*

föstudagur, 16. apríl 2021
Týr
13. desember 2020 13:09

Róbert Spanó og tyrkneski heiðurinn

Tvær þingkonur sem leiða Íslandsdeild Evrópuráðsins tóku hraustlega til varnar fyrir Róbert, svo eftir var tekið.

Róbert Spanó er forseti Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg.
Ómar Óskarsson

Við erum yfirleitt stolt af því þegar Íslendingum gengur vel erlendis. Þó ekki alltaf. Á ársfundi Evrópusambands blaðamanna sem haldinn var í nóvember var samþykkt harðorð ályktun gegn Róbert Spanó, forseta Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í Strassborg, og þess krafist að hann víki úr embætti vegna framgöngu hans í heimsókn til Tyrklands í september.

                                                                 ***

Í Tyrklandsreisunni hitti Róbert Erdogan forseta og þáði heiðursdoktorsnafnbót við háskóla í Istanbúl, hvaðan um 200 fræðimenn hafa verið reknir af pólitískum ástæðum. Eitt er að forseti MDE heimsæki löndin sem standa að dómstólnum en að fulltrúi stofnunar sem kennir sig við mannréttindi þiggi slíka viðurkenningu hlýtur að vekja upp áleitnar spurningar.

Evrópsk blöð á borð við Le Monde og Süddeutsche Zeitung hafa í kjölfarið birt harða gagnrýni á Róbert fyrir þetta. Um leið er því haldið fram af mannréttindafrömuðum að Róbert hafi hafnað að hitta stjórnarandstæðinga og mannréttindasamtök og að blaðamönnum og stúdentum hafi verið meinað að vera viðstaddir viðburði sem hann sótti.

                                                                 ***

Róbert lagði lykkju á leið sína til að sækja heim skóla í borginni Mardin sem reistur var fyrir fé frá fjölskyldu Saadet Yuksel, tyrkneska dómarans við MDE. Kvennahreyfing AKP, flokks Erdogans, birti fjórar myndir frá heimsókninni á Twitter. AKP eyddi svo færslunni og myndunum. Hvers vegna?

                                                                 ***

Útlit er fyrir að heimsókn hins íslenska forseta MDE hafi grafið undan trúverðugleika dómstólsins á alþjóðavettvangi. Við því má dómstóllinn ekki því undanfarin ár hefur hann hlotið mikla gagnrýni fyrir svokallaðar framsæknar lögskýringar í dómum sínum. Hann þykir þannig búinn að gleyma upphaflegu hlutverki sínu og farinn að gera tilraunir til að setja einstökum ríkjum lög.

Sú gagnrýni er ekki ný af nálinni og hefur ekkert með úrskurð hans í Landsréttarmálinu að gera. Tý er vel minnisstætt þegar David Cameron, þá forsætisráðherra Bretlands, sagði sig verkja um líkamann vegna máls sem MDE vildi þröngva upp á Breta. Meðal stjórnvalda í Bretlandi og Danmörku hefur það komið til alvarlegrar skoðunar að segja sig frá MDE.

                                                                 ***

Róbert Spanó á sér þó stuðningsaðila á Íslandi. Þingkonurnar Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tóku í haust hraustlega til varnar fyrir Róbert, svo eftir var tekið. Það vill reyndar svo skemmtilega til að þingkonurnar leiða Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins í Strassborg. Samkvæmt vef Alþingis hlaupa dagpeningar þeirra á nokkrum milljónum króna undanfarin ár.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.