*

miðvikudagur, 3. júní 2020
Andrés Magnússon
27. apríl 2020 07:46

Ritskoðun Katrínar

„Þetta er langt í frá eina dæmið um gömul pólitísk áhugamál, sem dregin hafa verið upp úr glatkistunni í kringum heimsfaraldurinn.“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Árni Sæberg

Síðastliðið vor bar það til tíðinda að þjóðaröryggisráð var kvatt saman að frumkvæði Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til þess að ræða fjölmiðlun og ógnir hennar. Greint var frá því að þar hefði hún tekið falsfréttir og upplýsingaóreiðu til umræðu, en að þjóðaröryggisráðið - vafalaust felmtri slegið - ráðgerði málþing næsta haust til að ræða þetta hugðarefni ráðherrans. Það segir sitt um neyðarástandið að málþingið var aldrei haldið.

Samt var það nú svo, eins og bent var á í þessum dálki hinn 6. júní í fyrra, að í þessu samhengi hefðu engin dæmi verið nefnd um að falsfréttir eða undirmál á netinu hefðu verið notuð til þess að grafa undan heilbrigðri þjóðmálaumræðu eða gangverki lýðræðisins á Íslandi. Ekki eitt einasta. Það eitt, að engin íslensk dæmi skyldu vera nefnd, hlyti að fá fólk til þess að staldra við í þeim efnum, enda sérstök ástæða til þess að fara að öllu með gát þegar tjáningarfrelsið væri annars vegar. Og eins og fyrr segir, þá virtust fleiri komast að þeirri niðurstöðu, því ekkert meira varð úr þessu.

Fyrr en núna, að þessu sérstaka áhugamál forsætisráðherrans skýtur allt í einu upp á yfirborðið, en nú auðvitað undir því yfirskyni að það varði sérstaklega heimsfaraldurinn. Þetta er langt í frá eina dæmið um gömul pólitísk áhugamál, sem dregin hafa verið upp úr glatkistunni í kringum heimsfaraldurinn, því nú er lag og stjórnmálamenn um allar trissur brenna í skinninu til þess að nota öll þau völd sem neyðarástandið hefur fært þeim. Misnota, með öðrum orðum. Rétt eins og menn horfa upp á þessa dagana hjá Orbán og Erdogan, kollegum Katrínar.

Rétt eins og í fyrra eru engin, alls ekki nein, dæmi nefnd um þetta. Svo hver er nauðsynin? Hvert er tilefnið?

Þorsteinn Friðrik Halldórsson, góður kollegi á Markaðnum, viðskiptakálfi Fréttablaðsins, skrifaði um þetta grein í gær. Þar sagði m.a.:

Eitt er á hreinu: Rangar upplýsingar um COVID-19 eru ekki og hafa ekki verið vandamál á Íslandi. Hér á landi hefur verið komið á tímabundnu sérfræðingaræði, leiddu af þríeykinu, sem leggur línurnar í beinni útsendingu á hverjum degi. Almenningur hlýðir yfirlögregluþjóninum, treystir sérfræðingunum og hefur lítið þol fyrir mótbárum.

Undirtónninn vekur ugg. Hvernig verður tekið á fréttum sem yfirvöld dæma rangar? Hverju á þessi vinna eiginlega að skila? [...] Það er áhyggjuefni ef íslensk stjórnvöld ætla að notfæra sér traust almennings á þessum tímum og óttann við veiruna til þess að vekja þau hughrif að yfirvöld séu eini handhafi sannleikans. Að sporna þurfi gegn upplýsingaóreiðu sem flækist fyrir.

Undir þetta skal heilshugar tekið.

* * *

Ekki þó kannski síður þegar horft er til samsetningar hópsins. Þar er þétt setinn bekkurinn úr ráðuneytunum, sem vafalaust telja sig handhafa sannleikans auk framkvæmdarvaldsins. Einn blaðamaður er þar líka, Guðrún Hálfdánardóttir af Morgunblaðinu, mætur blaðamaður, þó fjölmiðlarýni þyki það hreint ekki við hæfi að blaðamenn gefi sig að störfum sem þessum. Það er ámóta galið og ef sérfræðingur Morgunblaðsins í landbúnaðarfréttum tæki sæti í búvörunefnd.

En síðan rekur maður augun í að í nefndina er einnig skipuð Anna Lísa Björnsdóttir, sem sögð er samskiptamiðlafræðingur svo enginn efist um hæfi hennar, en alveg látið vera að greina frá því að hún sé starfsmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs! Google frændi hefur raunar aldrei áður séð þennan titil, samskiptamiðlafræðingur, en er það í alvöru verjandi að setja einhvern flokkshest inn í nefnd, sem á að fjalla um svo viðkvæm mál?

Þar er einnig Jón Gunnar Ólafsson, fjölmiðlafræðingur, vafalaust hinn mætasti maður, en þó að yðar einlægur hafi aldrei séð flokksskírteinið hjá honum, þá er hann viss um að það er líka í lagi hjá honum.

Þá er að nefna Elfu Ýr Gylfadóttur, framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar, sem einnig á sæti í vinnuhópnum. Hér hefur áður verið talsvert fjallað um störf hennar og nefndarinnar, svo lesandann rennir sjálfsagt í grun um hversu heppilega yðar einlægur telur hana í hópinn. Hitt er þó eiginlega hálfu verra, sem haft var eftir henni í Ríkisútvarpinu um störfin fram undan. Þar lét hún í ljósi áhyggjur af falsfréttum almennt, sem ýttu undir „tortryggni bæði gagnvart stjórnvöldum einstakra ríkja, gagnvart heilbrigðisyfirvöldum og til að grafa undan Evrópusambandinu".

Ha? Nú er það svo að jafnvel Evrópusambandið sjálft hefur gengist við því að hafa staðið sig slælega og beðist opinberlega afsökunar.

Er það virkilega svo að ríkisvaldið sé að fara að sporna gegn því að fluttar séu fréttir, sem gætu vakið vantraust á stjórnvöldum og jafnvel sjálfu Evrópusambandinu? Þá að gefnu tilefni sem tilefnislausu?! Þessi yfirlýsing bendir ekki til þess að dómgreindin sé í lagi þarna hjá fjölmiðlaeftirlitinu og hugmyndir um frjálsa fjölmiðlun og góða lýðræðisskipan ámóta mikil og hjá þeim Glerskeggi og Göbbels.

Twitter-færsla fyrrnefndrar Önnu Lísu gefur ekki betri vonir, en þar birti hún lista yfir blaðamenn og stjórnvöld, sem að hennar sögn birta bara réttar upplýsingar. Eva Hauksdóttir sagði af því tilefni í Kvennablaðinu: „Nú bíðum við bara spennt eftir listanum yfir þá blaðamenn sem ekki hljóta náð fyrir augum ritskoðenda." Sem er ekki bara hótfyndni. Enn síður þegar haft er í huga að meðal þeirra sem Anna Lísa treystir sérstaklega er Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO), sem sætt hefur sérstöku ámæli að undanförnu fyrir undirlægjuhátt við Kínverja og ranga miðlun upplýsinga um pláguna!

Hvernig eigum við að treysta upplýsingaóreiðuhópnum?

* * *

En kannski er þetta sem koma skal. Á upplýsingafundi hinn 11. apríl lýsti landlæknir yfir áhyggjum af falsfréttum, sagði að vísu að íslenskir fjölmiðlar væru almennt góðir, en gaf þó sitt í skyn með ráðleggingum til almennings um að „leita til fjölmiðla sem þegar hafa sýnt í verki að þeir eru traustsins verðir". Hvað næst? Að landlæknir birti lista um verðuga miðla og óverðuga, góða og vonda, leyfða og bannaða?

Það er rétt að muna að í ógnaröld frönsku byltingarinnar var hinn blóði drifni Robespierre einmitt forstöðumaður Lýðheilsustofnunar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.