið á bátinn í sjávarútvegi. Oft. Fiskistofnar eru óútreiknanlegir, veður válynd, gjaldmiðlar flökta, stjórnmálaástand í heiminum er misgott og efnahagsástand, í þeim 78 ríkjum þar sem íslenskur fiskur er seldur, er sveiflukennt. Enginn markaður fyrir sjávarafurðir er ónæmur fyrir núverandi ástandi.

Íslenskur sjávarútvegur mun standa storminn af sér. Það er ekki síst vegna sveigjanleika hins íslenska fiskveiðistjórnunarkerfis og fjárhagslegra sterkra og vel rekinna fyrirtækja. Þetta er fáheyrt í alþjóðlegum heimi sjávarútvegs. Beggja vegna Atlantshafs er nú keppst við að dæla fjármunum skattgreiðenda inn í sjávarútveg. Vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins fá aðildarríki ESB alls 160,3 milljónir evra, jafnvirði um 26,4 milljarða íslenskra króna, til þess að styrkja sjávarútveg og fiskeldi.

Fjármunirnir koma úr evrópska sjávarútvegssjóðnum (The European Maritime and Fisheries Fund). Sjóðurinn hefur á tímabilinu 2014-2020 úthlutað 6,4 milljörðum evra, jafnvirði um 1.050 milljarða íslenskra króna, til sjávarútvegs í ríkjum ESB. Í Bandaríkjunum var 300 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 41 milljarði íslenskra króna, ráðstafað í sjóð til aðstoðar aðilum í sjávarútvegi sem orðið hafa fyrir áhrifum af COVID.

Íslenskur sjávarútvegur hefur engrar aðstoðar óskað frá ríkissjóði – og ekki er fyrirséð að til þess komi. Það er hins vegar mikilvægt að þessar erlendu staðreyndir séu þekktar, þegar hugað er að samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs og þeim rekstrarskilyrðum sem honum eru búin hér á landi, í samkeppni við ríkisstyrktan sjávarútveg á erlendum mörkuðum.

Höfundur er framkvæmdastjóri SFS.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.