*

fimmtudagur, 28. maí 2020
Huginn og muninn
5. apríl 2020 10:02

Rimma Moggans og Kína

Kínverjar svöruðu leiðara Morgunblaðsins — Kommúnistaflokkurinn nýtur óskoraðs stuðnings alls 1,4 milljarða landsmanna.

Davíð Oddsson, er annar ritstjóra Morgunblaðsins.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Alþýðulýðveldið Kína sendi Morgunblaðinu sneið í vikunni. Ástæðan var leiðari sem birtist í Mogganum á föstudaginn undir fyrirsögninni „Hið kínverska Tsjernobyl?“.

Í leiðaranum eru viðbrögð Kínverja við kórónufaraldrinum gagnrýnd. Var meðal annars bent á að fyrstu COVID-19-tilfellin hefðu verið greind mánuði áður en Kínverjar viðurkenndu að um faraldur væri að ræða. Í leiðaranum segir: „… stjórnvöld í Kína leggja sig nú í líma við að þagga umræðuna á ný, eða það sem verra er, reyna að breyta sögunni um upphaf faraldursins“. Ennfremur ritar leiðarahöfundur: „stjórnarfar, sem þolir ekki að sannleikurinn sé birtur, jafnvel þegar mannslíf liggja við, er ekki mikils virði.“

Á þriðjudaginn birtist yfirlýsing frá kínverska sendiráðinu í Morgunblaðinu, þar sem leiðaraskrifunum var mótmælt. Jin Zhijian er sendiherra Kína á Íslandi. Eftirfarandi klausa vakti athygli hrafnanna: „Síðan kínverski kommúnistaflokkurinn var stofnaður 1921 hefur flokkurinn leitt kínverska alþýðu til áður óþekkts sjálfstæðis og frelsis, auk þess að stuðla að sterkum efnahag og síauknum styrk þjóðarinnar og nýtur Kínverski kommúnistaflokkurinn óskoraðs stuðnings alls 1,4 milljarða landsmanna“. Í lok yfirlýsingarinnar segir: „Við vonumst innilega að Morgunblaðinu auðnist að verða víðsýnna, virða staðreyndir og láta af ómaklegum árásum á Kína.“

Þykir hröfnunum hér ansi fast að orði kveðið. Frelsi og víðsýni eru líklega síðustu orðin sem hröfnunum koma til hugar þegar þeir hugsa til Alþýðulýðveldisins í austri, þó vissulega hafi staðan batnað hin síðustu ár. Hvað þá sú staðhæfing að Kommúnistaflokkurinn njóti óskoraðs stuðnings allra íbúa landsins. Ætla hrafnarnir að láta sér duga að benda á að Kim Jong-un flytur svipaðar ræður. Gott ef hann nýtur ekki stuðnings 105% íbúa hins „Lýðræðislega Alþýðulýðveldis Kóreu“, betur þekkt sem Norður-Kórea.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.