Að undanförnu hefur auglýsingaherferð undir yfirskriftinni „Ég bara spyr?“ verið nokkuð áberandi í samfélagsmiðlum og fjölmiðlum. Í fyrstu voru auglýsingarnar þannig fram settar að áhorfendur gátu ekki með neinu móti áttað sig hver stæði að baki auglýsingunum og hvaða erindi hann á við almenning.

Þessar auglýsingar, sem hafa verið áberandi á samfélagsmiðlum á borð við Facebook frá því um miðjan júlí og nýlega í Ríkissjónvarpinu, eru áróðursbragð sem er ætlað að ala á tortryggni í aðdraganda komandi kjaraviðræðna og reyna stilla upp ólíkum samfélagshópum sem andstæðum sem eiga í grimmilegri baráttu um brauðið.

Ágætt dæmi um þetta er að í einni auglýsingunni En útskýra fréttaskýrendurnir, sem Þorsteinn Bachmann og Elma Lísa Gunnarsdóttir leika, stýrivexti fyrir áhorfendum og setja meðal annars fram eftirfarandi staðreyndir:

Þorsteinn: „Vandamálið er að fólk skilur ekki stýrivexti“

Elma „Og er það ekki bara allt í lagi?. Það sem að þú skilur ekki getur ekki skaðað þig. Annars er þetta mjög einfalt. Launahækkanir eru vextir fátæka fólksins og öfugt. Vextir eru launahækkanir ríka fólksins.“

Þorsteinn: „Rétt, svo rétt. Það er löngu kominn tími á lífskjarasamninga forstjóra og fjármagnseiganda.

Elma „Nú er sá tími kominn.“

Þorsteinn „Allir glaðir.“

Elma: „Allir sem kunna að samgleðjast allaveganna.“

Hér er auðvitað ekki um neitt annað að ræða vísvitandi upplýsingaóreiðu sem er verið að dreifa í skjóli nafnleysis. Kveðið er sama stef í annarri auglýsingu. Þar segir meðal annars:

„Verkalýðshreyfingin er alltaf að væla um að hækka laun, svo fara allir að grenja þegar forstjórar fá launahækkun. Ákveðið ykkur, ætliði að vera með eða á móti launahækkunum? Ég bara spyr.“

„Vaxtahækkanir eru launahækkanir ríka fólksins, svo rétt, og það er löngu kominn tími á lífskjarasamninga forstjóra og fjármagnseiganda, og nú er sá tími kominn, allir glaðir.“

Við þetta bætist svo að aðstandendur þessarar auglýsingaherferð hafa svo stofnað sérstaka Facebook-síðu sem á vísa til þessa uppdiktaða fréttaþáttar sem auglýsingarnar hverfast um. Þar má finna ýmsar færslur þar sem í kaldhæðni er hæðst að kampavínsdrykkju viðskiptablaðamanna og málflutningi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs svo einhver dæmi séu tekin.

***

Stuttu eftir að auglýsingarnar tóku að birtast upplýsti Viðskptablaðið að stéttarfélagið VR stæði að baki auglýsingaherferðinni og að auglýsingastofan Hvíta húsið hafi haft veg og vanda af framleiðslunni. Af einhverjum ástæðum vildi Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, ekki þó staðfesta þetta þegar Viðskiptablaðið spurði hann út í málið í síðustu viku. Einnig kom fram í frétt Viðskiptablaðsins að Fjölmiðlanefnd hafði ekki gert athugasemdir við þessar nafnlausu fréttir og raun hafði auglýsingaherferðin farið fram hjá henni. Má það firn teljast.

Ekki síst í ljósi þess að ofangreindar auglýsingar brjóta gegn reglum Facebook og þeim viðmiðum sem menn hafa komið sér saman um á undanförnum árum í baráttunni gegn upplýsingaóreiðu. Þannig má nefna að samkvæmt reglum Facebook og aðgerðaráætlun Evrópusambandsins gegn upplýsingaóreiðu skal koma skýrlega fram hver kosti skoðanamótandi auglýsingar, og að hverjum auglýsingarnar beinast. Þessar upplýsingar er ekki að finna á Facebook-síðu Ég bara spyr.

***

Það sem er ekki síður alvarlegt er að Ríkisútvarpið birti þessar auglýsingar nafnlaust þrátt fyrir að þær brjóti beinlínis starfsreglum stofnunarinnar. Á heimasíðu RÚV má finna hvaða reglur gilda um sölu auglýsinga og birtingu þeirra. Í þriðju grein reglnanna, sem fjallar um skilyrði fyrir birtingu auglýsinga, segir:

Jafnan skal vera ljóst af innihaldi auglýsingar hver réttur og eiginlegur auglýsandi er.

Í samlesnum auglýsingum skal tilgreining á auglýsanda að jafnaði vera hluti af auglýsingu. Heimilt skal þó að birta auglýsingar fyrir sérstaka viðburði, opnun sýninga o.s.frv. þegar hluti af því að auka spennu fyrir viðkomandi viðburð er að auglýsandinn sé ekki auðkenndur. Í slíkum tilvikum skal þess gætt að ekki sé gefið í skyn að auglýsandi sé annar en raunin er, ekki sé viðhafður samanburður við aðrar vörur og að auglýsingin sé aðeins birt skömmu fyrir slíkan viðburð.”

Fimmta grein reglnanna fjallar um auglýsingar hagsmunasamtaka, stjórnmálaflokka og stuðningsmanna flokka, einstakra málefna og einstaklinga. Þar segir:

Staðhæfingar settar fram sem staðreyndir í auglýsingum hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka skulu vera sannreynanlegar með einföldum og aðgengilegum hætti og skal auglýsandi sýna fram á það verði þess krafist.

Óheimilt er að uppnefna einstaka menn, stofnanir, félagasamtök eða stjórnmálaflokka. Skýrt skal vera hver stendur að auglýsingu sbr. ákvæði 3 gr. Almennt skal greiðandi auglýsingar tilgreindur og félög sem að auglýsingu standa skulu formbundin. RÚV sölu er rétt að hafna auglýsingum frá óformbundnum félagsskap ef heiti eða vísan til hans er almenns eðlis og gæti átt við fleiri aðila en einn.“

Af þessu má vera ljóst að Ríkisútvarpið hafi brotið eigin starfsreglur þegar stofnunin birti auglýsingar VR án þess að það kæmi fram hver hinn raunverulegi auglýsandi væri. Vafalaust verður málið tekið upp á næsta fundi útvarpsráðs og hlakkar fjölmiðlarýnir til að lesa um það í fundargerð sem væntanlega verður ekki birt en seint á næsta ári.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 18. ágúst 2022.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði