*

miðvikudagur, 25. nóvember 2020
Huginn og muninn
31. október 2020 09:54

Ríkistölvan segir NEI!

Full ástæða er til að hvetja ráðherra áfram í þessu furðulega máli — baráttukveðjur til borgfirsku hjónanna.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Hrafnarnir og vinir hans panta sér stundum vín af erlendum netverslunum. Einungis nokkra daga tekur að fá það afhent heim að dyrum. Í ljósi þessa fögnuðu hrafnarnir ákvörðun hjónanna Dagbjartar Arilíussonar og Svanhildar Valdimarsdóttur, eigenda brugghússins Steðja í Borgarfirði. Fréttablaðið greindi nefnilega frá því fyrir rúmri viku að þau hjón hefðu ákveðið að opna netverslun með bjór á sinni heimasíðu og keyra hann sjálf heim til viðskiptavina. Rúmri viku eftir að fréttin birtist greindi Morgunblaðið frá því að lögreglan á Vesturlandi væri að rannsaka málið, enda ólögmætt að reka netverslun með áfengi á Íslandi.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, sagðist í samtali við Moggann líta svo á að þetta væri skýrt lögbrot, ÁTVR hefði einkaleyfi á að selja áfengi. Þetta er samkvæmt laganna bókstaf rétt hjá Sigrúnu Ósk, fyrir utan það auðvitað að allir geta nú þegar keypt vín af erlendum síðum. Einkaleyfi ÁTVR nær sem sagt ekki út fyrir landsteinana, sem betur fer.

Sala áfengis á netinu er fullkomið dæmi um það þegar ríkistölvan segir NEI! Eins og hrafnarnir hafa rakið, getur hver sem er keypt áfengi af erlendum vefsíðum og fengið sent heim. Íslenskir framleiðendur áfengis standa því alls ekki jafnfætis þeim erlendu að þessu leyti. Tæknilega geta þeir samt opnað netverslun erlendis og selt til Íslands. Þá þurfa þeir að senda vínið í vöruhús úti og síðan þegar Íslendingurinn pantar senda þeir vínið aftur heim. Hvurslags þvæla er þetta eiginlega?

Sem betur fer hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra lagt fram frumvarp til breytinga á áfengislögum. Felur frumvarpið einmitt í sér að smásala áfengis í íslenskum netverslunum verði heimiluð. Frumvarpið hefur ekki enn verið samþykkt á þinginu en full ástæða er til að hvetja ráðherra áfram í þessu furðulega máli. Jafnvel mestu afturhaldsseggirnir á þingi hljóta að sjá að þetta er einfaldlega spurning um jafnræði og réttlæti. Að því sögðu þá eru hrafnarnir hóflega bjartsýnir á framgang málsins. Þeir vilja líka nota tækifærið og senda borgfirsku hjónunum baráttukveður.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.