Á samfélagsmiðlum opnast oft áhugaverð umræða, sérstaklega ef maður býr svo vel að þekkja fólk alls staðar að úr heiminum.

Ég viðurkenni að ég hef gert mér þar að leik að etja saman fólki með andstæð sjónarmið með því að tengja það við einhverja grein eða myndband sem er líklegt til að vekja umræðu þegar ég veit að viðkomandi hafa andstæðar skoðanir.

Það er kannski ekki rétt að kalla þetta leik því það er mjög upplýsandi og skemmtilegt að setja sig í spor annarra og sjá rök þeirra fyrir sínum málum. Opnar það oft á að maður skilji betur hvaðan skoðanir þeirra koma og hvernig viðkomandi hugsar.

Stundum finnst manni þó rök annars aðilans svo borðleggjandi sterkari að hin hliðin hljóti að byggja á ákveðnu þekkingarleysi eða eins og Reagan forseti kallaði það, að þeir viti svo margt sem sé ekki rétt.

Eitt slíkt dæmi er sérlega málefnalegt myndband frá Heri Joensen, forsvarsmanni færeysku þungarokksveitarinnar Tyr, sem vakið hefur nokkra athygli á samfélagsmiðlum að undanförnu. Í myndbandinu gagnrýnir hann að í kjölfar þess að hann deildi mynd af sér við að gera að grindhval sem veiddist í heimabæ sínum hafa samtök hvalveiðiandstæðinga reynt að eyðileggja tónlistarferil hans.

Í myndbandinu fer hann skref fyrir skref yfir það sjónarmið sitt að andstæðingar grindhvalaveiðanna byggi hugmyndir sínar fyrst og fremst á tilfinningum en ekki staðreyndum sem hann listar upp.

Áhugaverðasti punkturinn er þó að mínu mati gagnrýni hans á þau rök að ekki lengur þurfi slíkar aðferðir til að afla sér matar, sem hann segir merkingarlaus. Spyr hann áhorfendur hvort ekki sé alveg eins hægt að hugsa það þannig að með veiðunum þurfi ekki jafnmörg dýr að þjást við að lifa og deyja í haldi.

Það hefur nefnilega oft komið mér á óvart hvernig sama fólkið og gagnrýnir oft á tíðum ógeðfelldar aðstæður í nútímalegum verksmiðjubúskap geti á sama tíma verið á móti hvalveiðum. Spyr ég stundum viðkomandi í kjölfar þess að hafa tekist að fá þá til að lýsa aðdáun sinni á lífsferli íslensku sauðkindarinnar hver sé munurinn á því að éta lambakjöt sem fengið hefur að valsa sjálfala um íslenskar heiðar mestalla ævi sína og að veiða hvali. Viðbrögðin sem ég fæ við þeirri spurningu eru oft óborganleg.