Stundum er talað um að stigvaxandi bæting sé best en veistu hvað er mikill kraftur fólginn í því að hrista upp í hlutunum? Almennt finnst fólki breytingar óþægilegar, það er eitthvað notalegt við að ganga að hlutunum eins og þeir hafa alltaf verið, eins og fyrsti kaffibolli dagsins, en of mikið af góðu kaffi verður meira að segja beiskt á endanum.

Fyrir frumkvöðla, fólk með nýsköpunareld í brjósti, þá er vel heppnuð röskun (e. disruption) oft tilgangur og markmið. Vöxtur er krefjandi, sérstaklega þegar verið er að breyta leiknum, en það á að vera þannig. Spila til að vinna, ekki fyrir þátttökuverðlaun.

Sá tími kemur að nauðsynlegt er að taka ákvarðanir í aðstæðum þar sem ekki er stjórn á öllum þáttum og markaðurinn hreyfir sig hraðar en þitt fyrirtæki. Hvað ætlar þú að gera? Breyta núverandi strategíumódeli: eru nýir markaðir sem ætti að einblína á, markhópar með óleystar þarfir sem samkeppnin hefur ekki komið auga á en hugsanlega, umfram allt, er stafræna umbreytingin komin á það stig sem þarf til að skapa færi – ekki aðeins að bregðast við? Það að gera kjarnabreytingar skilar sér í framþróun, vexti og hlutdeild á réttum mörkuðum – en til þess þarf djarfari stjórnun og sterka fyrirtækjamenningu.

Ef þú vilt röskun í þínum geira er líklegt að þú verðir að valda truflun í þínu eigin fyrirtæki fyrst. Spáðu í Netflix, klassískt dæmi. Til að byrja með hóf fyrirtækið göngu sína með póstsendingum á DVD-diskum. Þegar straumspilun varð að veruleika ákvað Netflix – frekar en að hætta á að láta nýja tækni gera sig hornreka – að fagna þróuninni með nýjum valkostum. Í dag safnar fyrirtækið gögnum til að beina uppástungum um kvikmyndir og sjónvarpsþætti á einstaklingsbundinn hátt til notenda sinna. Ágætt dæmi um innri röskun.

Það er áskorun að vera á undan bylgjunni. Góð hugmynd er gulls ígildi og dugnað skal aldrei tala niður en ef þú ætlar að hrista rækilega upp í þínum bransa þá gæti verið gott að hafa eftirtalin atriði í huga.

Hverju mun þetta breyta, raunverulega?

Munurinn á breytingu og röskun er áhrifamátturinn til lengri tíma. Ef verið er að bæta vöru eða þjónustu þá er það ágætur grunnur til að taka næstu skref en ef það á að stuðla að röskun á markaðnum þá er farið skrefinu lengra, út fyrir kassann, eða ný leið fundin til þess að leysa vandamál sem markaðurinn var ef til vill ekki búinn að koma auga á. Eitt sinn ef bók vantaði, var leiðin að heimsækja bókabúð í von um að til væri eintak. Amazon bauð upp á nýjan valkost, meira úrval og heimsendingu. Núna er fyrirtækið smásölurisi sem raskar brönsum.

Hvað vantar? Ertu með tilfinningu um eitthvað sem gæti þróast og stækkað, eru trend á markaði sem vert er að setja þunga í að skoða? Ef þú getur fundið upp leið til að uppfylla langanir og þarfir á nýjan hátt eða leysa vandamál sem ekki er verið að sinna er góður möguleiki á að hrista upp í bransanum. Mundu að þetta á ekki að vera auðvelt.

Veldu sköpun og nýbreytni fram yfir „bestu starfsvenjur“

Getur þú orðið aðilinn eða fyrirtækið sem nær því að raska bransanum? Hvernig er venjan hjá þér, er hugsanlegt að samþykktar og rótgrónar starfsvenjur standi í vegi fyrir nýsköpun og tækifærum til þess að sækja – er t.d. rými fyrir rýni og sköpun? Til að finna „rétta“ vandamálið til að byrja á að leysa skaltu skoða markaðinn á þann hátt sem getur reynst rótgrónum fyrirtækjum áskorun. Hafa vissulega úrræði og reynslu en stundum er ákvarðanaferillinn lengri og verið er að vinna með kerfi sem eru þung í vöfum. Þrátt fyrir yfirbyggingu og það taki tíma að ná hraða, geta þau með góðu þéttu tempói brugðist við breytingum á þörfum neytenda, áhuga og kröfum. Og náð góðum skriðþunga.

Þegar allt kemur til alls þá snúast „starfsvenjur“ um það sem hefur þegar verið gert og hefur virkað vel en er eitthvað breytt? Ný færi?

Láttu tækni og gögn gera sitt

Það skiptir engu máli hvaða grein þú reynir að hrista upp í eða á hvaða hátt þú reynir að gera það; gögn og tækni eru ansi mögnuð séu þau nýtt. Tækni umbyltir ekki bara, hún breytir því hvernig við högum okkar lífi. Ef fylgst er með markaðnum og athugað hvar áhugi á nýsköpun er mestur þá getur það verið vísbendingu um um hvaða svið eru tilbúin fyrir röskun.
Sem dæmi má nefna að þrátt fyrir að póstsendingar Netflix á DVD-diskum hefðu þegar króað samkeppnina af strax í kringum árið 2000, þá var það ekki fyrr en tæknin réð við myndstreymi sem stór röskun átti sér stað, vídeoleigur mannstu? Þegar Netflix er í auknum mæli farið að framleiða eigin afurðir, þá gerir notkun fyrirtækisins á gögnum persónulegri upplifun mögulega og leiðir til frekari nýsköpunar.

Breytingar eiga sér stað á hverjum degi og vera bara aðeins betri en hinn valkosturinn er ekki uppskrift að langvarandi velgengni. Ef verið er að sækjast eftir áhrifum þá skalt þú vera sú röskun sem leiðir fyrirtækið þitt og starfsgrein inn í framtíðina. Röskun gerir kleift að meta ógn sem stafar af ytri aðstæðum á markaði og skapar tæki færi til að knýja fram vöxt. Þótt áherslan sé á röskun þá er endurnýjun og nýsköpun mikilvægur þáttur í vaxtarstefnu. Ígrunduð nálgun að breytingum borgar sig.

Höfundur er forstöðumaður þjónustu og markaða hjá Póstinum.