Fyrir ekki mjög löngu var töluvert fjallað um mannhelgi og opinbert einelti upp úr hruni, bæði gagnvart stjórnmálamönnum, bankafólki og öðru áberandi fólki úr athafnalífinu. Þar var sérstaklega fjallað um þann aðsúg sem ýmsir óþokkar gerðu að Steinunni V. Óskarsdóttur með því að sitja um heimili hennar og þá ógn sem fjölskylda hennar mátti búa við.

Þeirri spurningu var meðal annars fleygt fram hvort konur hefðu fremur hafðar að skotspóni með þessum hætti en karlar. Þó vissulega megi einnig nefna dæmi um karlmenn, sem urðu fyrir slíkum aðsúgi og árásum á friðhelgi heimila þeirra og eignir, þá er erfitt að verjast þeirri hugsun að konurnar hafi þótt liggja betur við höggi.

Þetta var skammarlegur kafli í hinni ömurlegu sögu bankahrunsins, en eins og áður hefur verið minnst á hér í dálkinum vakti umfjöllun fjölmiðla um þessi mál á sínum tíma ýmsar spurningar. Sumar fréttirnar voru afar þurrar, líkt og það væri varla í frásögur færandi að veist væri að fólki eða skemmdarverk unnin á heimilum þeirra, en einu sinni var meira að segja komist svo á orði að tiltekinn skemmdarvargur hefði „staðið vaktina“ nóttina áður! Ekki nóg með það, því einnig mátti sjá umfjöllun um tilteknar eignir útrásarvíkinga úr almannaleið, með mynd og staðarákvörðun, svona ef þær hefðu farið fram hjá mönnum.

***

Fjölmiðlar eiga að segja fréttir og eiga að láta það vera að draga taum einhverra í þeim. Staðreyndirnar tala yfirleitt sínu máli og lesendur, hlustendur og áhorfendur geta dregið eigin ályktanir.

Það þýðir þó ekki að fjölmiðlar eigi að flytja fréttir úr einhverju tómarúmi. Þegar það eru umbrot í þjóðfélaginu er eðlilegt að fréttirnar beri þess merki. En þeir verða að varast það að verða múgæsingu að bráð. Eða að efna til hennar, hvort sem það er gert í ógáti, vegna þess að hugsjónir villa mönnum sýn eða af einhverri óljósri löngun til þess að fylgja tíðarandanum. Um allt þetta má nefna ýmis dæmi frá dögum hrunsins, flest fremur saklaus og eftir á að hyggja aðallega hlægileg. En sum voru það alls ekki.

Önnur dæmi eru ekki svo gömul, að hægt sé að kenna um hugaræsingu hrunsins. Það eru ekki liðin tvö ár síðan einhver aðgerðahópurinn efndi síðast til mótmæla við heimili stjórnmálamanns, án þess að það sætti sérstökum tíðindum hvað þá fordæmingu. Það eru ekki heldur liðin tvö ár síðan okkur var sagt það í fréttatíma Stöðvar 2 að byltingin væri hafin.

***

Þetta rifjaðist upp í vikunni í umfjöllun tengdum dómaraskipan í Landsrétt, sem nokkuð hefur verið til umfjöllunar undanfarna mánuði og enn sér ekki fyrir endann á. Sú umfjöllun hefur auðvitað verið upp og ofan eins og gengur. Þarna ræðir um mikilvæg málefni dómsvaldsins í landinu, sem tengjast bæði alvarlegum stjórnskipulegum álitaefnum og hinu daglega stjórnmálaþrasi.

Þar, líkt og í öðrum fréttum, þurfa fjölmiðlar að flytja fréttir af kostgæfni og sanngirni, leyfa andstæðum sjónarmiðum að koma fram, gæta þess að hagsmuna viðmælenda og tengsla sé getið, varast að láta hlutaðeigendur og heimildarmenn ráða ferðinni og fylgja hinni fornu meginreglu um rólegan æsing.

Gott dæmi um það var þegar Vilhjálmur Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður krafðist þess á dögunum að einn dómara við Landsrétt viki sæti í dómsmáli sem honum hafði verið úthlutað, þar sem dómaraskipunin í réttinn væri vafa undirorpin. Á Alþingi tóku valinkunnir lögspekingar á borð við Helgu Völu Helgadóttur og Jón Þór Ólafsson undir þetta, en þetta varð Ríkisútvarpinu tilefni mikilla frétta af „mjög alvarlegri réttaróvissu“.

Vilhjálmur var auðvitað aðeins að vinna vinnuna sína, að veifa tiltækum trjám og gera ítrustu kröfur fyrir umbjóðanda sinn með því að ráðast fyrst á formið, í þessu tilviki réttinn sjálfan. Á því hefur hann engu að tapa. Ekki frekar en stjórnarandstöðuþingmennirnir sem þarna tóku ekki óvænta afstöðu.

Það þýðir samt ekki að RÚV þurfi að enduróma þau sjónarmið umhugsunarlaust, bara af því að það voru notuð stór orð eins og „alvarleg réttaróvissa“. Hefði fréttastofan spurt lögmann eða jafnvel notað leitarvélina á vef Hæstaréttar, hefði hún t.d. séð að í dómi Hæstaréttar í fyrra var kveðið upp úr um að það væri „ekki á valdi dómstóla að ákveða hverja skuli skipa í embætti dómara við Landsrétt“.

Ætli það sé ekki vísbending um alvarleika þessarar réttaróvissu og úrlausn hennar fyrir dómi?

***

Sá æsingur fréttastofu RÚV var hins vegar fjarskalega rólegur í samanburði við það sem mætti manni á síðum DV varðandi þessi sömu mál. Þar mátti um helgina lesa grein um „Fimm sem gætu tekið við dómsmálaráðuneytinu“, sem var svona frekar hæpið gaspur um fólk sem gæti tekið við dómsmálaráðuneytinu af Sigríði Á. Andersen, en forsendan var uppgefin í inngangi, að margir teldu „að dagar hennar í embætti [væru] taldir vegna landsréttarmálsins“.

Þetta var nú allt frekar skrýtið, enda var greinin fjarlægð síðar. Ekki síður var þó einkennilegt að með greininni fylgdi mynd af Sigríði þar sem búið var að krossa hana út. Er það nú vel við hæfi? Það var þó ekkert hjá Sandkorni — ómerktum slúðurmola DV — undir fyrirsögninni Já og amen, sem var ekki einu sinni slúður, heldur frekar þunn hugleiðing um Sigríði, vantrauststillögu og vinstrigræn.

Svolítið skrýtin skrif, en aftur var það myndbirtingin, sem rétt er að staldra við. Þar var í grunninn notuð sama mynd og áður hafði verið krossað yfir, en í þessari útgáfu var Sigríður höfð í sjónmáli byssukíkis! Það er ekki í lagi og raunar sést að ritstjóri DV hefur verið sama sinnis, því myndin hefur síðan verið fjarlægð og passamynd af dómsmálaráðherra sett inn í staðinn.

***

Þetta er ekki bara eitthvert misheppnað grín. Fjölmiðlar bera ábyrgð á efni sínu og svona lagað getur vel haft afleiðingar á öfgasinna og óstöðugt fólk.

Fyrir nokkrum árum var bandaríska þingkonan Gabrielle Giffords skotin eftir að andstæðingar hennar höfðu birt myndir af henni með ámóta skotmarki. Nær okkur má nefna dráp bresku þingkonunnar Jo Cox, en það mætti líka nefna dæmi þar sem íslenskt stjórnmálafólk hefur sætt ásókn geðbilaðs fólks, jafnvel svo að litlu mátti sennilegast muna að hræðilega færi.

Fjölmiðlar mega vel láta til sín taka og þeir mega gjarnan láta valdhafa og mektarbokka, frægðarfólk og aðra heyra það þegar þeim þykir þörf á. En það er ekki sama með hvaða hætti það er gert og fjölmiðlar eiga ekki frekar en nokkur maður að óska öðrum ills. Svo enn og aftur: Rólegan æsing.