Nú er nær öruggt að Mitt Romney verður frambjóðandi Repúblikanaflokksins í forsetakosningum í Bandaríkjunum í nóvember. Áhugavert verður að fylgjast með því hvernig íslenskir fjölmiðlar og skoðanaþáttastjórnendur fjalla um kosningarnar, en ég held að ég geti giskað á helstu strauma og stefnur í þeirri umfjöllun.

Eins og í öllu sem viðkemur bandarískri pólitík eru íslenskir fjölmiðlar, með örfáum undantekningum, því miður aðeins endurspeglun á viðhorfum og fréttum örfárra bandarískra blaða sem koma út í New York og Washington.

Algengt umkvörtunarefni íslenskra kaffihúsaspekinga er það hve langt til „hægri“ bandarískir repúblikanar eru. Þeir hafi engin áhugamál önnur en að hlekkja konur við eldavélar, afnema alla skatta á hina ofurríku og sparka út úr landinu öllum sem ekki eru skjannahvítir á litinn. Þá sé Repúblikanaflokknum stjórnað af öfgasinnuðum kristnum bókstafstrúarmönnum.

Þegar flokkurinn tekur svo ítrekað upp á því að velja frekar hófsama forsetaframbjóðendur en ofuríhaldsmenn (George H. W. Bush í stað Pat Robertson árið 1988, Bob Dole í stað Pat Buchanan árið 1996 og John McCain í stað Mike Huckabee árið 2008 svo dæmi séu tekin) lenda þessir íslensku gáfumenn í vandræðum, því niðurstöðurnar eru ekki í samræmi við kenninguna. Almennt er þetta afgreitt þannig að hinn hófsami sé í raun alveg jafn öfgafullur og slæmur og sá sem var hafnað, eða þá að hann sé vit- og viljalaust handbendi illgjarnra manna.

Mitt Romney hefur hingað til verið hinn hófsami í forkosningunum í samanburði við hinn félagslega íhaldssama Rick Santorum og hinn stórfurðulega og óútreiknanlega Newt Gingrich. Nú þegar Romney er nánast búinn að pakka forkosningnunum saman geri ég ráð fyrir því að ímynd hans muni taka breytingum í fréttaskýringum íslenskra fjölmiðla.

Ég spái því þess vegna að sú mynd sem dregin verður upp af Mitt Romney hér á landi verði sú að hann sé ofurríkur, gráðugur og hjartalaus maður sem sé í engum tengslum við venjulegt fólk. Þá verður mikið gert úr því að maðurinn er mormóni og munum við væntanlega fá nákvæma útlistun á því hversu undarleg þau trúarbrögð eru og þar með maðurinn sjálfur. Í raun hafa allir Bandaríkjaforsetar úr Repúblikanaflokknum almennt verið dregnir í annan tveggja dilka: Þeir sem eru vitlausir og þeir sem eru illgjarnir. Gerald Ford og Bush yngri voru málaðir sem vitleysingar og Reagan sem illmenni.

Erfitt verður að sannfæra fólk um að Romney sé vitleysingur og því er ekkert fyrir hinar malandi stéttir að gera annað en að telja sér trú um að hann sé handbendi djöfulsins.