Réttlætanlegt er fyrir lífeyrissjóðina að fjárfesta í RIKB 31 0124 (RIKB31) þar sem ójafna Jensens í verði flokksins er mest af þeim ríkis- og íbúðabréfum sem eru á markaði.

Samkvæmt nýjustu Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins og mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs hafa lífeyrissjóðirnir aukið stöðu sína í RIKB31 um 18,3 ma.kr. að nafnvirði á síðustu tólf mánuðum. Fyrir vikið hefur vægi flokksins af markaðsvirði eignasafns sjóðanna í skuldabréfum með ríkisábyrgð farið úr 6,7% í 8,2% samkvæmt KODIAK Excel. Enginn annar flokkur hefur vaxið svo mikið í vægi af heildarsafninu.

Sjóðirnir eiga nú um 83% af flokknum og geta því einungis aukið stöðuna um 15,5 ma.kr. að markaðsvirði – gefið að krafan haldist óbreytt frá síðastliðnum þriðjudegi.

Líkt og fjallað var um hér í ágúst 2014 er verðnæmni RIKB31 rúmlega tvöfalt meiri en hjá RIKB 19 0226 – og má því velta upp af hverju lífeyrissjóðirnir halda áfram að auka stöðu sína í flokknum.

Sérstaklega í ljósi þess að í síðustu fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands kemur fram að „[n]efndarmenn voru sammála um að einsýnt virtist að hækka þyrfti vexti umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum[…]“. Auk þess sem afnám fjármagnshafta er í sjónmáli og óvissa leikur um hvernig krónunni reiðir af við söfnun Seðlabankans á gjaldeyri fyrir 300 ma.kr. aflandskrónuútboðið í október.

Öll rök virðast bera að sama brunni – að stytta þurfi meðaltíma eigna til að hagnast á hækkandi vöxtum. Á hinn bóginn eru haldbær rök fyrir því að sjóðirnir horfa til RIKB31. Má þar nefna i) af honum er tryggingafræðilegur hagnaður, ii) meðaltími flokksins er 9,7 ár sem fellur vel að löngum meðaltíma áfallinna skuldbindinga sjóðanna, og iii) búast má við litlum söluþrýsting vegna þröngs eignarhalds.

Með það sem sitt helsta markmið að tapa ekki eignum sjóðsfélaga horfa sjóðirnir til þess hversu mikil ójafna Jensens er í fjárfestingartækifærum. Markmiðið er að hún sé sem mest þar sem hún lýsir því hversu mikið hraðar hagnaður af eigninni eykst fram yfir tap ef undirliggjandi breytu er hnikað um sömu stærðargráðu til hins betra eða verra.

Í tilfelli skuldabréfa er horft til þess hversu miklu munar milli meðaltals verðsins og verðsins miðað við meðaltal ávöxtunarkröfu. Myndin sýnir ójöfnuna í tilfelli RIKB31. Þannig er hagnaðurinn ójafn að ef ávöxtunarkrafan lækkar um 500 punkta frá ávöxtunarkröfu síðastliðins þriðjudags hækkar verðið um 68% en ef krafan hækkar um 500 punkta lækkar verðið einungis um 35%.

Ójafnan er mest í verði RIKB31 af þeim ríkis- og íbúðabréfum sem eru skráð á markað. Fyrir vikið verður að teljast vel réttlætanlegt að lífeyrissjóðirnir auki við sig í flokknum.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.