*

miðvikudagur, 20. október 2021
Óðinn
16. ágúst 2020 12:37

Ríkisútvarpið og Samherji

Óðinn tekur eftir því að útvarpsstjóri notar orðalagið einn „öflugasti" rannsóknarblaðamaður landsins, en ekki „vandaðasti".

Haraldur Guðjónsson

Myndband Samherja sem birt var á þriðjudag var um margt athyglisvert. Fyrst má nefna að þetta er óvenjuleg leið fyrirtækis til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við almenning. En að öllum líkindum mjög áhrifarík, að minnsta kosti hefur það vakið athygli.

Efnið sjálft er þó athyglisverðara. Það er merkilegt, ef rétt er, að fréttamaður stofnunar (Ríkisútvarpsins) hafi gengið á milli stofnana (skattrannsóknarstjóra og seðlabanka), með skýrslu frá enn annarri stofnun (Verðlagsstofu skiptaverðs), og reynt að sannfæra stofnanirnar tvær um að Samherji hafi brotið lög.

                                                                ***

Viðbrögð innan nokkurra klukkustunda

Viðbrögð Ríkisútvarpsins eru einnig undarleg. Þegar varla var búið að birta myndbandið þá mætir útvarpsstjórinn og fréttastjórinn og verja vinnubrögð fréttamannsins. Óðinn hélt að allir þeir fjölmiðlar sem vildu láta taka sig alvarlega hefðu fyrst skoðað málið gaumgæfilega og síðan tjáð sig um málið. Slíkt er ekki gert á nokkrum klukkustundum. En reglan hjá Ríkisútvarpinu er sú að neita alltaf að mistök hafi verið gerð. Jafnvel þótt mistök hafi verið gerð.

Í myndbandinu er lögð mikil áhersla á að Verðlagsstofa skiptaverðs hafi aldrei látið vinna neina skýrslu um viðskipti hjá Samherja. Það hafi stofnunin staðfest með bréfi til Samherja í apríl og einnig við Fréttablaðið í fyrradag. Starfsmenn Verðlagstofunnar virðast þó ekki vera fyllilega vissir um hvað gerðist innan eigin veggja þar sem hún gaf frá sér yfirlýsingu í gær um að árið 2012 hefði starfsmaður hennar tekið saman upplýsingar um útflutning á karfa sundurgreint á skip fyrir árin 2010 og 2011 og sent úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna án þess að neitt mat hafi verið lagt á upplýsingarnar.

Samherji leggur að auki út af orðum Helga Seljan að hann hafi átt við skýrsluna og það sé hugsanlegt lögbrot. Þarna eru Samherjamenn einfaldlega að gefa sér forsendur sem ekki er hægt að finna stað í orðum Helga. Að eiga við skýrslu getur þýtt svo margt fleira heldur en að breyta henni með saknæmum hætti. Óðinn undrast að svo mikil áhersla skuli vera lögð á þetta atriði í myndbandinu. Þessu er enda hafnað í yfirlýsingu Ríkisútvarpsins.

En í yfirlýsingunni er fleira að finna sem vert er að fjalla um.

Það er líklega einsdæmi að stórfyrirtæki leggi í persónulega herferð gegn blaðamanni með áratuga reynslu. Þessi grófa árás þjónar þeim eina tilgangi að skaða mannorð fréttamanns RÚV, sem hefur hvorki falsað gögn né „átt við þau" og trúverðugleika fréttastofunnar.

Ríkisútvarpið er mjög aflmikil stofnun. Hún hefur mjög frjálsar hendur eftir að útvarpsráð var lagt niður, hún hefur fimm milljarða króna af skattpeningum til ráðstöfunar árlega, auk auglýsingatekna, og hefur ítrekað brotið lögin sem gilda um sig sjálfa. Má því ekki snúa formerkjunum við?

Í myndbandinu er viðtal við Jóhannes Pálsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Síldarvinnslunni. Hann hitti, að eigin sögn, Helga Seljan fréttamann á þorrablóti á Reyðarfirði. Þar hefur Jóhannes eftir Helga að „Nú ætla ég að taka hann". Og átti Helgi við Þorstein Má Baldvinsson. Ætti útvarpsstjórinn og fréttastjórinn ekki að kanna þetta. Er þetta virkilega rétt?

                                                                ***

Gagnrýnin umfjöllun eða áróður?

Kerfisbundin atlaga gegn fréttamiðlum til að verjast gagnrýninni umfjöllun er ekki ný af nálinni en sú aðferð sem Samherji beitir nú gengur mun lengra en þekkst hefur hér á landi. Það er umhugsunarvert.

Fyrsta spurningin sem vaknar við lestur þessarar efnisgreinar er hvort þetta hafi verið gagnrýnin umfjöllun? Var þetta ekki eitthvað allt annað og meira? Þegar, eins og kemur fram í myndbandinu, fréttamaður Ríkisútvarpsins gengur á milli eftirlitsstofnana og reynir að sannfæra þá, sem fara með opinbert ákæruvald, um að einkafyrirtæki hafi framið lögbrot.

Sé þetta rétt, er þá fjölmiðillinn ekki kominn langt út fyrir gagnrýna umfjöllun?  Er ekki fullmikill baráttuhugur í fréttamanni, sem leggur í þann leiðangur að fara til skattrannsóknarstjóra og starfsmenn embættisins telja ekkert athugavert við þetta. Er ekki sérstakt þegar sérfræðingar í lögum og skattarétti fatta þetta ekki, eins og Helgi komst að orði?

Er þetta ekki miklu heldur áróðursstríð Ríkisfréttastofunnar? Ekki má gleyma að sömu daga og umfjöllun Kastljóss var þá var til umræðu lagafrumvörp á Alþingi sem hefðu gjörbreytt íslenskum sjávarútvegi. Voru tengsl þarna á milli? Var Helgi Seljan að reka áróður fyrir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms Sigfússonar?

                                                                ***

Öflugur rannsóknarblaðamaður

Helgi Seljan er einn öflugasti rannsóknarblaðamaður landsins og hefur kallað yfir sig reiði hagsmunaaðila með vinnu sinni, og nú herferð stórfyrirtækis gegn mannorði hans og æru. RÚV fordæmir þessa aðför sem gerð er að fréttamanninum með tilhæfulausum ásökunum.

Nú er löngu orðið ljóst að ekki stóð steinn yfir steini í rannsókn rannsóknarblaðamannsins og Seðlabankans. Reyndar kemst sérstakur saksóknari að þeirri niðurstöðu í bréfi sem það sendi Samherja „að félagið virðist hafa samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafa gætt þess á sama tíma af kostgæfni að senda heim erlendan gjaldeyri".

Það er því ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að það sé í það minnsta ofmælt að Helgi Seljan sé einn öflugasti rannsóknarblaðamaður landsins. Reyndar má segja að hann sé öflugur að því leyti að honum tókst að koma af stað opinberri rannsókn seðlabanka, eftir að skattrannsóknarstjóri henti honum öfugum út, þar sem almennt starfsfólk Samherja var sakað um refsiverðan verknað sem sætti margra ára fangelsi.

Óðinn tekur eftir því að útvarpsstjóri notar orðalagið einn „öflugasti" rannsóknarblaðamaður landsins. Án þess að ætla að lesa mikið í þetta, eða á milli línanna, þá hefðu kannski einhverjir notað lýsingarorðið „vandaðasti" þar sem gagnrýni Samherja beinist aðallega að heiðarleika og vandvirkni.

                                                                ***

Birtið skýrsluna

Annað í yfirlýsingu útvarpsstjóra um myndband Samherja vakti athygli Óðins.

Þar eru fréttamaðurinn og RÚV sökuð um að hafa falsað gögn við gerð Kastljóssþáttar árið 2012 og því haldið fram að skýrsla Verðlagsstofu, sem umfjöllunin byggðist meðal annars á, hafi aldrei verið til. RÚV hafnar þessu sem röngu.

Vekur þessi fullyrðing upp áleitnar spurningar. Er útvarpsstjóri að saka Verðlagsstofu skiptaverðs, eina af stofnunum ríkisins, um að fara vísvitandi með ósannindi? Ef svo er þá hlýtur það að teljast alvarleg ásökun.

Stóra spurningin, sem blasir við þeim sem hafa kynnt sér málið, er hvers vegna í ósköpunum Ríkisútvarpið birtir einfaldlega ekki þessa þriggja blaðsíðna skýrslu, ef skýrslu skyldi kallast? Ingvi Hrafn Jónsson, fyrrverandi fréttastjóri Ríkisútvarpsins, hitti naglann á höfuðið í stuttri færslu um málið á Facebook. Hann sagðist einungis sjá  eitt í stöðunni. „Útvarpsstjóri heldur blaðamannafund á morgun og leggur skýrsluna, sem Helgi Seljan vitnaði í á borðið, og afgreiðir málið."

                                                                ***

Í myndbandi Samherja eru ýmsar áleitnar spurningar. Tímasetning birtingar þess vekur samt athygli. Samherji er auðvitað á bólakafi í Namibíu-málinu svokallaða, sem fjallað var um í Ríkisútvarpinu síðasta vetur og var Helgi Seljan í stóru hlutverki þar.  Á Samherji eftir að svara ýmsum spurningum í því máli. Óðinn bíður spenntur eftir Namibíumyndbandinu.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 13. ágúst. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.