*

þriðjudagur, 29. september 2020
Óðinn
20. mars 2019 23:55

Ríkisvæðing fjölmiðla og plástur á krabbamein

Ríkisútvarpið segir blákalt að auk 4,7 milljarða kr. á fjárlögum, ætli það að seilast í þær 400 m.kr., til að styrkja einkarekna fjölmiðla.

Rúv er til húsa við Efstaleiti.
Haraldur Guðjónsson

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur kynnt frumvarp um ríkisstyrki til einkarekinna fjölmiðla. Óðinn verður að nota tækifærið til að hrósa mennamálaráðherra fyrir að átta sig á hættunni sem setðjar að frjálsum fjölmiðlum á Íslandi vegna þeirrar stöðu sem er uppi á fjölmiðlamarkaðnum, bæði sakir almennrar þróunar á fjölmiðlun, breyttu skattaumhverfi og einstakrar fyrirferðar fjölmiðla ríkisvaldsins. En því miður er frumvarpið, eins ágætlega útfært eins og það er, eins og að setja plástur á krabbamein.

                                                                             * * *

Meinið á íslenskum fjölmiðlamarkaði er Ríkisútvarpið. Árið 2014 fékk stofnunin 3,2 milljarða kr. á fjárlögum en fær um 4,7 milljarða í ár. Þá eru ótaldar tekjur Ríkisútvarpsins af lóðabraski með land á besta stað á höfuðborgarsvæðinu, sem munu nema um 3 milljörðum á framkvæmdatímanum í Efstaleiti. Aldrei í sögu stofnunarinnar hefur hún fengið jafn miklar tekjur á ári, utan ársins 2006 þegar enn einu sinni var hreinsaður skuldahali vegna slaks rekstrar. Það var einstök gráglettni sögunnar, að ríkismiðillinn varð bæði fyrir áföllum í bóluhagkerfinu og í hruninu, en ólíkt öðrum fjölmiðlum var það allt jafnað af skattborgurum. Oft og aftur.

                                                                             * * *

Þetta skilur Lilja Alfreðsdóttir að sjálfsögðu, en hún veit líka mæta vel, að það væri líkast pólítísku sjálfsmorði hennar að taka á meininu. Hinir hlutlausu fréttamenn og þáttastjórnendur Ríkisúrvarpsins myndu láta Sigríði Andersen í friði um stund og einbeita sér að Lilju. Og afgreiða hana rétt eins og þeir gerðu við fyrrum vopnabróðurinn Sigmund Davíð.

                                                                             * * *

Í Efstaleiti, og þá á Óðinn ekki við það sem menn aðhafast í íbúðunum á uppsprengda lóðaverðinu – framlag Ríkisúrvarpsins til húsnæðiskreppunnar – heldur í Útvarpshúsinu, helgar tilgangurinn meðalið og hagsmunir Ríkisútvarpsins og starfsmanna þeirra ganga öllu öðru framar.

                                                                             * * *

En snúum okkur að plástrinum. Í sjálfu sér er hugmyndin að baki frumvarpi menntamálaráðherra skýr, það mun vera viðeigandi fjölmiðlum kærkomin búbót og ólíklegt er að hægt sé að misnota styrkjakerfið sérstaklega, þó vissulega sé hægur vandi að benda á ýmsa kerfislæga vankanta á því, sem beinlínis verða til þess að skekkja samkeppnisgrundvöllinn og minnka hagkvæmni í greininni. Eins og jafnan er raunin með öll styrkjakerfi stjórnmálamanna, sem vilja skakka leikinn.

                                                                             * * *

Það virðist þó ekki ætla að aftra Ríkisútvarpinu frá því að gera tilraun til slíkrar misnotkunar, eins og kemur fram í athugasemd stofnunarinnar vegna frumvarpsins:

                                                                             * * *

„Undanfarin misserin hefur það færst í aukana erlendis að fjölmiðlar starfi saman að úrvinnslu frétta. Það hefur sérstaklega verið áberandi þegar unnið er úr miklu magni gagna í kjölfar gagnaleka, sbr. Panamaskjölin. Dæmi er um sambærilegt samstarf hér á landi, bæði milli einkarekinna miðla, innlendra og erlendra, og samstarf RÚV við einkarekna miðla. Mikilvægt er að að þau skilyrði sem sett verða fyrir endurgreiðslu ritstjórnarkostnaðar komi ekki í veg fyrir hugsanlegt samstarf einkarekinna miðla við RÚV eða aðra um fréttavinnslu.“

                                                                             * * *

Þarna segir Ríkisútvarpið blákalt að stofnunin eigi ekki aðeins að fá 4,7 milljarða kr. á fjárlögum, heldur ætli það einnig að seilast í þær 400 m.kr., sem ætlaðar eru til þess að styrkja einkarekna fjölmiðla, með því að notast við verktaka og leita eftir „samvinnu“ þar sem samstarfsaðilinn er niðurgreiddur!

                                                                             * * *

Veruleikafirringin er algjör. Það er reyndar ekki nýtt að Ríkisútvarpið notist við gerviverktaka. Síðast árið 2003, svo vitað sé, fóru skattyfirvöld á eftir Ríkisútvarpinu vegna þess að starfsmenn fengu verktakalaun. Með því var Ríkisútvarpið að koma sér undan að greiða skatta með ólögmætum hætti og nefnist þetta skattsvik. Óðinn nefnir þetta sérstaklega, því ekki er víst að allir muni þetta eða hafi yfirhöfuð tekið eftir því á sínum tíma. Fyrir einhverja ótrúlega tilviljun var nefnilega lítið um málið fjallað af hinni einstaklega hlutlausu fréttastofu Ríkisútvarpsins.

                                                                             * * *

Það kemur nokkuð á óvart í frumvarpsdrögunum að þar er mælt fyrir um að hámarksgreiðsla til hvers fjölmiðlafyrirtækis sé 50 m.kr. Um það þak hafa forsvarsmenn fjölmiðlanna tjáð sig í takt við hagsmuni. Vissulega er einhver stærðarhagkvæmni hjá stóru miðlunum og skriðþungi, en þar vantar oftar en ekki snerpuna, meðal annars af því að þeir eru hlutfallslega alveg jafn aðþrengdir og hinir minni. Það eru því engin rök fyrir svo lágu hámarki.

                                                                             * * *

Þetta kemur útgáfufélagi Viðskiptablaðsins hins vegar ákaflega vel. Það má segja að samkeppnisaðilarnir séu tveir, Morgunblaðið og Fréttablaðið. Báðir miðlar verða skertir. Því hljóta eigendur Mylluseturs, útgáfufélags Viðskiptablaðsins og Fiskifrétta, að senda ráðherranum annaðhvort væna summu í kosningasjóð Framsóknarflokksins eða að minnsta kosti kampavín um áramótin.

                                                                             * * *

Það kemur ekki sérstaklega á óvart að Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, hafi fagnað hámarkinu. Stefán Einar Stefánsson, sem hefur umsjón með viðskiptakálfi Morgunblaðsins, greindi stöðuna ágætlega á dögunum: „En skoðum málið aðeins nánar. Þórður Snær vill að skattgreiðendur greiði niður starfsemi Kjarnans. En hverju skilar sú starfsemi samfélaginu? Og er samfélagið betur sett vegna þessa brölts? Besta leiðin til að svara því er að skoða staðreyndir máls, „fréttaframleiðslu“ Kjarnans. Þegar þetta er skrifað, kl. 15:15, hefur eftirfarandi birst á þeim vettvangi frá miðnætti:

9:27 – „Milljarða fjárfestingar Íslandspósts“ (endursögn upp úr frétt Fréttablaðsins)
9:47 – „Vefsíða opnuð með frásögnum um kynferðisbrot og áreiti Jóns Baldvins“ (fréttatilkynning)
10:00 – „Ég er kampavínskommúnisti“ (1.318 orða pistill eftir Auði Jónsdóttur um hana sjálfa)
12:01 – „Hvað er modern monetary theory“ (aðsend grein eftir Ólaf Margeirsson, hagfræðing)
14:00 – „Nýjar víglínur að teiknast upp á átta flokka Alþingi („Fréttaskýring“ ritstjóra Kjarnans um stöðu stjórnmála í landinu. Enginn viðmælandi, ekkert nema skoðanir höfundar). Meðan á þessu stóð birtust á mbl. is 67 fréttir og inn um lúguna hjá áskrifendum barst 32 síðna blað sem prentað var í nótt og dreift um landið.”

                                                                             * * *

Óðinn veltir því reyndar fyrir sér hvort téður Þórður Snær fái greitt fyrir allar komurnar á Ríkisutvarpið eða hvort þetta sé bara ókeypis auglýsing fyrir Kjarnann í boði útvarps í almannaþágu (milli þess sem Þórður Snær annast dagskrárgerð á Hringbraut). Ætli Kjarninn muni senda reikning á Ríkisútvarpið, svo stofnunin „geti nýtt sér“ 25% endurgreiðslu ritstjórnarefnis til einkarekinna fjölmiðla?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.